Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju ættum við að láta okkur annt um umhverfið?

Af hverju ættum við að láta okkur annt um umhverfið?

Sjónarmið Biblíunnar

Af hverju ættum við að láta okkur annt um umhverfið?

AÐ ÖLLUM líkindum valda mennirnir meiri umhverfisspjöllum nú en nokkru sinni fyrr í sögunni. Vandamál eins og hlýnun jarðar verða sífellt ógnvænlegri og vísindamenn, stjórnmálamenn og iðnfyrirtæki leggja töluvert á sig til að gera eitthvað í málinu.

Ber okkur sem einstaklingum skylda til að vernda umhverfið og þá að hve miklu leyti? Biblían hefur að geyma upplýsingar sem gefa okkur góðar ástæður til að hugsa vel um umhverfið. Hún bendir líka á hvernig við getum gætt jafnvægis í þeim efnum.

Styðjum fyrirætlun skaparans

Jehóva Guð skapaði jörðina til þess að hún yrði gróðursælt heimili fyrir manninn. Hann sagði að allt sköpunarverkið væri „harla gott“ og gaf mannkyninu það verkefni að ‚yrkja jörðina og gæta hennar‘. (1. Mósebók 1:28, 31; 2:15) En hvað finnst Guði um ástand jarðarinnar eins og það er núna? Það er augljóst að hann er sár yfir því hve illa maðurinn hefur hugsað um hana af því að í Opinberunarbókinni 11:18 er spáð að hann muni „eyða þeim, sem jörðina eyða“. Við ættum þess vegna ekki að vera skeytingarlaus um ástand jarðarinnar.

Biblían lofar okkur að þegar Guð ‚gerir alla hluti nýja‘ verði bætt að fullu fyrir skaðann sem menn hafa valdið. (Opinberunarbókin 21:5) Við ættum þó ekki að hugsa sem svo að fyrst Guð ætli hvort eð er að hreinsa jörðina skipti litlu máli hvernig við göngum um hana. Það skiptir nefnilega máli. Hvernig getum við sýnt í verki að við lítum jörðina sömu augum og Guð gerir, og að við styðjum þá fyrirætlun hans að hún verði paradís?

Leggjum okkar af mörkum

Eðlilegum athöfnum mannanna fylgir alltaf einhver úrgangur. Í visku sinni skapaði Jehóva hringrásir náttúrunnar til þess að losa umhverfið við slíkan úrgang og hreinsa loftið, vatnið og jarðveginn. (Orðskviðirnir 3:19) Við ættum að hegða okkur í samræmi við þessi ferli náttúrunnar og gæta þess að auka ekki á umhverfisvandann að óþörfu. Þannig sýnum við að við elskum náungann eins og sjálf okkur. (Markús 12:31) Skoðum athyglisvert dæmi frá biblíutímanum.

Guð sagði Ísraelsþjóðinni að grafa saur „fyrir utan herbúðirnar“. (5. Mósebók 23:12, 13) Með því að hlýða þessu boði var hægt að gæta hreinlætis innan búðanna og það flýtti einnig fyrir rotnun. Þjónar Guðs nú á tímum reyna líka að losa sig við sorp og önnur úrgangsefni fljótt og á réttan hátt. Sérstakrar varúðar er þörf þegar spilliefnum er fargað.

Hægt er að endurvinna margs konar úrgang. Ef lög kveða á um að sorp skuli endurunnið fylgjum við þeim og gjöldum þar með „keisaranum það, sem keisarans er“. (Matteus 22:21) Það kostar kannski einhverja fyrirhöfn að flokka sorp og fara með það í endurvinnslu en það ber vott um að okkur langi til að búa á hreinni jörð.

Förum vel með auðlindir jarðar

Við þurfum að nota auðlindir jarðar til að geta fullnægt þörfum okkar fyrir mat, húsaskjól og eldsneyti. Ef við notum þessar auðlindir rétt viðurkennum við að þær séu gjafir frá Guði. Þegar Ísraelsmenn vildu fá kjöt að borða í eyðimörkinni sá Jehóva þeim fyrir gnægð af lynghænsnum. En vegna græðgi misnotuðu þeir þessa gjöf og það reitti Jehóva Guð til reiði. (4. Mósebók 11:31-33) Guð hefur ekki breyst. Samviskusamir þjónar hans gæta þess þar af leiðandi að sóa ekki auðlindum en það gæti verið merki um græðgi.

Sumum finnst kannski að þeir eigi rétt á því að nýta að vild orku- og auðlindir jarðar. En fólk ætti ekki að ganga á náttúruauðlindirnar bara af því að það hefur efni á því eða þær virðast óþrjótandi. Eftir að Jesús hafði með kraftaverki gefið miklum mannfjölda að borða lét hann safna saman því sem eftir var af fiskunum og brauðunum. (Jóhannes 6:12) Hann gætti þess að sóa ekki því sem faðir hans hafði látið í té.

Gætum jafnvægis

Á hverjum degi gerum við eitthvað sem hefur áhrif á umhverfi okkar. En ættum við að ganga svo langt að flytjast úr samfélagi manna til að hafa ekki skaðleg áhrif á umhverfið? Í Biblíunni er hvergi mælt með slíku. Jesús er dæmi um það. Þegar hann var á jörðinni lifði hann eðlilegu lífi og það gerði honum kleift að sinna prédikunarstarfinu sem Guð hafði falið honum. (Lúkas 4:43) Og Jesús vildi alls ekki blanda sér í stjórnmál til að leysa félagsleg vandamál þess tíma. Hann sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ — Jóhannes 18:36.

Það er þó gott að hugsa um hvaða afleiðingar ákvarðanir okkar hafa fyrir umhverfið þegar við kaupum vörur fyrir heimilið, ferðumst milli staða og veljum afþreyingu. Sumir kjósa til dæmis að kaupa vistvænar vörur. Aðrir reyna að eiga sem minnstan þátt í starfsemi sem mengar umhverfið eða sóar orku að óþörfu.

Það er engin þörf á því að reyna að þvinga aðra til að taka sömu afstöðu og við í málum sem snerta umhverfisvernd. Aðstæður eru breytilegar eftir einstaklingum og svæðum. Við þurfum samt sem áður að taka ábyrgð á ákvörðunum okkar. „Sérhver mun verða að bera sína byrði“ eins og Biblían segir. — Galatabréfið 6:5.

Skaparinn lagði mönnunum þá skyldu á herðar að annast jörðina. Ef við erum þakklát fyrir þetta verkefni og berum djúpa virðingu fyrir Guði og sköpunarverkinu erum við skynsöm og samviskusöm þegar við tökum ákvarðanir sem snerta umhverfismál.

HEFURÐU VELT FYRIR ÞÉR?

◼ Mun Guð leysa umhverfisvandamál jarðar? — Opinberunarbókin 11:18.

◼ Hvaða ábyrgð hefur Guð falið mönnunum? — 1. Mósebók 1:28; 2:15.

◼ Hvernig sýndi Jesús Kristur að hann vildi ekki sóa verðmætum? — Jóhannes 6:12.