Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Toledo — heillandi blanda menningar frá miðöldum

Toledo — heillandi blanda menningar frá miðöldum

Toledo — heillandi blanda menningar frá miðöldum

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á SPÁNI

Á MIÐJUM Íberíuskaga stendur graníthæð. Á þrjá vegu er hún umlukin ánni Tajo sem hefur í aldanna rás grafið sig niður berggrunninn. Uppi á hæðinni stendur borgin Toledo sem er nokkurs konar samnefnari Spánar og spænskrar menningar.

Að ganga um þröngar og hlykkjóttar götur gamla borgarhlutans er eins og að hverfa aftur til miðalda. Hlið borgarinnar, kastalar og brýr eru með miðaldablæ og standa sem þögul vitni þess tíma þegar Toledo var ein af helstu borgum Evrópu.

En Toledo er engin dæmigerð evrópsk borg. Járnbrautarstöðin hefur meira að segja á sér austurlenskan blæ. Hin fornu mannvirki og handverk bera með sér að borgarmenn tileinkuðu sér verkkunnáttu ólíkrar menningar sem dafnaði í borginni á öldum áður. Þegar vegur hennar var sem mestur fyrir einum 700 árum var hún í sannleika sagt deigla margra menningarheima.

Menningaráhrif úr ýmsum áttum

Áður en Rómverjar komu til Spánar höfðu Keltar og Íberar reist borg á þessum hernaðarlega mikilvæga stað. Rómverjar gáfu borginni nýtt nafn, kölluðu hana Toletum (af tollitum sem merkir „lyft hátt upp“) og gerðu hana að höfuðborg skattlandsins Hispaníu. Rómverski sagnaritarinn Livíus kallaði Toledo „litla borg en víggirta af náttúrunnar hendi“. Þegar Vestgotar lögðu Spán undir sig eftir fall Rómaveldis völdu þeir Toledo fyrir höfuðborg. Það var þar sem Reccared konungur hafnaði Aríusartrú á sjöttu öld en það átti sinn þátt í því að Spánn varð eitt helsta vígi kaþólsks rétttrúnaðar og Toledo aðsetur æðstu erkibiskupa þeirrar trúar.

Hinn trúarlegi vettvangur breytti um ásýnd þegar Toledo kom undir kalífadæmi múslima. Mjóar götur borgarinnar eiga rætur að rekja til þessa tímaskeiðs sem stóð frá áttundu öld fram á þá elleftu. Múslimar voru umburðarlyndir í trúmálum þannig að kristnir menn, Gyðingar og Márar bjuggu saman í friði í borginni. Alfons konungur 6. (sem var kaþólskur) lagði síðan borgina undir sig árið 1085. Trúarlíf borgarbúa hélst hins vegar óbreytt næstu aldirnar.

Mörg af merkustu mannvirkjum borgarinnar eru frá miðöldum. Kaþólskir valdhafar gerðu hana að höfuðborg sinni, Gyðingar stunduðu handiðn og verslun, og múslimar fegruðu hana með byggingarlist sinni. Fræðimenn þessara þriggja trúarstefna unnu saman við þýðendaskólann þar í borg. Á 12. og 13. öld þýddu þeir fjölda fornrita á latínu og spænsku. Það er þessum þýðendum að þakka að vestrænar þjóðir fengu aðgang að miklum sjóðum arabískrar vísindaþekkingar.

Umburðarlyndi í trúmálum tók enda á 14. öld þegar skipulagðar ofsóknir hófust á hendur Gyðingum og þeir voru drepnir í þúsundatali. Um það leyti sem Kólumbus fann Ameríku hafði spænski rannsóknarrétturinn sett á stofn dómstól í Toledo og jafnt Gyðingum sem múslimum voru settir þeir afarkostir að játast undir kaþólska trú eða fara ella í útlegð.

Mannvirki sem minna á forna frægð

Í miðborg Toledo er að finna meira en hundrað mannvirki sem minna á forna menningu hennar og hefur hún af þessum sökum verið sett á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Af tilkomumestu miðaldamannvirkjum borgarinnar má nefna brýrnar tvær yfir Tajo sem veita aðgang að henni úr austri og vestri. Og hið mikla borgarhlið, Puerta Nueva de Bisagra, fer varla fram hjá ferðamönnum en þar er komið inn fyrir múrinn sem umlykur gamla borgarhlutann.

Þegar horft er til Toledo úr fjarlægð gnæfa tvær byggingar við himin. Önnur er hið mikla og ferhyrnda virki sem kallast Alcázar og stendur í austanverðri borginni. Í aldanna rás hefur það verið notað sem aðsetur rómverskra landstjóra, höll konunga af ætt Vestgota, virki Araba og bústaður spænskra konunga. Nú er þar til húsa stríðsminjasafn og bókasafn mikið. En þar sem Toledo er öðru fremur trúarmiðstöð gnæfir við himin í borginni miðri dómkirkja í gotneskum stíl. — Sjá rammann á bls. 17.

