Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti ég að spila tölvuleiki?

Ætti ég að spila tölvuleiki?

Ungt fólk spyr . . .

Ætti ég að spila tölvuleiki?

TÖLVULEIKIR eru meira en bara háþróuð afþreying. Það er að vísu rétt að þú getur drepið tímann með því að spila tölvuleiki og þeir reyna á hæfni þína. En þeir gera meira en það. Tölvuleikir geta þjálfað viðbragðshraða fólks og rannsóknir benda til að þeir bæti sjónskynjun. Sumir þeirra bæta jafnvel stærðfræði- og lestrarhæfileika. Þar að auki er líklegt að skólafélagarnir tali um nýjasta tölvuleikinn í frímínútunum og ef þú hefur spilað hann hefurðu eitthvað til að tala um.

Það er að sjálfsögðu undir foreldrum þínum komið hvort þú mátt spila tölvuleiki eða ekki. (Kólossubréfið 3:20) Ef þeir leyfa það ættirðu að geta fundið leik sem er bæði spennandi og viðeigandi. Hvers vegna þarftu samt að vera á varðbergi?

Skuggahliðin

Brian, sem er 16 ára, segir: „Tölvuleikir eru spennandi og flottir.“ En eins og þú veist líklega eru þeir ekki allir skaðlausir. Brian viðurkennir það og segir: „Það er hægt að gera ýmislegt í tölvuleikjum sem maður myndi aldrei gera í alvöru án þess að lenda í klandri.“ Til hvers konar hegðunar hvetja þessir leikir?

Margir leikir ýta opinskátt undir siðleysi, dónalegt málfar og ofbeldi en allt er þetta fordæmt í Biblíunni. (Sálmur 11:5; Galatabréfið 5:19-21; Kólossubréfið 3:8) Sumir leikir fegra spíritisma. Adrian, sem er 18 ára, lýsir einum vinsælum leik og segir að í honum sé að finna „bardaga milli glæpaflokka, eiturlyfjaneyslu, opinskátt kynlíf, klúrt orðbragð, miskunnarlaust ofbeldi, blóð og viðbjóð“. Og hver ný útgáfa er svæsnari en sú fyrri. James, 19 ára, segir að vinsælustu leikina sé hægt að spila í rauntíma á Netinu. Þetta færir tölvuleikinn á allt annað plan. James lýsir þessu og segir: „Þú getur setið heima við tölvuna og keppt við fólk sem býr hinumegin á hnettinum.“

Hlutverkaleikir hafa náð gífurlegum vinsældum. Þátttakendur geta skipt þúsundum en þeir búa sér til tölvupersónur — manneskjur, dýr eða sambland af hvoru tveggja — sem búa í sýndarheimi á Netinu. Í þessum sýndarheimi er að finna búðir, bíla, heimili, skemmtistaði og vændishús. Þetta er með öðrum orðum eftirlíking af veruleikanum. Þátttakendur í þessum leikjum geta sent hverjir öðrum textaskilaboð um leið og tölvupersónur þeirra eigast við.

Hvað fer fram í þessum sýndarheimum? „Venjulegt fólk leyfir sér ýmislegt sem það myndi aldrei eða gæti aldrei gert í veruleikanum,“ segir blaðamaður nokkur. Hann bætir við: „Kynlíf er algengt, sem og vændi.“ Með því að þrýsta á nokkra hnappa geta þátttakendur látið tölvupersónurnar stunda kynlíf og um leið talað um kynlíf við raunverulega þátttakandann með textaskilboðum. Tímaritið New Scientist segir þar að auki að þessir heimar séu „fullir af sýndarglæpum, mafíumönnum, melludólgum, fjárkúgurum, peningafölsurum og leigumorðingjum“. Í öðru tímariti segir að „gagnrýnendur hafi lýst áhyggjum sínum af hátterni sem teljist ólöglegt í venjulegu samfélagi eins og að þátttakendur nauðgi vændiskonum eða stundi kynferðisathafnir með tölvupersónum sem líkjast börnum“.

Það skiptir máli hvað þú velur

Þeir sem spila ofbeldisfulla leiki eða leiki þar sem kynlíf er sýnt opinskátt gætu sagt: „Það er engin skaði skeður. Þetta er ekki í alvörunni. Þetta er bara leikur.“ En láttu ekki svona rökfærslu blekkja þig.

