Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég boðaði fagnaðarerindið í fjarlægum löndum

Ég boðaði fagnaðarerindið í fjarlægum löndum

Ég boðaði fagnaðarerindið í fjarlægum löndum

HELEN JONES SEGIR FRÁ

Snemma á áttunda áratug síðustu aldar var ég á gangi í gegnum mannþröngina á markaðstorgi einu í Bangalore á Indlandi. Skyndilega kom vatnabuffall æðandi, lyfti mér með hornunum og fleygði mér á jörðina. Hann var í þann veginn að ráðast á mig þegar indversk kona kom mér til bjargar. Hvaða var ég eiginlega að gera á Indlandi?

ÉG FÆDDIST árið 1931 og ólst upp í Vancouver, fallegri borg í Kanada. Foreldrar mínir voru sómafólk en sóttu ekki kirkju. Ég hafði aftur á móti löngun til að kynnast Guði og þegar ég var að vaxa úr grasi fékk ég að fara í sunnudagaskóla og biblíuskóla á sumrin.

Árið 1950, þegar ég var 19 ára, giftist ég Frank Schiller. Hann átti fjögur börn frá fyrra hjónabandi. Tveimur árum síðar eignuðumst við son. Við vildum tilheyra trúarsöfnuði en Frank var fráskilinn og þess vegna vildi engin kirkja, sem við reyndum að ganga í, taka við okkur. Frank ofbauð svo að hann vildi ekki tala lengur um trúmál.

Við kynnumst sannleika Biblíunnar

Árið 1954 kom bróðir minn að máli við mig og sagði ákafur frá því hvað vinnufélagi hans, sem var vottur Jehóva, hefði sagt honum um Biblíuna. Ég var með fjölmargar spurningar og vissi hvar vottarnir héldu samkomur. En ég fór þó ekki á samkomu hjá þeim þar sem ég vissi að Frank hafði megna óbeit á trúarbrögðum. Að nokkrum tíma liðnum fengum við heimsókn frá tveimur vottum. Ég vildi vita hvernig trúfélagið þeirra liti á hjónaskilnað. Þeir lásu fyrir mig úr Biblíunni og bentu mér á hverjar væru biblíulegu forsendurnar fyrir skilnaði. (Matteus 19:3-9) Þeir fullvissuðu mig um að með reglubundnu biblíunámi gæti ég fengið svör við spurningum mínum.

Frank varð fokreiður því að hann vildi ekkert með vottana hafa að gera. Árið 1955 sótti ég minningarhátíðina um dauða Krists. Þegar ég kom heim gat ég ekki á mér setið og varð að segja Frank frá því sem ég hafði lært. „Það getur ekki verið!“ æpti hann. „Ef þú getur sýnt mér þetta í Biblíunni skal ég koma á eina af þessum bjánalegu samkomum þínum!“

Ég rétti honum Biblíuna og hann tók varlega við henni með augljósri virðingu. Við flettum upp ritningarstöðunum sem ég hafði skrifað niður. Ég sagði ekki mikið heldur leyfði Biblíunni að tala. Frank mótmælti engu og virtist vera í þungum þönkum það sem eftir var kvölds.

Þegar fram liðu stundir minnti ég hann á loforðið um að koma á samkomu. Hann svaraði með semingi: „Ég skal koma á eina samkomu til að sjá hvað þið eruð að gera.“ Ræðan, sem var flutt, fjallaði um það að eiginkonur ættu að vera eiginmönnum sínum undirgefnar. (Efesusbréfið 5:22, 23, 33) Hann var mjög hrifinn af því sem hann heyrði. Stuttu síðar var Frank viðstaddur Varðturnsnám sem byggt var á greininni „Hafðu ánægju af vinnu“. Þar sem Frank var vinnusamur maður líkaði honum vel það sem kom fram í náminu. Eftir það lét hann sig aldrei vanta á samkomu. Áður en langt um leið var Frank orðinn kappsamur í boðunarstarfinu og ég var upptekin af því að kenna fólki sem lét síðan skírast. Við Frank, ásamt móður minni og bróður, létum skírast til tákns um vígslu okkar við Guð það ár.

