Hvers vegna ætti ég að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar?
Ungt fólk spyr . . .
Hvers vegna ætti ég að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar?
ÞÚ SITUR í matsal skólans og borðar hádegismat með tveim stelpum. Önnur þeirra er að fylgjast með nýja stráknum.
„Veistu, ég held að hann sé hrifinn af þér,“ segir hún við þig. „Ég sé hvernig hann starir á þig. Hann getur ekki hætt að horfa á þig!“
„Og veistu hvað?“ hvíslar hin stelpan og hallar sér í áttina til þín. „Hann er á lausu!“
„Verst að ég er það ekki,“ segir fyrsta stelpan. „Annars væri ég sko meira en til í að byrja með honum.“
Síðan segir hún það sem þér finnst óþolandi að heyra.
„Hvers vegna átt þú ekki kærasta?“
Þú vissir að þessi spurning hlyti að koma upp. Þú gætir reyndar alveg hugsað þér að eiga kærasta. En þér hefur verið sagt að það sé betra að bíða þangað til þú sért orðin nógu gömul til að gifta þig. Bara ef ég væri ekki . . .
„Það er af því að þú ert vottur Jehóva, er það ekki?,“ segir hin stelpan.
„Var hún að lesa hugsanir mínar,“ spyrðu sjálfa þig.
„Hjá þér er það alltaf Biblían, Biblían, Biblían,“ segir sú fyrri í hæðnistón. „Hvers vegna máttu ekki skemmta þér aðeins?“
Hefur þú einhvern tíma verið í svipaðri stöðu — orðið fyrir stríðni vegna þess að þú reynir að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar? Hvernig brást þú við?
◼ Þú varðir afstöðu þína af öryggi.
◼ Þú fórst hjá þér en útskýrðir trú þína eftir bestu getu.
◼ Þú komst að þeirri niðurstöðu að skólafélagarnir hefðu rétt fyrir sér og að þú værir að missa af öllu fjörinu.
Hefurðu einhvern tíma hugleitt hvort það sé virkilega þess virði að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar? Stelpa að nafni Deborah velti því fyrir sér. * „Jafnaldrar mínir gátu gert hvað sem er,“ segir hún. „Það var eins og þeir þyrftu ekki að bera ábyrgð á neinu sem þeir gerðu. Mér fannst meginreglur Biblíunnar vera svo heftandi. Frjálslegur lífsstíll skólafélaganna höfðaði til mín.“
Er rangt að efast?
Biblíuritarinn Asaf velti því fyrir sér um tíma hvort það borgaði sig að fylgja lífsreglum Guðs. Hann skrifaði: „Ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna Sálmur 73:3, 13.
guðlausu.“ Hann sagði jafnvel: „Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi.“ —Jehóva Guð skilur greinilega að fólk efast stundum um gildi þess að fylgja lífsreglum hans, enda lét hann líka skrá hugsanir Asafs í Biblíuna. Að lokum áttaði Asaf sig hins vegar á því að lífsreglur Guðs væru honum fyrir bestu. (Sálmur 73:28) Hvers vegna komst hann að þeirri niðurstöðu? Vegna þess að hann var skynsamur. Hann komst ekki að þessari niðurstöðu af því að hann hefði þjáðst eða orðið fyrir einhverjum persónulegum erfiðleikum heldur lærði hann af mistökum annarra. (Sálmur 73:16-19) Getur þú gert hið sama?
Raunveruleikinn
Ólíkt Asaf lærði Davíð konungur í hörðum skóla reynslunnar að þeir sem hunsa siðferðisreglur Guðs skaða sjálfa sig. Davíð framdi hjúskaparbrot með konu þjóns síns og reyndi síðan að fela syndir sínar. Það varð til þess að hann særði aðra, meðal annars Guð, og þetta olli honum mikilli hugarkvöl. (2. Samúelsbók 11:1–12:23) Eftir að Davíð iðraðist blés Jehóva honum í brjóst að tjá tilfinningar sínar í söngljóði og lét varðveita það í Biblíunni okkur til góðs. (Sálmur 51:1-19; Rómverjabréfið 15:4) Það er því bæði viturlegt og biblíulegt að læra af mistökum annarra.
