Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Sú orka, sem rafmagnstæki eyða ef ekki er slökkt á þeim að fullu, samsvarar um 5 prósentum af rafmagnsreikningi hjá meðalfjölskyldu í Kanada. — NATIONAL POST, KANADA.

◼ Skoðanakönnun í Rússlandi leidd í ljós að Rússum þykir mikilvægast að stjórnvöld berjist „gegn spillingu“ og „stemmi stigu við verðhækkunum“. — PRAVDA, RÚSSLANDI.

◼ Samkvæmt einni könnun hafa 26,4 prósent 12 ára barna í Taívan „hugleitt að svipta sig lífi“. — THE CHINA POST, TAÍVAN.

◼ „Þótt aukin tækni hafi stuðlað að því að stytta vinnuviku Bandaríkjamanna að meðaltali um 38% á einni öld hafa launþegar samt sem áður ekki meiri frítíma. Ástæðan er sú að það tekur lengri tíma að ferðast til og frá vinnu, fólk fer í endurmenntun og húsverkin hafa aukist.“ — FORBES, BANDARÍKJUNUM.

◼ Losun gróðurhúsalofttegunda í iðnríkjum heims jókst um 1,6 prósent milli áranna 2003 og 2004 og er það „mesta losun í meira en áratug“. — REUTERS, OSLÓ Í NOREGI.

Ofbeldi gegn börnum

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á að „ofbeldi sé hluti af daglegu lífi margra barna“. Samkvæmt nýlegri skýrslu á vegum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna „voru næstum 53.000 börn myrt um allan heim árið 2002“. Þar að auki eru milljónir barna látin vinna nauðungarvinnu, stunda vændi eða eru notuð í tengslum við barnaklám. Er hægt að koma í veg fyrir slíka illsku? Í skýrslunni segir: „Það sem getur verið börnum til verndar á heimilinu eða annars staðar er meðal annars gott uppeldi, sterk bönd milli foreldra og barna og uppbyggjandi agi án ofbeldis.“

Góðir vinir og langlífi

Það að eiga marga góða vini getur hugsanlega lengt æviskeið manna, segir í tímaritinu Journal of Epidemiology and Community Health. Nálega 1.500 Ástralar, 70 ára og eldri, tóku þátt í könnun sem gerð var á 10 árum til að athuga hvaða áhrif vináttubönd hefðu á ævilengd fólks. Þeir sem áttu marga góða vini voru með 22 prósent lægri dánartíðni en þeir sem áttu fáa vini. Í greininni segir að góðir vinir hafi líka jákvæð áhrif á aldraða hvað varðar „þunglyndi, trú á eigin færni, sjálfsvirðingu, félagsanda og hæfni til að takast á við vandamál og að hafa stjórn á lífinu“.

Eyðslusamir neytendur

Árið 2004 hentu Ástralar óskemmdum matvælum að verðmæti 270 milljarða íslenskra króna, samkvæmt skýrslu frá rannsóknarstofnuninni The Australia Institute. Það er 13 sinnum meira en þeir gáfu til hjálparstarfa erlendis árið 2003. Alls eyða Ástralar yfir 540 milljörðum íslenskra króna á hverju ári í vörur og þjónustu sem þeir nota sjaldan eða aldrei. Þetta er hærri upphæð en þjóðin ver til reksturs háskóla og vegagerðar.