Í dómkirkjunni og öðrum kirkjum Toledo er að finna málverk frægs listamanns sem settist að í borginni. Hann er nefndur El Greco sem merkir „Grikkinn“ en hét réttu nafni Doménikos Theotokópoulos. Í gamla gyðingahverfinu, þar sem hann bjó, stendur nú safn þar sem getur að líta mörg af verkum hans.

Ef til vill er Toledo tilkomumest séð frá hæðunum sunnan við borgina. En best er þó að drekka í sig töfra hennar með því að ganga í rólegheitum um þröngar göturnar. Það er auðvelt að villast þar smástund en jafn auðvelt að heillast af þröngum gamaldags húsasundum, fornum byggingum, skrautlegum svalahandriðum og freistandi minjagripaverslunum.

Enda þótt tíminn virðist standa í stað þegar komið er inn í Toledo þarf ferðamaðurinn að kveðja fyrr eða síðar. Best er að gera það á suðurbakka Tajo í hlýjum geislum kvöldsólarinnar. Þá stafar ljóma af hinum fornu mannvirkjum sem minnir á gullöld þessarar sérstæðu borgar.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 17]

ÞRÍR MENNINGARHEIMAR TOLEDO

Á miðöldum skiptist Toledo í þrjú hverfi þar sem kaþólskir menn, Gyðingar og múslimar bjuggu hverjir um sig eftir eigin siðum og lögum. Sumir hinna fornu helgistaða þeirra eru nú fjölsóttir ferðamannastaðir innan borgarinnar.

➤ Moska frá tíundu öld, Cristo de la Luz, er gott dæmi um listræna múrhleðslu sem var einkennandi fyrir handverksmenn múslima. Hún stendur í Medina-hverfinu þar sem efnaðir múslimar bjuggu.

➤ Tvö samkunduhús frá miðöldum standa í borginni. Þeim var síðar breytt í kaþólskar kirkjur en þær vitna engu að síður um þann tíma þegar Gyðingar voru um þriðjungur borgarbúa. Sú eldri kallast Santa María la Blanca og í henni má sjá fagurlega skreyttar súlur, líkt og í moskunni Cristo de la Luz. Hitt samkunduhúsið, El Tránsito, (á myndinni til hægri) er stærra og þar er nú safn sem geymir minjar um menningu sephardim-gyðinga.

➤ Stærsta dómkirkja Spánar, sem er í gotneskum stíl, stendur í Toledo. Byrjað var að reisa hana á 13. öld og hún var meira en 200 ár í smíðum.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 18]

SÉRSTÆÐ SVERÐ OG SÆTT MARSÍPAN

Járnsmiðir Toledo hafa smíðað sverð í meira en tvö þúsund ár enda er borgarheitið orðið samnefni fyrir gæðastál. Hersveitir Hannibals og Rómverja notuðu sverð sem smíðuð voru á bökkum Tajo. Öldum síðar tóku handverksmenn múslima að skreyta sverð sín og herklæði, sem smíðuð voru í Toledo, með málmstungulist ættaðri frá Damaskus. Á myndinni til vinstri má sjá eftirgerð af slíku sverði. (Sjá greinina „Patterns of Gold on Steel“ sem birtist í enskri útgáfu Vaknið! 22. janúar 2005.) Í flestum minjagripaverslunum borgarinnar er mikið úrval af sverðum ásamt eftirmyndum af viðeigandi herklæðum. Nú til dags eru þau þó ekki notuð á vígvellinum heldur sem minjagripir og þeim bregður sömuleiðis fyrir í kvikmyndum.

Framleiðsla marsípans á sér einnig langa sögu í Toledo. Þegar Arabar unnu borgina voru möndlur ræktaðar í stórum stíl á Spáni en ekki sykur sem er annað aðalefni marsípans. Innan hálfrar aldar frá komu múslima var farið að rækta sykurreyr á sunnanverðum Spáni. Á 11. öld var marsípan orðið sérgrein Toledo og hefur glatt bragðlauka matgæðinga upp frá því. Í borginni eru heilar verslanir sem selja ekkert annað en marsípan og oft eru mótaðar úr því smágerðar styttur. Enginn ætti að koma svo við í Toledo að hann smakki ekki á þessu góðgæti.

[Credit line]

Agustín Sancho

[Kort á blaðsíðu 16]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

PORTÚGAL

SPÁNN

Madrid

Toledo

[Mynd á blaðsíðu 18]

San Martin-brúin