Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Flotinn ósigrandi — örlagarík herferð hans

Flotinn ósigrandi — örlagarík herferð hans

Flotinn ósigrandi — örlagarík herferð hans

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á SPÁNI

FYRIR meira en fjórum öldum tókust á tveir flotar á Ermasundi. Þar áttust við mótmælendur undir stjórn Elísabetar 1. Englandsdrottningar og kaþólikkar undir forystu Filippusar 2. Spánarkonungs. Í bókinni The Defeat of the Spanish Armada segir um þessi átök mótmælenda og kaþólikka á 16. öld: „Í hugum fólks voru átökin milli flota Englands og Spánar barátta upp á líf og dauða, barátta milli góðs og ills.“

Englendingar lýstu spænska herskipaflotanum, sem kallaður var flotinn ósigrandi, svo að hann væri „öflugasti floti sem þeir hefðu nokkurn tíma séð á hafi úti“. En þessi leiðangur flotans ósigrandi reyndist vera hörmuleg mistök — ekki síst fyrir þær þúsundir sem týndu lífi. Hvert var markmiðið með þessari för og hvers vegna mistókst hún?

Hvers vegna var haldið til innrásar?

Enskir sjóræningjar höfðu rænt skip Spánverja árum saman og Elísabet Englandsdrottning studdi uppreisn Hollendinga gegn yfirráðum Spánverja. Þar að auki fannst Filippusi 2. það skylda sín sem kaþólikka að hjálpa enskum trúbræðrum sínum að stöðva vaxandi hreyfingu mótmælenda á Englandi enda töldu kaþólikkar þá „trúvillinga“. Í áhöfn flotans ósigrandi voru því 180 prestar og trúarráðgjafar. Þegar áhöfnin kom saman þurfti hver skipverji að játa syndir sínar og taka við sakramentunum.

Viðhorf Spánverja og Spánarkonungs í trúmálum kristölluðust í orðum hins kunna spænska jesúíta Pedro de Ribadeneyra sem sagði: „Vér erum að verja málstað og heilaga trú Guðs vors og herra. Hann mun ganga á undan oss og með slíkan fyrirliða höfum vér ekkert að óttast.“ Englendingar vonuðust hins vegar til þess að afgerandi sigur þeirra myndi greiða fyrir því að hugmyndir mótmælenda breiddust út um Evrópu.

Áætlun Spánarkonungs virtist sáraeinföld. Hann skipaði flotanum ósigrandi að sigla upp Ermasund og sækja hertogann af Parma og 30.000 hermenn hans sem höfðu bækistöð í Flæmingjalandi. * Síðan myndi hið sameinaða herlið sigla yfir sundið, taka land í Essex, ganga fylktu liði til London og vinna borgina. Filippus taldi víst að enskir kaþólikkar myndu snúa baki við drottningunni og ganga til liðs við menn sína.

Áform Filippusar voru hins vegar meingölluð. Þótt hann teldi sig hafa stuðning frá Guði og fá leiðsögn frá honum sást honum yfir tvær stórar hindranir — styrk enska flotans og hve erfitt myndi reynast að sækja lið hertogans af Parma. Á svæðinu var nefnilega engin heppileg hafnaraðstaða þar sem þeir gátu hist.

Gríðarstór floti en þungur í vöfum

Filippus gerði hertogann af Medina-Sidonia að æðsta yfirmanni flotans ósigrandi. Þótt hertoginn hefði litla reynslu af sjóhernaði var hann góður skipuleggjandi og átti fljótlega gott samstarf við reynda skipstjóra flotans. Saman mynduðu þeir öflugt herlið og útveguðu vistir eftir bestu getu. Þeir komu sér upp nákvæmu merkjakerfi, sömdu ítarleg fyrirmæli og ákváðu uppröðun skipanna. Þetta stuðlaði að einingu innan herliðsins sem samanstóð af nokkrum þjóðernum.