Til að hjálpa þér að líkja eftir Asaf og forðast mistök Davíðs voru tekin viðtöl við ungt fólk frá ýmsum löndum sem hafnaði siðferðisreglum Biblíunnar um tíma. Þau gerðu þau mistök að lifa kynlífi fyrir hjónaband. Líkt og Davíð hafa þau iðrast og standa nú hrein frammi fyrir Guði. (Jesaja 1:18; 55:7) Skoðum hvað þau hafa að segja.
Vaknið!: Hvað hafði áhrif á hugsunarhátt þinn og hegðun?
Deborah: „Í skólanum áttu allir kærasta og kærustur og virtust vera svo hamingjusamir. Þegar ég var með þessum pörum og sá þau kyssast og faðmast varð ég öfundsjúk og einmana. Tímunum saman lét ég mig dreyma um ákveðinn strák sem ég var hrifin af. Það gerði það að verkum að ég þráði enn heitar að vera með honum og var til í að gera hvað sem er til að það yrði að veruleika.“
Mike: „Ég las blöð og horfði á þætti sem vegsömuðu kynlíf. Forvitnin jókst þegar ég talaði við vini mína um kynlíf. Þegar ég var síðan með stelpu í einrúmi hélt ég að við gætum gengið frekar langt án þess að hafa kynmök. Ég hélt að ég gæti stoppað hvenær sem er.“
Andrew: „Ég horfði oft á klám á Netinu. Ég fór að drekka mjög mikið. Og ég fór í partí með ungu fólki sem bar ekki mikla virðingu fyrir siðferðisreglum Biblíunnar.“
Tracy: „Þegar ég var 16 ára snerist líf mitt um það að vera með kærastanum. Ég vissi að það væri rangt að stunda kynlíf fyrir hjónaband en ég hataði það samt ekki. Ég ætlaði mér ekki að stunda kynlíf fyrir hjónaband en tilfinningarnar náðu yfirhöndinni. Um tíma var samviskan alveg dofin og ég fann ekki til neinnar sektarkenndar.“
Vaknið!: Veitti þessi lífstíll þér hamingju?
Deborah: „Til að byrja með var ég í sæluvímu yfir frelsinu og fannst ég loksins eiga samleið með jafnöldrum mínum. En sú tilfinning entist ekki lengi. Mér fór að finnast ég vera óhrein, rænd sakleysinu og innantóm. Ég sá eftir að hafa kastað meydómnum á glæ, einhverju sem ég gæti aldrei fengið til baka. Eftir það hef ég oft spurt mig hver ég hefði eiginlega haldið að ég væri. Og af hverju — af hverju hafði ég hunsað kærleiksríkar meginreglur Jehóva?“
Mike: „Mér fór að líða eins og hluti af mér hefði dáið. Ég reyndi að gera lítið úr þeim áhrifum sem hegðun mín hafði á aðra, en ég
gat það ekki. Mér fannst sárt að uppgötva að með því að fullnægja eigin löngunum var ég að særa aðra. Ég átti erfitt með svefn. Með tímanum minnkaði ánægjan af siðleysinu og í staðinn upplifði ég mikla sálarkvöl og skömm.“Andrew: „Það varð alltaf auðveldara og auðveldara að láta undan röngum löngunum. En samtímis fann ég til mikillar sektarkenndar og var óánægður með sjálfan mig.“
Tracy: „Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á raunveruleikanum. Siðleysi eyðilagði æsku mína. Ég hélt að ég og kærastinn myndum hafa það svo skemmtilegt. En það var ekki þannig. Við ollum hvort öðru óhamingju, kvöl og sárindum. Ég grét mig í svefn kvöld eftir kvöld og óskaði þess að ég hefði fylgt leiðbeiningum Jehóva.“
Vaknið!: Hvaða ráð myndirðu gefa þeim sem velta fyrir sér hvort siðferðisreglur Biblíunnar séu of strangar?
