Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Milli tveggja menningarheima — hvað get ég gert?

Milli tveggja menningarheima — hvað get ég gert?

Ungt fólk spyr . . .

Milli tveggja menningarheima — hvað get ég gert?

„Fjölskyldan mín er frá Ítalíu og er ófeimin við að sýna ástúð og hlýju. Við búum núna í Bretlandi. Hér virðist fólk vera mjög rólegt og kurteist. Mér finnst eins og ég sé útlendingur hjá báðum þjóðunum — ég er of ítalskur til að vera breskur og of breskur til að vera ítalskur.“ — Giosuè, Englandi.

„Kennarinn í skólanum sagði mér að horfa á sig meðan hann talaði. En pabbi sagði að ég væri ókurteis ef ég horfði í augun á honum þegar hann talaði. Mér fannst ég vera fastur milli tveggja menningarheima.“ — Patrick, frá Alsír en býr í Frakklandi.

Er annaðhvort pabbi þinn eða mamma innflytjandi?

◻ Nei

Er tungumálið eða menningin í skólanum þínum öðruvísi en heima hjá þér?

◻ Nei

ÁR HVERT flytjast milljónir manna til annarra landa og margt fólk úr þeim hópi þarf að glíma við stór vandamál. Í einni svipan býr það meðal fólks sem hefur annað tungumál og menningu og klæðir sig allt öðruvísi. Þar af leiðandi eru innflytjendur oft hafðir að skotspæni. Stúlka að nafni Noor komst fljótt að því en hún fluttist með fjölskyldu sinni frá Jórdaníu til Norður-Ameríku. Hún segir: „Við klæddum okkur öðruvísi en aðrir og þess vegna var gert grín að okkur. Og við botnuðum ekkert í amerískri fyndni.“

Ung stúlka, sem heitir Nadia, glímdi við annars konar vanda. Hún greinir svo frá: „Ég fæddist í Þýskalandi. En þar sem foreldrar mínir eru ítalskir talaði ég þýsku með hreim og krakkarnir í skólanum kölluðu mig ‚heimska útlendinginn‘. Þegar ég fer svo til Ítalíu tala ég ítölsku með þýskum hreim. Mér finnst því eins og ég tilheyri hvorugu landinu. Ég er alltaf útlendingur, hvert sem ég fer.“

Hvaða önnur vandamál blasa við börnum innflytjenda? Og hvernig geta þau nýtt sér aðstæður sínar sem best?

Ólík menning og tungumál

Unglingar aðfluttra foreldra gætu jafnvel á sínu eigin heimili séð hvernig ólík menning getur myndað bil milli foreldra og barna. Hvernig þá? Börn eru oft fljótari en foreldrarnir að aðlagast nýrri menningu. Tökum dæmi: Ana var átta ára þegar hún fluttist til Englands með fjölskyldu sinni. „Fyrir mig og bróður minn var auðvelt að aðlagast lífinu í London,“ segir hún. „En það var erfitt fyrir foreldra mína sem höfðu lengi átt heima á litlu portúgölsku eyjunni Madeira.“ Voeun var þriggja ára þegar foreldrar hennar komu til Ástralíu frá Kambódíu. Hún segir: „Foreldrar mínir hafa ekki aðlagast mjög vel. Pabbi varð reyndar oft gramur og reiður vegna þess að ég skildi ekki viðhorf hans og hugsunarhátt.“

Þessi menningarmunur getur verið eins og kastaladíki sem aðskilur unglinga frá foreldrum sínum. Og rétt eins og múrveggur er reistur meðfram díkinu, geta tungumálatálmar stíað fjölskyldum enn frekar í sundur. Múrinn fer að rísa þegar börn eru fljótari en foreldrarnir að læra nýja tungumálið. Múrinn hækkar þegar börnin byrja að gleyma móðurmáli sínu og það reynist æ erfiðara að halda uppi innihaldsríkum samræðum á heimilinu.

Ian, sem er 14 ára, sá slíkt bil myndast milli sín og foreldranna eftir að fjölskyldan fluttist frá Ekvador til New York. Hann segir: „Núna kann ég meiri ensku en spænsku. Kennararnir í skólanum tala ensku, vinir mínir tala ensku og ég tala ensku við bróður minn. Heilinn er að fyllast af ensku og spænskan er að hverfa.“

Stendur þú í svipuðum sporum og Ian? Ef þú fluttist til annars lands með fjölskyldu þinni þegar þú varst barn hefurðu kannski ekki gert þér ljóst að móðurmál þitt gæti nýst þér seinna á ævinni. Þess vegna hefurðu ef til vill látið það líða þér úr minni. Noor, sem vitnað var í áður, segir: „Faðir minn reyndi að fara fram á að við töluðum móðurmál hans á heimilinu en við vildum ekki tala arabísku. Okkur fannst það vera óþarfa byrði að læra arabísku. Vinir okkar töluðu ensku. Sjónvarpsefnið, sem við horfðum á, var allt á ensku. Til hvers þurftum við arabísku?“

Þegar þú þroskast ferðu þó kannski að koma auga á kosti þess að geta talað móðurmál þitt reiprennandi. En vera má að þér finnist þá erfitt að muna eftir orðunum sem áður fyrr komu af sjálfu sér. „Ég rugla saman tungumálunum tveim,“ segir Michael, 13 ára, en foreldrar hans fluttust til Englands frá Kína. Ornelle, sem er 15 ára, fluttist með foreldrum sínum frá Kongó (Kinshasa) til London og segir: „Ég reyni að tala eitthvað við mömmu á lingala en ég get það ekki vegna þess að ég er orðin vanari því að tala ensku.“ Lee á kambódíska foreldra en fæddist í Ástralíu og þykir leitt að vera ekki altalandi á máli foreldra sinna. Hún segir: „Þegar ég tala við foreldra mína og reyni að útskýra skoðanir mínar fyrir þeim finn ég hvað ég kann lítið í tungumáli þeirra.“