Í flotanum ósigrandi voru 130 skip, nærri 20.000 hermenn og 8.000 sjómenn. Flotinn lagði úr höfn frá Lissabon 29. maí 1588. En mótvindar og illviðri gerðu að verkum að flotinn þurfti að stoppa við La Coruña á Norðvestur-Spáni til að gera við skipin og afla meiri vista. Hertoginn af Medina-Sidonia hafði áhyggjur af því að vistir væru ekki nægar og af veikindum meðal manna sinna. Hann ákvað því að skrifa konungi bréf þar sem hann lýsti opinskátt áhyggjum sínum yfir þessari herför. En Filippus krafðist þess að flotaforinginn héldi sér við áætlunina. Þessi þunglamalegi floti hélt því för sinni áfram og kom á Ermasund tveimur mánuðum eftir að lagt var af stað frá Lissabon.

Orustur á Ermasundi

Þegar spænski flotinn kom upp að ströndum Plymouth á Suðvestur-Englandi beið enski flotinn þar. Bæði liðin höfðu yfir að ráða álíka mörgum skipum en þau voru ólík að gerð. Spænsku skipin voru hærri og dekkin voru hlaðin skammdrægum fallbyssum. Þau voru með háum skotturnum í skut og stefni þannig að þau líktust helst fljótandi virkjum. Hertækni spænska flotans byggðist á því að hermennirnir færu um borð í skip óvinarins og yfirbuguðu áhafnir þeirra. Ensku skipin voru lægri og hraðskreiðari og höfðu langdrægari fallbyssur. Yfirmenn þeirra áformuðu að forðast návígi við óvininn og eyðileggja spænsku skipin úr fjarlægð.

Spænski flotaforinginn ákvað að bregðast við lipurð og skotgetu enska flotans með því að raða skipum sínum þannig að þau mynduðu hálfmána. Sterkustu skipin með langdrægustu fallbyssurnar áttu að verja báða enda. Það skipti því ekki máli úr hvaða átt óvinurinn kæmi. Hægt var að snúa skipunum og mæta óvininum eins og vísundur sem beitir hornunum gegn aðvífandi ljóni.

Flotarnir tveir tókust á á Ermasundi og áttu í tveim minniháttar orustum. Spænska varnarskipulagið bar árangur og langdrægar fallbyssur Englendinga náðu ekki að sökkva neinu af spænsku skipunum. Yfirmenn enska flotans voru sammála um að brjóta þyrfti upp varnarskipulag Spánverja og komast nær skipum þeirra. Tækifærið gafst 7. ágúst.

Hertoginn af Medina-Sidonia fylgdi fyrirmælum konungs og stefndi flotanum til fundar við hertogann af Parma og menn hans. Meðan beðið var frétta af honum var flotanum skipað að varpa akkerum við Calais undan strönd Frakklands. Meðan spænsku skipin lágu varnarlítil við akkeri sendu Englendingar átta skip á svæðið hlaðin eldfimum efnum og kveiktu í. Flestir spænsku skipstjórarnir flúðu í ofboði með skip sín út á opið haf. Síðan ýttu sterkir vindar og hafstraumar þeim norður.

Lokaorustan var háð í dagrenningu næsta dag. Enski flotinn skaut á spænsku skipin úr návígi og náði að eyðileggja að minnsta kosti þrjú og laska mörg að auki. Skotfæri Spánverja voru af skornum skammti og var því fátt um varnir.

Þá skall á mikill stormur þannig að Englendingar þurftu að gera hlé á árásinni til næsta dags. Morguninn eftir hafði spænski flotinn raðað sér aftur upp í hálfmána og sneri nú í átt að óvininum og gerði sig kláran til atlögu þótt skotvopnin væru nánast uppurin. En áður en Englendingar gátu hafið árás höfðu sterkir vindar og hafstraumar hrakið spænsku skipin í átt að landi og áttu þau á hættu að stranda á sandgrynningum við Zeeland í Hollandi.

Þegar öll von virtist úti breyttist vindáttin og spænski flotinn færðist aftur norður út á opið haf. En enski flotinn lokaði leiðinni aftur til Calais og illa farin skip Spánverja hröktust fyrir vindi enn lengra í norðurátt. Hertoginn af Medina-Sidonia ákvað að eina vitið væri að hætta við innrásina og bjarga eins mörgum skipum og mönnum og hægt væri. Hann ákvað að snúa aftur til Spánar með því að sigla fyrir Skotland og Írland.

