Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Lofaðu mér að þjóna þér, Jehóva“

„Lofaðu mér að þjóna þér, Jehóva“

„Lofaðu mér að þjóna þér, Jehóva“

DANIELLE HALL SEGIR FRÁ

Þegar ég var lítil fannst mér mjög gaman að heimsækja ömmu sem bjó í næsta húsi. Hún fékk sér síðdegisblund á hverjum degi. Ef svo vildi til að ég kæmi í heimsókn á þeim tíma sátum við saman uppi í rúminu hennar og hún las fyrir mig sögur úr Biblíunni. Hún sagði oft við mig: „Gleymdu aldrei að Jehóva elskar þig. Og ef þú elskar hann mun hann ávallt annast þig.“ Orð hennar greyptust djúpt í huga minn og hjarta.

AMMA lést árið 1977. Þá var ég fjögurra ára. Hún var vottur Jehóva eins og allir ættingjar pabba í heimaborg okkar, Moe í Ástralíu. Foreldrar mínir voru ekki vottar en pabbi var vinveittur í þeirra garð. Seinna fluttist fjölskyldan til Tintenbar, sem var lítill bær nálægt ströndum Nýja-Suður-Wales. Þar fórum við Jamie, eldri bróðir minn, stundum á safnaðarsamkomur með pabba.

Foreldrar okkar skildu þegar ég var átta ára. Pabbi flutti aftur til Moe en við Jamie urðum eftir hjá mömmu. Hún hafði ekki áhuga á Biblíunni og vildi ekki að við færum á samkomur hjá Vottum Jehóva. Mér þótti það mjög leiðinlegt. Orð ömmu bærðust innra með mér. Ég vissi að ég elskaði Jehóva og mig langaði til að þjóna honum. Því bað ég til hans og sagðist líka vera vottur hans. Jamie var eins innanbrjósts.

Prófraunir í skólanum

Stuttu síðar bað kennari í skólanum hvern nemanda í bekknum að segja hverrar trúar hann væri til þess að hann gæti skrifað það í bekkjarskrána. Þegar röðin kom að Jamie svaraði hann hátt og skýrt: „Vottur Jehóva.“ Kennarinn gerði stutt hlé og bað hann um að endurtaka svarið. Jamie gerði eins og hann var beðinn um: „Ég held að það sé ekki rétt, en ég tala við þig á eftir,“ sagði kennarinn. Þegar kom að mér svaraði ég líka hátt og skýrt: „Vottur Jehóva.“ Kennaranum var greinilega þungt í skapi og gerði boð eftir skólastjóranum.

„Ég er með innritunargögn ykkar fyrir framan mig og foreldrar ykkar skráðu ykkur ekki sem Votta Jehóva,“ sagði skólastjórinn ákveðinn. Við svöruðum kurteislega: „En það er það sem við erum.“ Hvorki hann né kennarinn minntust framar á málið.

Í skólanum reyndi ég að segja bekkjarsystkinum frá því sem stendur í Biblíunni eftir því sem ég hafði þekkingu til. Ég tók með mér bókina Biblíusögubókin mín og las öðru hverju sögur fyrir stelpu sem trúði á Guð. * Vegna þess að ég reyndi að fara eftir stöðlum Biblíunnar varð ég aldrei sérstaklega vinsæl og stundum var ég mjög einmana.

Ég bað svo oft og ákaft til Jehóva að hann varð nánasti vinur minn. Á hverjum degi þegar ég kom heim úr skólanum settist ég á rúmið og sagði Jehóva í smáatriðum frá því sem á daginn hafði drifið. Ég grét oft. Meðan tárin runnu niður kinnarnar bað ég heitt: „Jehóva, lofaðu mér að þjóna þér með fylgjendum þínum.“ Þegar ég hafði lokið bæninni leið mér miklu betur.

Uppörvandi bréf

Þegar ég var tíu ára fluttist Jamie til pabba í Moe og ég varð enn einangraðri í trúnni. En þegar ég var í heimsókn hjá nágranna sá ég nokkur rit sem gefin voru út af Vottum Jehóva. Í flýti lagði ég heimilisfang deildarskrifstofunnar á minnið og flýtti mér heim til að skrifa það niður. Ég skrifaði þangað einlægt bréf og útskýrði hvernig málum væri háttað hjá mér og bað um andlega hjálp. Mér var svarað með hlýlegu tveggja síðna bréfi sem eingöngu var ætlað mér og ég táraðist við að lesa það. Þetta var sönnun þess að ég var dýrmæt í augum Jehóva.

Í bréfinu var ég hvött til að líkja eftir trú ungu stúlkunnar frá Ísrael sem þjónaði Naaman, hershöfðingja í Sýrlandi á biblíutímanum. Hún var trúföst Jehóva, Guði sínum, þó að hún hafi verið tekin herfangi og byggi fjarri föðurlandi sínu. Hún kom fram sem sannur vottur hans með því að segja hugdjörf frá trú sinni. — 2. Konungabók 5:1-4.