Í Biblíunni segir: „Jafnvel má þekkja af verkum barnsins hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.“ (Orðskviðirnir 20:11, Biblían 2007) Geturðu sagt að þú sért hreinn og einlægur ef þú leggur í vana þinn að spila ofbeldisfulla og siðlausa leiki? Rannsóknir sýna að það eykur á árásarhneigð fólks að horfa á ofbeldisfullt skemmtiefni. Tímaritið New Scientist sagði nýlega: „Þar sem tölvuleikir eru gagnvirkir hafa þeir sterkari áhrif en sjónvarpsefni.“

Að spila ofbeldisfulla eða siðlausa leiki er eins og að leika sér að geislavirkum úrgangi. Skaðinn sést ekki strax en hann er óhjákvæmilegur. Hvernig þá? Geislavirkni í stórum skömmtum eyðileggur magaslímhúðina og gerir að verkum að bakteríur frá innyflunum komast inn í blóðrásina og gera mann veikan. Að sama skapi geta áhrifin af grófu ofbeldi og kynlífi gert okkur siðblind og „tilfinningalaus“ og leyft holdlegum löngunum að ná tökum á hugsunum og gerðum. — Efesusbréfið 4:19; Galatabréfið 6:7, 8.

Hvaða leiki ætti ég að velja?

Ef foreldrar þínir leyfa þér að spila tölvuleiki hvernig áttu þá að vita hvaða leikir eru við hæfi og hve mikinn tíma þú átt að nota í þá? Spyrðu sjálfan þig eftirfarandi spurninga:

Myndi ég særa Jehóva? Álit Jehóva á þér fer hugsanlega eftir því hvaða leiki þú spilar. „Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann,“ segir í Sálmi 11:5. Biblían segir um þá sem taka þátt í dulrænum athöfnum: „Hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur.“ (5. Mósebók 18:10-12) Ef við viljum vera vinir Guðs verðum við að fylgja ráðunum í Sálmi 97:10: „Þér, sem elskið Drottin, hatið illt.“ — Biblían 2007.

Hvaða áhrif hefur leikurinn á mig? Spyrðu sjálfan þig: Á ég auðveldara eða erfiðara með að ,flýja saurlifnaðinn‘ ef ég spila þennan leik? (1. Korintubréf 6:18) Leikir, sem sýna kynferðislega örvandi myndir eða bjóða upp á þess konar samtöl, eiga ekki eftir að auðvelda þér að hugfesta það sem er rétt, hreint og dyggðugt. (Filippíbréfið 4:8) Amy er 22 ára. Hún segir: „Margir leikir gera mann ónæman fyrir hlutum eins og ofbeldi, ljótu orðbragði og siðleysi þannig að maður getur hæglega sofnað á verðinum á öðrum sviðum lífsins. Það þarf að gæta vel að því hvað maður spilar.“

Hve miklum tíma mun ég eyða í að spila þennan leik? Deborah, sem er 18 ára, segir: „Ég held ekki að allir tölvuleikir séu slæmir. En það getur verið tímafrekt að spila þá, næstum því vanabindandi.“ Meira að segja saklausustu leikir geta tekið mikinn tíma. Skráðu hjá þér hve mikill tími fer í að spila tölvuleiki og berðu hann saman við tímann sem fer í að sinna mikilvægari hlutum. Það getur hjálpað þér að forgangsraða rétt. — Efesusbréfið 5:15, 16.

Biblían fer ekki fram á að þú notir hverja einustu mínútu til náms eða vinnu. Hún bendir okkur öllum á að það hafi sinn tíma að „hlæja . . . og að dansa“. (Prédikarinn 3:4) Hafðu í huga að dans felur í sér hreyfingu. Hvers vegna ekki nota eitthvað af frítímanum í leiki sem fela í sér hreyfingu í stað þess að sitja alltaf fyrir framan tölvuna?

Vandaðu valið

Það er vissulega skemmtilegt að spila tölvuleiki, sérstaklega ef maður er orðinn flinkur. Það er einmitt þess vegna sem það er nauðsynlegt að vanda valið á leikjum. Í hvaða fögum stendur þú þig best í skólanum? Eru það ekki fögin sem þú hefur gaman af? Það helst oft í hendur að því skemmtilegra sem manni finnst ákveðið fag því meiri áhrif hefur það á mann. En þá er spurningin: Hvaða tölvuleikir finnst þér skemmtilegastir? Hvaða boðskapur er fólginn í þeim?

Þú gætir gert eftirfarandi til að átta þig á því hvaða tölvuleiki er við hæfi að spila. Skrifaðu niður á blað alla leiki sem þig langar til að spila ásamt stuttu yfirliti yfir hvert markmiðið er með leiknum og hvernig á að ná því. Berðu það svo saman við þær biblíulegu frumreglur sem hafa komið fram í þessari grein. Þá geturðu dæmt um hvort leikurinn sé heppilegur eða ekki.

Það er miklu betra að hafa kjark til að taka sjálfur yfirvegaða ákvörðun um hvaða leiki þú ætlar að spila en að elta bara félagana. Síðast en ekki síst skaltu hafa í huga ráðin í Biblíunni: „Metið rétt, hvað Drottni þóknast.“ — Efesusbréfið 5:10.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvað myndirðu segja ef vinur byði þér að spila með sér ofbeldisfullan eða siðlausan tölvuleik?

