Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju óttumst við dauðann?

Af hverju óttumst við dauðann?

Af hverju óttumst við dauðann?

„Dauðinn er hræðilegastur alls því hann er endirinn.“ — Aristóteles.

VINIR hennar álitu hana guðrækna og trúaða konu. Sumir kölluðu hana jafnvel „máttarstólpa kirkjunnar sinnar“. Henni hafði verið kennt að dauðinn væri ekki endir alls heldur aðeins leið yfir í framhaldslífið. En þegar hún stóð frammi fyrir dauðanum tók óttinn öll völd. Efasemdirnar heltust yfir hana og hún sagði við andlegan ráðgjafa sinn: „Það eru svo margar [hugmyndir um hvað gerist við dauðann]; hvernig veistu hver þeirra er rétt?“

Í nánast öllum trúarbrögðum og samfélögum heims eru uppi hugmyndir um framhaldslíf af einhverju tagi. En hver þeirra er rétt? Margir hafa efasemdir um að það sé til nokkurt líf eftir dauðann. Hvað um þig? Hefur þér verið kennt að menn haldi áfram að lifa eftir dauðann? Trúirðu því? Óttastu dauðann?

Óttinn við að verða að engu

Á máli rannsóknarmanna er þessi ótti við dauðann stundum kallaður „dauðahræðsla“. Á síðustu áratugum hafa margar bækur og vísindagreinar verið skrifaðar um þetta málefni. Flestir vilja hugsa sem minnst um dauðann en blákaldur veruleikinn neyðir okkur þó fyrr eða síðar til þess. Lífið er ákaflega brothætt — að meðaltali deyja rúmlega 160.000 manns á hverjum degi! Enginn er undanskilinn dauðanum, og sú staðreynd hræðir marga.

Sérfræðingar hafa skipt þessari dauðahræðslu í nokkra flokka. Þar á meðal er óttinn við sársauka, óttinn við hið óþekkta, óttinn við að missa ástvini og óttinn við þau neikvæðu áhrif sem dauði manns getur haft á eftirlifandi aðstandendur.

Algengastur er þó óttinn við að hverfa og verða að engu. Óháð því hvaða trúarskoðanir fólk aðhyllist virðist það óttast að dauðinn bindi enda á lífið. Og vísindin ýta undir þennan ótta. Núna er hægt að útskýra nánast alla starfsemi líkamans á vísindalegan hátt. Enginn líffræðingur, eðlisfræðingur eða efnafræðingur hefur nokkurn tíma fundið í líkama mannsins vísbendingar um eitthvert ósýnilegt fyrirbæri sem geti lifað af líkamsdauðann. Þess vegna líta flestir vísindamenn einungis á dauðann sem líffræðilegt ferli.

Það er því engin furða að fólk, sem segist trúa staðfastlega á líf eftir dauðann, óttist innst inni að verða að engu þegar það deyr. Það er athyglisvert að forðum daga skuli Salómon konungur hafa lýst dauðanum eins og hann væri endanlegur og það skelfir marga.

„Moldin“ — hinsti áfangastaður?

Salómon skrifaði fyrir 3000 árum: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið.“ Hann bætti við: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 6, 10.

Salómon var innblásið að skrifa: „Örlög mannanna og örlög skepnunnar — örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn . . . og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna . . . Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ — Prédikarinn 3:19, 20.

Þótt Salómon konungur hafi skrifað þessi orð voru þau innblásin af Guði og eru hluti af rituðu orði hans, Biblíunni. Þessir ritningarstaðir og margir fleiri styðja ekki þá útbreiddu hugmynd að eitthvað innra með okkur haldi áfram að lifa eftir dauðann í einhverri annarri mynd. (1. Mósebók 2:7; 3:19; Esekíel 18:4) Er Guð þá að segja okkur að „moldin“, tilveruleysið, sé hinsti áfangastaður allra manna? Alls ekki!

Biblían kennir ekki að einhver hluti af manninum lifi af líkamsdauðann. Hún veitir hins vegar örugga von fyrir hina látnu. Í greininni hér á eftir er bent á hvers vegna við þurfum ekki að óttast að dauðinn sé endir alls.

[Rammi á blaðsíðu 3]

ÓUMFLÝJANLEGUR ÓVINUR

Dauðinn hefur verið kallaður óvinur mannsins. Hann er raunverulegur óvinur og sönnunargögnin blasa við alls staðar í kringum okkur. Samkvæmt einni heimild er talið að 59 milljónir manna deyi á ári hverju — að meðaltali 2 á sekúndu. Lítum á nokkrar tölfræðilegar upplýsingar:

◼ Á 102 sekúndna fresti deyr einhver vegna stríðsátaka.

◼ Á 61 sekúndu fresti er einhver myrtur.

◼ Á 39 sekúndna fresti fremur einhver sjálfsvíg.

◼ Á 26 sekúndna fresti deyr einhver í umferðarslysi.

◼ Á 3 sekúndna fresti deyr einhver beint eða óbeint af völdum hungurs.

◼ Á 3 sekúndna fresti deyr barn undir fimm ára aldri.

[Rammi á blaðsíðu 4]

ÁRANGURSLAUS LEIT

Hinn 9. nóvember 1949 týndist James Kidd, sjötugur koparnámumaður, í fjöllunum í Arizona í Bandaríkjunum. Nokkrum árum síðar, þegar hann hafði verið talinn af, fannst erfðaskráin hans auk peninga og verðbréfa að verðmæti margra milljóna króna. Í erfðaskránni, sem var skrifuð með blýanti, tók James Kidd fram að nota ætti peningana í rannsóknir til að finna „vísindalega sönnun fyrir því að til sé sál sem yfirgefi líkamann við dauðann“.

Fljótlega sóttu yfir 100 manns, sem sögðust vera rannsóknarmenn og vísindamenn, um að fá þetta fé. Réttarhöld í málinu stóðu yfir í marga mánuði og inn bárust þúsundir fullyrðinga þess efnis að til væri ósýnileg sál. Að lokum ákvað dómarinn að deila peningunum á milli tveggja virtra rannsóknarstofnana. Meira en hálfri öld síðar hefur þessum rannsóknarmönnum ekki tekist að finna „vísindalega sönnun fyrir því að til sé sál sem yfirgefi líkamann við dauðann“.