Í bréfinu frá deildarskrifstofunni stóð einnig: „Þar sem þú ert ung að árum skaltu þjóna Jehóva með því að vera foreldrum þínum hlýðin og vera samviskusamur nemandi í skólanum. Þú þarft einnig að halda nánu sambandi við Jehóva með því að biðja og nema orð hans.“ Í lok bréfsins stóð: „Mundu það Danielle, að hvar sem við eigum heima er Jehóva alltaf nálægt okkur. Við vitum að þú trúir því.“ (Rómverjabréfið 8:35-39) Þetta bréf, sem nú er orðið gamalt og lúið, liggur fremst í Biblíunni minni. Á umliðnum árum hef ég oft lesið það en aldrei án þess að fella tár.

Stuttu síðar fékk ég annað bréf þar sem ég fékk að vita að faðir minn hefði komið því í kring að ég fengi send ritin Varðturninn og Vaknið! Ég varð himinlifandi! Nú fékk ég reglulega sendar birgðir af andlegri fæðu. Í hvert skipti sem tölublað barst mér las ég það frá upphafi til enda. Ég á enn fyrstu eintökin af þessum dýrmætu blöðum. Um þetta leyti fór safnaðaröldungur úr söfnuðinum á staðnum að líta við hjá mér. Þessar heimsóknir voru mjög uppörvandi þótt hann hefði skamma viðdvöl.

Breytingar til hins betra

Þótt þetta hafi styrkt trú mína langaði mig samt til að tilbiðja Jehóva með söfnuðinum. Þegar ég var orðin 13 ára spurði ég því móður mína hvort ég mætti búa hjá pabba. Okkur mömmu þótti mjög vænt hvor um aðra en ég var ákveðin í að þjóna Guði. Þegar hún gaf leyfi sitt fór ég til Moe og byrjaði að nema Biblíuna með söfnuðinum þar. Með samþykki pabba fórum við Jamie einnig að sækja allar safnaðarsamkomur. Vottarnir lögðu lykkju á leið sína til að hjálpa okkur. Við systkinin tókum örum andlegur framförum og létum síðar skírast með fárra mánaða millibili. Bernskubænum mínum var vissulega svarað. Ég þjónaði Jehóva með tilbiðjendum hans.

Á meðan þessu fór fram myndaðist gott samband á milli mín og föðursystur minnar, Lorraine, og eiginmanns hennar, Philips Taylors, sem voru einnig í Moe-söfnuðinum. Ég var þeim eins og dóttir. Þau ákváðu að flytja til Bougainville-eyjunnar, sem tilheyrir Papúa Nýju Gíneu, en þar var þörfin fyrir boðbera fagnaðarerindisins mikil. Þegar þau buðu mér að koma með sér sló ég til á stundinni. Ég var aðeins 15 ára en foreldrar mínir leyfðu mér að fara.

Í Bougainville hélt ég áfram skólanáminu í bréfaskóla. Að öðru leyti varði ég mestum tíma mínum í að boða fagnaðarerindið. Það var mikil gleði að starfa með trúboðum og brautryðjendum. Ég hafði aldrei kynnst eins auðmjúku fólki og því sem bjó á staðnum og margir höfðu mikinn áhuga á að kynna sér Biblíuna.

Þegar líða tók á árið brutust út stjórnmálaátök og það var orðið of hættulegt fyrir mig að vera um kyrrt. Það var átakanlegt að fara frá þessari litlu eyju og því dásamlega fólki sem þar bjó. Þegar litla flugvélin hóf sig á loft sá ég Philip þar sem hann stóð við flugbrautina og veifaði mér í kveðjuskyni. Á meðan ég grét og grét sárbað ég Jehóva í hljóði um að leyfa mér einhvern tíma að starfa sem trúboði í framandi landi.

Fleiri bænheyrslur

Þegar ég kom aftur til Ástralíu og hafði lokið grunnskólanámi vann ég við skrifstofustörf á lögfræðistofu. Pabbi hafði þá gengið í annað sinn í hjónaband og sá farborða stórri stjúpfjölskyldu. Jamie bjó hjá mömmu. Um tíma var ég á þeytingi milli foreldranna. Lífið virtist flókið. Ég þurfti að einfalda líf mitt og einbeita mér að andlegum markmiðum. Árið 1994 gerðist ég brautryðjandi í Moe, eða boðberi í fullu starfi.

Ég tók aftur gleði mína. Vinir mínir voru andlega sinnaðir unglingar í söfnuðinum og þeir urðu mér stoð og stytta. Árið 1996 veitti Jehóva mér mikla gjöf þegar ég giftist Will, einum úr vinahópnum. Hann var alúðlegur, góður og auðmjúkur maður.