◼ Hvernig geturðu tryggt að þú eyðir ekki svo miklum tíma í tölvuleiki að mikilvægari mál sitji á hakanum?

[Innskot á blaðsíðu 27]

Að spila ofbeldisfulla eða siðlausa leiki er eins og að leika sér að geislavirkum úrgangi. Skaðinn sést ekki strax en hann er óhjákvæmilegur.

[Rammi á blaðsíðu 26]

Hve oft spilarðu tölvuleiki?

□ Sjaldan

□ Einu sinni í viku

□ Á hverjum degi

Hvað spilarðu tölvuleiki lengi í einu?

□ Nokkrar mínútur

□ Innan við klukkutíma

□ Meira en tvo klukkutíma

Hvaða leikir eru skemmtilegastir?

□ Kappakstursleikir

□ Íþróttir

□ Skotleikir

□ Aðrir

Skrifaðu hér nafnið á tölvuleik sem þú veist að væri ekki gott fyrir þig að spila.

․․․․․

[Rammi/mynd á blaðsíðu 28, 29]

TIL FORELDRA

Eftir að hafa lesið greinina hér á undan áttarðu þig ef til vill á að tölvuleikir hafa breyst mikið síðan þú varst unglingur. Hvernig geta foreldrar aðstoðað börnin sín við að koma auga á hugsanlegar hættur og forðast þær?

Það kemur að litlu gagni að fordæma tölvuleikjaiðnaðinn eins og hann leggur sig eða halda því einstrengingslega fram að allir tölvuleikir séu tímasóun. Hafðu í huga að það eru ekki allir leikir slæmir. En þeir geta verið vanabindandi og tímafrekir. Þess vegna skaltu athuga hve mikinn tíma barnið þitt notar í tölvuleiki. Athugaðu hvers konar leikjum barnið virðist hafa gaman af. Þú gætir jafnvel spurt spurninga eins og:

Hvaða leikur er vinsælastur meðal skólafélaganna?

Hvað gerist í leiknum?

Hvers vegna heldurðu að þessi leikur sé svona vinsæll?

Þú kemst kannski að raun um að barnið þitt veit meira um tölvuleiki en þig grunaði. Það hefur ef til vill spilað leiki sem þér finnst vafasamir. Ef sú er raunin skaltu ekki bregðast of harkalega við. Þetta gefur þér tækifæri til að hjálpa barninu að temja skilningarvitin. — Hebreabréfið 5:14.

Spyrðu spurninga til að leiða barninu fyrir sjónir hvers vegna það virðist skemmtilegt að spila vafasama leiki. Þú gætir til dæmis spurt spurninga eins og:

Finnst þér þú vera útundan af því að þú mátt ekki spila ákveðinn leik?

Eins og fram kom í greininni á undan gætu sumir unglingar spilað ákveðinn leik bara til að hafa eitthvað að tala um við félagana. Ef sú er raunin hjá barninu þínu tekurðu öðruvísi á málum en ef þú kemst að því að það laðast að leikjum með grófu ofbeldi eða kynferðislegu ívafi. — Kólossubréfið 4:6.

En hvað er til ráða ef barnið þitt er heillað af því sem er vafasamt í einhverjum leik? Sumir unglingar eru fljótir að fullyrða að viðbjóður í tölvuleikjum hafi engin áhrif á þá og segja ef til vill: „Ég geri þetta ekki í alvörunni þótt ég spili það í tölvunni.“ Ef sú er raunin hjá barninu þínu skaltu benda á Sálm 11:5 sem vitnað er í á bls. 28. Þar kemur skýrt fram að það eru ekki bara þeir sem eru ofbeldisfullir sem Guð hefur vanþóknun á heldur einnig þeir sem elska ofríki eða ofbeldi. Sama frumregla á við um kynferðislegt siðleysi og aðra lesti sem Biblían fordæmir. — Sálmur 97:10.

Sumir sérfræðingar mæla með eftirfarandi:

Leyfðu ekki tölvuleiki í lokuðu rými eins og svefnherbergi.

Settu ákveðnar reglur (eins og til dæmis að ekki megi spila tölvuleiki fyrr en heimavinnu er lokið eða eftir kvöldmat eða eftir annað sem skiptir máli).

Leggðu áherslu á aðrar tómstundaiðkanir sem fela í sér hreyfingu.

Fylgstu með barninu spila tölvuleiki — eða spilið með því við og við.

Til að börnin taki mark á leiðbeiningum þínum um skemmtun og afþreyingu verður þú auðvitað að setja þeim gott fordæmi. Spyrðu þig: Hvers konar sjónvarpsefni og bíómyndir horfi ég á? Ef þú segir eitt en gerir annað máttu vera viss um að börnin vita af því!