Ofsaveður og skipbrot

Leiðin heim reyndist spænska flotanum afar erfið. Matur var af skornum skammti og vatnsforðinn afar naumur því að tunnurnar láku. Englendingar höfðu laskað mörg skip og fá voru í rauninni sjófær. Þegar spænski flotinn var kominn upp að norðvesturströnd Írlands lenti hann í ofsaveðri sem stóð í tvær vikur. Sum skipanna hurfu án þess að nokkuð spurðist til þeirra. Önnur fórust við írsku ströndina.

Fyrstu skipin í spænska flotanum siluðust áfram heim og tóku að lokum land í Santander á Norður-Spáni hinn 23. september. Um 60 skip og aðeins helmingur mannaflans, sem lagði af stað frá Lissabon, sneri til baka. Þúsundir drukknuðu. Margir dóu af sárum sínum eða vegna sjúkdóma á leiðinni heim. Hörmungarnar héldu jafnvel áfram hjá þeim sem lifðu af og náðu til hafnar.

Í bókinni The Defeat of the Spanish Armada segir: „Fjölmargar [áhafnir] höfðu engan mat og menn dóu hreinlega úr hungri“ þótt skipin lægju við akkeri í spænskri höfn. Í bókinni segir að eitt skipanna hafi siglt í strand í spænsku höfninni í Laredo „vegna þess að það voru ekki nógu margir eftir um borð til að lækka seglin og kasta akkerum“.

Þýðing ósigursins

Ósigur spænska flotans veitti mótmælendum í Norður-Evrópu aukið sjálfstraust þótt trúarbragðastríðið héldi áfram af fullum krafti. Mótmælendur litu svo á að sigur þeirra væri merki um velþóknun Guðs og sést það af minnispeningi sem sleginn var til minnis um atburðinn. Á honum stendur „Flavit יהוה et dissipati sunt 1588“ sem þýðir „Jehóva blés stormi og þeir tvístruðust 1588“.

Þegar fram liðu stundir varð Stóra-Bretland heimsveldi eins og segir í bókinni Modern Europe to 1870: „Árið 1763 var Stóra-Bretland orðið öflugasta viðskipta- og nýlenduveldi heims.“ Já, þetta ár „réð breska heimsveldið lögum og lofum í heiminum eins og endurvakið og stækkað Rómaveldi“, segir í bókinni Navy and Empire. Seinna tóku Stóra-Bretland og fyrrverandi nýlenda þess, Bandaríkin, höndum saman og mynduðu ensk-ameríska heimsveldið.

Áhugafólki um Biblíuna þykir fróðlegt að velta fyrir sér uppgangi og falli stjórnmálaafla í heiminum. Það er vegna þess að í Biblíunni er ítarlega rætt um heimveldin hvert á fætur öðru, það er að segja Egyptaland, Assýríu, Babýlon, Medíu-Persíu, Grikkland, Rómaveldi og að lokum ensk-ameríska heimsveldið. Í Biblíunni er reyndar spáð fyrir um uppgang og fall ýmissa þessara velda. — Daníel 8:3-8, 20-22; Opinberunarbókin 17:1-6, 9-11.

Þegar litið er til baka sést að það sem gerðist sumarið 1588, þegar árás flotans ósigrandi mistókst, hefur mikla þýðingu. Nærri 200 árum eftir ósigurinn náði Stóra-Bretland heimsyfirráðum og gegndi með tímanum lykilhlutverki í uppfyllingu biblíuspádóma.

[Neðanmáls]

^ Þetta svæði var hluti af hinum spænsku Niðurlöndum sem voru undir stjórn Spánar á 16. öld. Það tilheyrir nú strandhéruðum í norðurhluta Frakklands, Belgíu og Hollands.

[Skýringarmynd/kort á blaðsíðu 26, 27]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Siglingaleið spænska flotans

—— Herferðin

–– Heimferðin

X Orustur

SPÁNN

Lissabon

La Coruña

Santander

FLÆMINGJALAND

Calais

SPÆNSKU NIÐURLÖND

SAMEINUÐU NIÐURLÖND

ENGLAND

Plymouth

London

ÍRLAND

[Mynd á blaðsíðu 24]

Filippus 2.

[Credit line]

Biblioteca Nacional, Madríd

[Mynd á blaðsíðu 24]

Elísabet 1.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Hertoginn af Medina-Sidonia var yfirmaður spænska flotans.

[Credit line

Cortesía de Fundación Casa de Medina Sidonia

[Mynd credit line á blaðsíðu 25]

Museo Naval, Madrid