Við komum okkur fyrir og hamingja okkar virtist fullkomin. Dag einn kom Will heim. Hann hafði verið að starfa með farandumsjónarmanninum sem var að heimsækja söfnuði á svæðinu. Will bað mig um að setjast og sagði síðan: „Myndir þú vilja flytja til að aðstoða annan söfnuð?“ Innra með mér var ég strax tilbúin til þess. Ég spurði samt í gamansömum tón: „Hvert? Vanúatú? Fíji?“ Þegar Will sagði „Morwell,“ datt út úr mér: „En það er hér í næsta nágrenni!“ Við hlógum bæði og vorum sammála um að gaman yrði að flytja til nágrannasafnaðarins og þjóna þar sem brautryðjendur.

Næstu þrjú árin í Morwell voru ánægjuleg og starfið gekk vel. Þá kom upp annað óvænt atvik. Við fengum boð frá deildarskrifstofu Votta Jehóva í Ástralíu um að verða sérbrautryðjendur. Og hvert var ferðinni heitið? Til Austur-Tímor, í austurhluta Indónesíueyjaklasans. * Augu mín fylltust tárum. Ég þakkaði Jehóva fyrir að hafa svarað öllum bænum mínum. Hann hafði ekki aðeins þegið þjónustu mína heldur gátum við hjónin starfað núna í framandi landi.

Þjónustan erlendis

Við komum til höfuðborgarinnar Dili í júlí 2003. Í Dilisöfnuðinum, þeim eina á eyjunni, voru 13 sérbrautryðjendur frá Ástralíu og nokkrir vottar sem bjuggu á staðnum. Trúsystkinin, sem áttu heima á Tímor, voru sárafátæk. Flest þeirra höfðu misst eigur sínar og skyldfólk í borgarastríði sem stóð yfir í 24 ár og lauk 1999. Mörg þeirra höfðu einnig mátt þola andstöðu frá fjölskyldunni vegna trúar sinnar. Þrátt fyrir þrengingar og fátækt voru þau andlega auðug og hamingjusöm. — Opinberunarbókin 2:8, 9

Við komumst að raun um að flestir eyjaskeggjar voru guðhræddir menn sem báru virðingu fyrir Biblíunni. Reyndin varð sú að ekki leið á löngu þar til að biblíunemendum fjölgaði svo að við gátum ekki sinnt þeim öllum! Fljótlega fóru sumir af fyrstu nemendum okkar að starfa með okkur sem skírðir bræður og systur. Það var gleðilegt að fylgjast með andlegum framförum þeirra.

Árið 2006 varð aftur upplausnarástand í Dili. Spenna braust út milli ólíkra þjóðernishópa og varð að allsherjarátökum. Mörg heimili voru tekin herfangi eða brennd til grunna og vottarnir þar leituðu hælis á heimilum sérbrautryðjendanna. Húsinu okkar og garðinum var breytt í tímabundnar flóttamannabúðir og um tíma bjuggu nærri hundrað manns hjá okkur! Stóra bílskýlinu var breytt í eldhús, borðstofu og bráðabirgðaríkissal.

Þótt drunur frá skothríð heyrðust frá nærliggjandi svæðum og handsprengjur spryngju varð brautryðjendaheimilið að athvarfi þar sem friður ríkti. Við fundum öll fyrir verndarhendi Jehóva. Hver dagur hófst með því að hópurinn ræddi um biblíutexta. Samkomur voru haldnar samkvæmt venju. Þeir sem höfðu áhuga fengu einnig biblíufræðslu.

Eftir því sem vikurnar liðu var ljóst að það yrði hættulegt fyrir bræður, sem fæddir voru á austurhluta eyjarinnar, að halda kyrru fyrir í Dili. Því ákváðu þeir, sem veittu söfnuðinum forystu, að stofna nýjan söfnuð í Baucau, næststærstu borginni, en hún var í þriggja klukkustunda fjarlægð austur af Dili. Og það var ástæðan fyrir því að við Will fengum nýtt verkefni.

Við komum til Baucau í júlí árið 2006, næstum þrem árum upp á dag frá komu okkar til Austur-Tímor. Í nýja hópnum voru fjórir sérbrautryðjendur og sex vottar frá Tímor. Bræður og systur frá Dili höfðu yfirgefið allar eigur sínar en höfðu samt ekki misst breiða brosið! Við dáðumst að trúfesti þeirra og fórnfýsi.

Við Will störfum enn í Baucau. Við erum mjög ánægð með starfið sem okkur hefur verið falið og lítum á það sem enn eina gjöfina frá Jehóva. Þegar ég lít til baka sé ég að amma hafði rétt fyrir sér. Jehóva hefur ávallt annast mig í öll þessi ár. Ég þakka honum fyrir þann heiður að hafa fengið að þjóna honum ásamt fylgjendum hans. Ég hlakka líka ákaflega mikið til að sjá ömmu aftur í upprisunni. Þá get ég þakkað henni fyrir að hafa opnað mér dyrnar að innihaldsríku lífi og sannri hamingju.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Vottum Jehóva.

^ Einnig þekkt undir nafninu Tímor-Leste.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Amma og ég.

[Mynd á blaðsíðu 28, 29]

Við hjónin.