Deborah: „Líf þitt verður ekki betra ef þú hafnar siðferðisreglum Biblíunnar. Hugsaðu um hvernig Jehóva er innanbrjósts ef þú fylgir ráðum hans. Og hugsaðu vel og lengi um afleiðingarnar af því að hunsa leiðbeiningar hans. Mundu að þetta snýst ekki bara um þig og hvað þig langar. Hegðun þín hefur áhrif á aðra. Og ef þú sniðgengur ráðleggingar Guðs skaðar þú sjálfan þig.“
Mike: „Það getur vel verið að lífsstíll jafnaldranna virðist heillandi á yfirborðinu. En líttu undir yfirborðið. Eitt af því dýrmætasta sem Jehóva hefur gefið þér er sjálfsvirðing þín og sakleysi. Þú gerir lítið úr sjálfum þér ef þú kastar þessum gjöfum á glæ bara vegna þess að þú getur ekki haft stjórn á sjálfum þér. Talaðu við foreldra þína og annað þroskað fólk um vandamál þín. Ef þú gerir mistök, vertu þá fljótur að segja frá því og leiðrétta það. Ef þú hlýðir Jehóva færðu sannan hugarfrið.“
Andrew: „Þegar maður er óreyndur heldur maður að líf jafnaldranna sé spennandi. Viðhorf þeirra eiga eftir að hafa áhrif á þig. Veldu því vinina vandlega. Ef þú treystir á Jehóva hlífirðu þér við miklum sársauka og eftirsjá.“
Tracy: „Hugsaðu ekki: ‚Þetta kemur ekki fyrir mig.‘ Mamma sagði mér beint út að lífsstefna mín myndi valda mér sársauka að lokum. Ég varð svo móðguð. Ég hélt að ég vissi betur. En ég gerði það ekki. Fylgdu lífsreglum Jehóva og hafðu félagsskap við fólk sem gerir það líka. Þá verðurðu hamingjusamari.“
Siðferðisreglur Biblíunnar — spennitreyja eða öryggisbelti?
Ef jafnaldrarnir stríða þér vegna þess að þú fylgir meginreglum Biblíunnar skaltu spyrja þig: Hvers vegna vilja þeir ekki lifa samkvæmt siðferðisreglum Biblíunnar? Hafa þeir lesið Biblíuna og rannsakað hvaða gagn maður hefur af því að fylgja lögum Guðs? Hafa þeir hugsað alvarlega út í hvaða afleiðingar það hefur að hafna þessum lögum? Eða fylgja þeir bara straumnum og gera eins og allir hinir?
Þú þekkir örugglega einhverja sem bara „fylgja fjöldanum“. (2. Mósebók 23:2) En langar þig ekki til að vera betri en það? Hvernig ferðu að því? Með því að fylgja ráðum Biblíunnar og „reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómverjabréfið 12:2) Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘ og hann vill líka að þú njótir hamingju. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Prédikarinn 11:9) Siðferðiskröfurnar, sem standa í Biblíunni, eru þér til gagns. Þér gæti auðvitað fundist þær vera eins og spennitreyja sem hefta frelsi þitt. En í rauninni eru siðferðisreglur Biblíunnar meira eins og öryggisbelti sem vernda farþegana gegn skaða.
Þú getur treyst Biblíunni. Ef þú ákveður að fylgja meginreglum hennar gleðurðu Jehóva og nýtur góðs af. — Jesaja 48:17.
Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.
[Neðanmáls]
^ Nöfnum hefur verið breytt.
TIL UMHUGSUNAR
◼ Hvers vegna getur verið erfitt að fylgja siðferðisreglum Biblíunnar?
◼ Hvers vegna þarftu að sanna fyrir sjálfum þér að besta lífsstefnan sé að fylgja meginreglum Guðs?