Löngun til að gera meira

Á umdæmismótinu í Seattle í Washington árið 1957 fjallaði ein ræðan um það að þjóna þar sem þörfin fyrir boðbera Guðsríkis væri meiri. Ég bað til Jehóva: ‚Kæri Jehóva. Ég vil líka fara. Viltu hjálpa okkur til að flytjast á stað þar sem við getum komið að góðum notum‘. En Frank hafði áhyggjur af því hvort hann gæti séð fjölskyldunni farborða. — 1. Tímóteusarbréf 5:8.

Ári síðar sóttum við mótið í New York sem haldið var samtímis á Yankee Stadium og Polo Grounds. Yfir 253.000 voru viðstaddir opinbera fyrirlesturinn. Frank var snortinn af því sem hann sá og heyrði. Á heimleiðinni ákváðum við þess vegna að flytja til Kenía í Afríku því að þar var töluð enska og þar gætum við auk þess fundið góða skóla fyrir börnin.

Árið 1959 seldum við húsið okkar, hlóðum búslóðinni upp á bílinn og keyrðum til Montreal í Kanada. Þaðan fórum við með skipi til London og sigldum síðan með öðru skipi yfir Miðjarðarhaf og Rauðahaf alla leið inn á Indlandshaf. Að lokum komum við til Mombasa í Kenía sem er á austurströnd Afríku. Daginn eftir fórum við með lest til Naíróbí, höfuðborgar landsins.

Umbunarrík ár í Afríku

Boðunarstarf Votta Jehóva í Kenía var bannað á þessum tíma og við þurftum því að boða trúna með fyllstu aðgát. Í Kenía bjuggu einnig fáein önnur hjón frá öðrum löndum og við útlendingarnir fengum að vera um kyrrt. Ekki máttu vera fleiri en tíu manns viðstaddir samkomurnar. Allir þurftu því að taka fullan þátt í þeim, þar á meðal börnin.

Skömmu eftir komuna til Kenía fundum við húsnæði og Frank fann vinnu. Fyrsta konan, sem ég hitti í boðuninni hús úr húsi, þáði biblíunámskeið og þegar fram liðu stundir gerðist hún brautryðjandi, eins og vottar Jehóva kalla þá sem nota mikinn tíma til að boða trúna. Ég var líka með unglingsstúlku í biblíunámi en hún var síkatrúar. Við kölluðum hana Goody. Hún var staðföst þrátt fyrir þrýsting frá fjölskyldunni og samfélagi síka. Eftir að Goody Lull var rekin burt af heimili sínu flutti hún inn til vottafjölskyldu, vígði Jehóva líf sitt, gerðist brautryðjandi og útskrifaðist seinna úr trúboðsskólanum Gíleað.

Við fjölskyldan lentum í ýmsum raunum. Elsti sonur okkar fékk gigtarsótt og Frank brenndist mjög alvarlega þegar hann var að gera við bíl og í kjölfarið missti hann vinnuna. Seinna fékk hann nýja vinnu í um 1000 kílómetra fjarlægð í Dar es Salaam, höfuðborg Tanganyika (núna Tansanía). Við tókum saman föggur okkar, settum þær í bílinn og lögðum upp í þessa löngu ferð. Í Dar es Salaam var á þessum tíma lítill söfnuður sem tók okkur tveim höndum.

Enda þótt boðunarstarfið væri bannað í Tansaníu á þeim tíma var banninu ekki stranglega framfylgt. Árið 1963 fengum við heimsókn frá höfuðstöðvum Votta Jehóva í Bandaríkjunum. Það var Milton Henschel. Á meðan hann var að flytja eina af ræðum sínum í Karimjee-salnum, einum besta áheyrendasal landins, settist roskinn maður við hliðina á mér. Hann var fátæklega klæddur. Ég heilsaði honum og leyfði honum að fylgjast með í biblíunni minni og söngbókinni. Að lokinni dagskrá hvatti ég hann til að koma aftur. Þegar hann var á brott komu innfæddu vottarnir æðandi til mín.

„Veistu hver þetta var?“ spurðu þeir. „Þetta var borgarstjórinn í Dar es Salaam!“ Hann var búinn að hóta því að banna mótið og hélt greinilega að ég myndi koma illa fram við hann þar sem hann væri „fátækur“. Hann ætlaði að notfæra sér það sem átyllu til að banna mótshaldið. En hann var svo snortinn af vingjarnlegri framkomu og persónulegum áhuga sem honum var sýndur að hann leyfði mótinu að halda áfram án truflunar. Það voru 274 viðstaddir og 16 létu skírast.