Ástæður til að brúa bilið

Ef þú hefur að einhverju leyti gleymt móðurmáli þínu skaltu ekki gefa upp alla von. Þú getur endurnýjað tungumálaþekkingu þína. Áður en það gerist þarftu þó að skilja hvaða kosti það hefur. Hvers vegna er það gagnlegt? Giosuè, sem vitnað var í áður, segir: „Ég lærði tungumál foreldra minna aðallega vegna þess að mig langaði til að þjóna Guði með þeim, en líka vegna þess að ég vildi tengjast þeim betur tilfinningalega. Ég á auðveldara með að skilja hvernig þeim líður eftir að hafa lært tungumál þeirra. Og það hefur auðveldað þeim að skilja mig.“

Margir ungir þjónar Guðs reyna að ná tökum á tungumáli foreldra sinna því að þeir vilja segja öðrum innflytjendum frá fagnaðarerindinu um Guðsríki. (Matteus 24:14; 28:19, 20) „Það er frábært að geta frætt fólk um Biblíuna á tveim tungumálum,“ segir Salomão sem fluttist til London þegar hann var fimm ára. „Ég hafði næstum því gleymt móðurmáli mínu en núna, þegar ég er í portúgölskum söfnuði, er ég altalandi bæði á ensku og portúgölsku.“ Oleg, sem er 15 ára og býr nú í Frakklandi, segir: „Það gleður mig að geta hjálpað öðrum. Ég get útskýrt hvað Biblían kennir fyrir fólki sem talar rússnesku, frönsku og moldavísku.“ Noor sá að mikil þörf var á arabískumælandi boðberum. Hún segir: „Núna er ég á námskeiði og reyni að rifja upp það sem ég hafði gleymt. Viðhorf mitt hefur breyst. Núna vil ég að aðrir leiðrétti mig. Ég vil læra.“

Hvað geturðu gert til að ná aftur upp tungumáli foreldra þinna? Sumar fjölskyldur hafa komist að raun um að með því að tala eingöngu móðurmálið á heimilinu ná börnin tökum á báðum tungumálunum. * Þér gæti einnig fundist hjálplegt að biðja foreldra þína um að kenna þér að skrifa á tungumálinu. Stelios ólst upp í Þýskalandi en móðurmál hans er gríska. Hann segir: „Foreldrar mínir ræddu við mig um biblíuvers á hverjum degi. Þeir lásu það upphátt og síðan átti ég að skrifa það niður. Núna er ég læs og skrifandi bæði á grísku og þýsku.“

Ef þú þekkir til tveggja menningarheima og kannt tvö eða fleiri tungumál þá ertu í afar sérstakri stöðu. Þekking þín á tvenns konar menningu gerir þér betur kleift að skilja tilfinningar fólks og svara spurningum þeirra um Guð. Biblían segir: „Gleði hlýtur maðurinn af svari munns síns, og hversu fagurt er orð í tíma talað!“ (Orðskviðirnir 15:23) Preeti á indverskra foreldra en fæddist á Englandi. Hún segir: „Ég hef fengið innsýn í tvenns konar menningu og þess vegna er ég afslöppuð í boðunarstarfinu. Ég skil fólk úr báðum hópunum — hverju það trúir og hver viðhorf þess eru.“

„Guð fer ekki í manngreinarálit“

Ef þér finnst þú vera milli tveggja menningarheima skaltu ekki fyllast minnimáttarkennd. Þú ert í svipaðri aðstöðu og margir sem nefndir eru í Biblíunni. Jósef var til að mynda aðeins ungur drengur þegar hann var fluttur burt úr menningu sinni og hann bjó það sem eftir var í Egyptalandi. Hann gleymdi þó augljóslega aldrei móðurmáli sínu, hebresku. (1. Mósebók 45:1-4) Þar af leiðandi gat hann komið fjölskyldu sinni til bjargar. — 1. Mósebók 39:1; 45:5.

Tímóteus, sem ferðaðist víða með Páli postula, átti grískan föður en móðir hans var Gyðingur. (Postulasagan 16:1-3) En í stað þess að leyfa blönduðum uppruna sínum að hindra sig gat hann án efa nýtt sér skilninginn á ólíkri menningu til að hjálpa öðrum þegar hann sinnti trúboðsstarfinu. — Filippíbréfið 2:19-22.

Getur þú líka litið svo á að aðstæður þínar séu ákjósanlegar frekar en óhagstæðar? Mundu að „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er“. (Postulasagan 10:34, 35) Jehóva er óhlutdrægur og kærleiksríkur og elskar þig vegna eiginleika þinna en ekki vegna þess hvaðan þú ert. Getur þú, eins og unga fólkið sem nefnt er í þessari grein, notað bæði þekkingu þína og reynslu til að hjálpa öðrum af sama uppruna og þú að kynnast Jehóva? Ef þú gerir það geturðu öðlast mikla hamingju. — Postulasagan 20:35.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

[Neðanmáls]

^ Finna má fleiri gagnlegar tillögur í greininni „Raising Children in a Foreign Land — The Challenges and the Rewards,“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. október 2002.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvers vegna finnst þér þú vera milli tveggja menningarheima?

◼ Hvernig geturðu tekist á við það?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Það getur styrkt fjölskylduböndin ef þú talar tungumál foreldra þinna.