Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Getur bjartsýni bætt heilsuna?

Getur bjartsýni bætt heilsuna?

Getur bjartsýni bætt heilsuna?

„Glatt hjarta veitir góða heilsubót,“ skrifaði vitur konungur í Ísrael fyrir um það bil 3000 árum. (Orðskviðirnir 17:22) Læknar nú á dögum eru farnir að gera sér grein fyrir viskunni í þessum innblásnu orðum. En „glatt hjarta“ er þó ekki öllum eðlislægt.

Fæstum tekst að flýja álag hversdagsleikans og það getur gert fólk vonsvikið og svartsýnt. En nýlegar rannsóknir benda þó til þess að þrátt fyrir alla erfiðleikana sé það ómaksins vert að temja sér bjartsýni.

Bjartsýnismaður er vonglaður, hann vonar það besta. Hvernig bregst hann við þegar eitthvað fer úrskeiðis? Honum finnst hann ekki hafa beðið endanlegan ósigur. Það þýðir þó ekki að hann neiti að horfast í augu við raunveruleikann. Hann gerir sér grein fyrir vandamálinu og reynir að skilja það. Og síðan gerir hann sitt besta miðað við aðstæður til að bæta ástandið.

Hins vegar kennir bölsýnismaður sjálfum sér oft um mótlætið sem hann má þola. Hann stendur í þeirri trú að ógæfa sín sé varanleg og að hún stafi af hans eigin heimsku, vanhæfni eða fráhrindandi útliti. Þar af leiðandi lætur hann hugfallast og gefst upp.

Hefur bjartsýni áhrif á heilsufar okkar og vellíðan? Já. Mayo Clinic í Rochester í Minnesota í Bandaríkjunum stóð fyrir 30 ára langri rannsókn á um það bil 800 sjúklingum. Rannsóknarmenn komust að raun um að þeir sem tömdu sér bjartsýni voru heilsuhraustari og lifðu töluvert lengur en aðrir. Þeir veittu því einnig athygli að bjartsýnismenn áttu auðveldara með að glíma við streitu og áttu síður á hættu að verða þunglyndir.

En það er enginn hægðarleikur að vera bjartsýnn í heimi þar sem vandamálin virðast færast í aukana. Það er því engin furða að mörgum finnist erfitt að vera jákvæðir. Hvernig er hægt að bregðast við þessu vandamáli? Í meðfylgjandi rammagrein eru ráðleggingar sem geta komið að gagni.

Enda þótt bjartsýni sé ekki allra meina bót getur hún stuðlað að heilbrigðara og betra lífi. Biblían segir: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ — Orðskviðirnir 15:15.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 18]

Nokkur góð ráð *

◼ Þegar sú hugsun hvarflar að þér að þú munir ekki hafa gaman af einhverju eða að þér muni fara eitthvað illa úr hendi skaltu bægja henni frá þér. Einbeittu þér að hinu jákvæða.

◼ Reyndu að hafa ánægju af vinnunni. Óháð því hver atvinna þín er skaltu reyna að koma auga á það sem gerir vinnuna ánægjulega.

◼ Finndu þér vini sem líta björtum augum á tilveruna.

◼ Taktu á vandamálum sem þú getur ráðið við en reyndu að sætta þig við aðstæður sem þú getur ekki breytt.

◼ Skrifaðu niður á hverjum degi eitthvað þrennt sem létti þér lundina þann daginn.

[Neðanmáls]

^ Þessi listi er að hluta til byggður á riti frá Mayo Clinic.