Á þeim tíma sem við vorum í Tansaníu fékk landið sjálfstæði. Upp frá því vildu atvinnurekendur heldur ráða heimamenn í vinnu hjá sér en útlendinga. Flestir útlendingar þurftu að flytjast af landi brott. Frank gafst hins vegar ekki upp í leit sinni að vinnu og að lokum bar hún árangur. Honum var sagt að það vantaði færan vélvirkja til að annast viðhald á díseleimreiðum. Þetta gerði okkur kleift að vera um kyrrt í fjögur ár til viðbótar. Þegar samningur Franks rann út fórum við aftur til Kanada þar sem við héldum kyrru fyrir þar til yngsta barnið óx úr grasi og gekk í hjónaband. Okkur fannst við enn þá vera ung og við vorum óðfús að gera meira.

Förinni heitið til Indlands

Árið 1970 fluttum við til Bangalore samkvæmt tilmælum deildarskrifstofu Votta Jehóva í Bombay (núna Mumbai). Þar bjuggu 1,6 milljónir manna á þeim tíma. Það var þar sem litlu munaði að vatnabuffall yrði mér að bana. Þarna var fjörtíu manna enskumælandi söfnuður og lítill hópur sem talaði tamíl. Frank var með nokkra biblíunemendur sem tóku góðum framförum og urðu síðar safnaðaröldungar. Ég var líka með biblíunemendur, einkum fjölskyldur sem byrjuðu að þjóna Jehóva.

Kona nokkur að nafni Gloria bjó í mjög fátækum borgarhluta. Þegar ég heimsótti hana í fyrsta skipti bauð hún mér inn. Þarna voru engin húsgögn svo að við sátum á gólfinu. Ég gaf henni eintak af Varðturninum og hún klippti út tilvitnun í Opinberunarbókina 4:11 og límdi úrklippuna á vegginn þar sem hún gat séð hana á hverjum degi. Tilvitnunin hljóðaði svo að hluta til: „Verður ert þú, Jehóva.“ Henni þóttu þetta ákaflega falleg orð. Ári síðar lét hún skírast.

Frank var boðið að vinna í eitt ár á deildarskrifstofunni í Bombay og hafa umsjón með byggingu fyrstu mótshallar Votta Jehóva á Indlandi. Mótshöllin var reist með því einfaldlega að byggja nýja hæð ofan á deildarskrifstofuna sem fyrir var. Í þá daga voru rétt rúmlega 3000 vottar á öllu Indlandi og færri en 10 unnu á deildarskrifstofunni. Árið 1975, þegar fjármunir okkar voru á þrotum, þurftum við því miður að kveðja vini okkar sem okkur var farið að þykja svo vænt um.

Aftur til Afríku

Tíu ár liðu og Frank komst á eftirlaun. Við buðum okkur því fram til að taka þátt í að byggja deildarskrifstofur erlendis. Nokkru síðar fengum við bréf þar sem við vorum beðin um að fara til Igieduma í Nígeríu en þar var byggingarvinna í fullum gangi. Á meðan við vorum þar var Frank með mann úr nágrannaþorpi í biblíunámi. Maðurinn tók góðum framförum og starfaði síðar á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Nígeríu.

Við héldum því næst til Saír til að vinna við byggingu á deildarskrifstofu. Fljótlega eftir komuna þangað var boðunarstarfið bannað og vegabréfin okkar gerð upptæk. Frank fékk hjartaáfall í vinnunni en náði sér aftur meðan bannið var í gildi. Seinna þurftu allir sem unnu að byggingunni að fara burt og við vorum send til Líberíu. Á deildarskrifstofunni í Monróvíu var Frank beðinn um að gera við rafstöðina. Þegar vegabréfsáritunin okkar rann út árið 1986 þurftum við að fara aftur til Kanada.

