Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað gerist við dauðann?

Hvað gerist við dauðann?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað gerist við dauðann?

Það var ekki ætlun Guðs að mennirnir dæju. (Rómverjabréfið 8:20, 21) Þegar Jehóva minntist fyrst á dauða við Adam var það ekki vegna þess að mönnunum væri eðlilegt að deyja heldur vegna þess að dauðinn var refsingin fyrir óhlýðni. (1. Mósebók 2:17) Adam vissi vel hvað dauðinn merkti því að hann hafði séð dýrin deyja.

Adam syndgaði og galt fyrir með dauða sínum þegar hann var 930 ára. (1. Mósebók 5:5; Rómverjabréfið 6:23) Vegna óhlýðni hafði honum verið vísað brott úr fjölskyldu Guðs og taldist ekki lengur vera sonur hans. (5. Mósebók 32:5) Í Biblíunni segir um sorglegar afleiðingar þess fyrir mannkynið: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna.“ — Rómverjabréfið 5:12.

Hvað verður um hugarstarfsemina?

Í Biblíunni er einnig sagt: „Örlög mannanna og örlög skepnunnar — örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi. Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ (Prédikarinn 3:19, 20) Hvað merkir það að hverfa aftur til moldar?

Orðalagið að ‚hverfa aftur til moldar‘ minnir okkur á það sem Guð sagði við fyrsta manninn: „Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Þetta merkir að menn eru holdi klæddir og sama er að segja um dýrin. Maðurinn er ekki andi sem tekur sér bólfestu í efnislíkama. Hugarstarfsemin getur ekki lifað af þegar líkaminn deyr. Í Biblíunni er sagt um þá sem deyja: „Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ — Sálmur 146:4.

Hvert er þá ástand hinna látnu ef þetta er það sem gerist? Orð Guðs svarar skýrt: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Dauðinn er ekki eins og vinur sem býður okkur velkomin til betra lífs heldur segir Biblían að hann sé „síðasti óvinurinn“, því að með honum stöðvast öll starfsemi. (1. Korintubréf 15:26; Prédikarinn 9:10) Er þá öll von úti þegar við deyjum?

Góðar fréttir

Fyrir milljónir manna er dauðinn líkur svefni sem þeir munu vakna upp af. Jesús sagði einu sinni við lærisveina sína um vin sem hafði dáið: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ Þegar Jesús var á leið til grafarinnar hitti hann hóp syrgjenda. Þegar hann koma að gröfinni bað hann um að hún yrði opnuð og hrópaði síðan: „Lasarus, kom út!“ Maðurinn kom út en hann hafði verið dáinn í fjóra daga. (Jóhannes 11:11-14, 39, 43, 44) Þar sem líkami Lasarusar var þegar farinn að rotna sýndi Jesús fram á að Jehóva getur geymt í minni sínu allt um hina dánu — persónuleika þeirra, minni og ytra útlit. Hann getur vakið þá aftur til lífs. Öðru sinni sagði Jesús: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans [það er að segja raust Jesú] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.

Við fáum fleiri góðar fréttir í Biblíunni því að þar er fullyrt: „Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:26) Aldrei framar mun harmi slegið fólk þurfa að fara í kirkjugarð til að leggja ástvin til hinstu hvíldar. „Dauðinn mun ekki framar til vera,“ segir í Biblíunni. (Opinberunarbókin 21:4) Ertu ekki sammála því að sjónarmið Biblíunnar varðandi dauðann sé hughreystandi?

HEFURÐU VELT FYRIR ÞÉR?

◼ Vita hinir dánu eitthvað? — Prédikarinn 9:5.

◼ Er öll von úti þegar við deyjum? — Jóhannes 5:28, 29.

[Innskot á blaðsíðu 29]

„Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ — Sálmur 146:4.