Til Ekvador

Stuttu eftir komuna til Kanada fréttum við að góðvinur okkar, Andy Kidd, væri fluttur til Ekvador og nyti þess að taka þátt í prédikunarstarfinu þar í landi. Hann var eini öldungurinn í söfnuðinum sínum svo að oft þurfti hann að sjá um flesta dagskrárliðina á samkomunum. Árið 1988 þáðum við boð hans um að heimsækja deildarskrifstofuna í Ekvador og fengum góðar móttökur.

Við fundum okkur notalegt húsnæði en vandamálið var að við þurftum að læra spænsku og Frank var 71 árs. Með takmarkaðri spænskukunnáttu gátum við samt næstu tvö árin hjálpað 12 manns til að láta skírast. Frank var beðinn um að vinna að byggingu deildarskrifstofunnar í Guayaquil í Ekvador. Auk þess las hann Biblíuna með manni nokkrum en konan hans var ein af fyrstu vottunum þar í borg. Þessi maður hafði verið mótsnúinn vottunum í 46 ár en varð nú vinur okkar og trúbróðir.

Sár missir

Við settumst að nálægt smábænum Ancón við strönd Kyrrahafsins og aðstoðuðum þar við byggingu nýs ríkissalar. En 4. nóvember 1998 fékk Frank hjartaáfall eftir að hafa flutt lokaræðuna á þjónustusamkomunni. Hann dó því miður síðar um kvöldið. Stuðningur safnaðarins var ómetanlegur. Daginn eftir var Frank jarðaður í kirkjugarðinum sem var hinum megin við götuna gegnt ríkissalnum. Engin orð fá lýst sársaukanum sem fylgir því að missa ástvin.

Ég þurfti að snúa aftur til Kanada vegna fjölskyldumála og til að ganga frá ýmsum lagalegum atriðum. En í þetta skipti var ég ein á ferð. Ég var mjög sorgbitin en Jehóva var ekki búinn að gleyma mér. Ég fékk bréf frá deildarskrifstofunni í Ekvador þar sem ég fékk að vita að ég væri velkomin aftur. Ég sneri því þangað á nýjan leik og fann mér litla íbúð nálægt deildarskrifstofunni. Með því að verja tíma mínum og kröftum á deildarskrifstofunni og í boðunarstarfinu gat ég tekist á við sársaukann sem fylgdi því að missa Frank. Ég var engu að síður mjög einmana.

Næg verkefni í þjónustu Jehóva

Þegar fram liðu stundir kynntist ég Junior Jones. Hann hafði flutt frá Bandaríkjunum til Ekvador árið 1997 til að starfa sem brautryðjandi þar. Við höfðum sömu markmið og sömu áhugamál og í október 2000 gengum við í hjónaband. Junior hafði reynslu af byggingavinnu og þess vegna fengum við boð um að leggja lokahönd á mótshöllina í Cuenca sem er borg hátt uppi í Andesfjöllum. Hinn 30. apríl 2006 fengum við síðan heimsókn frá New York. Geoffrey Jackson, fulltrúi stjórnandi ráðs Votta Jehóva, kom þá og hélt vígsluræðuna. Það voru 6554 viðstaddir.

Hver hefði getað ímyndað sér að boðunarstarfið ætti eftir að bera svona ríkulegan ávöxt í fjarlægum löndum eins og Afríku, Indlandi og Suður-Ameríku? Það hvarflar ekki að okkur Junior að setjast í helgan stein. Ég hef þjónað Jehóva í meira en 50 ár og þau hafa liðið svo hratt að mér finnst eins og það hafi verið í gær sem ég byrjaði að þjóna Jehóva. Og ég veit að þegar nýi heimurinn kemur og við lítum um öxl virðist tíminn, sem við lifum núna, hafa liðið jafn hratt. — Opinberunarbókin 21:3-5; 22:20.

[Kort/mynd á blaðsíðu 15]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Starfssvæðin okkar

KANADA → ENGLAND → KENÍA → TANSANÍA

KANADA → INDLAND

KANADA → NÍGERÍA → KONGÓ, ALÞÝÐULÝÐVELDIÐ (SAÍR) → LÍBERÍA

KANADA → EKVADOR

[Aðrir staðir]

BANDARÍKIN

[Mynd]

Við Frank á leiðinni á mót á Indlandi.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Með eiginmanni mínum, Junior Jones.