Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er dauðinn endir alls?

Er dauðinn endir alls?

Er dauðinn endir alls?

FÁAR spurningar hafa verið eins áleitnar og torráðnar og spurningin um hvað gerist við dauðann. Hugsuðir og spekingar í öllum menningarsamfélögum hafa velt henni fyrir sér um þúsundir ára. En það eina sem heimspekingar og vísindamenn hafa uppskorið er sægur af kenningum og goðsögnum.

En hvað kennir Biblían? Sumir segja að kenningar hennar um dauða og framhaldslíf séu ekki síður ruglingslegar. En má ekki segja að ruglingurinn stafi af því að alls konar trúarbrögð hafi villt um fyrir fólki með því að hræra falskenningum og bábiljum saman við skýrar kenningar Biblíunnar? Ef við ýtum til hliðar öllum goðsögnum og erfikenningum komumst við að raun um að það sem Biblían segir sjálf er bæði rökrétt og veitir okkur von.

Áður en þú varðst til

Lítum til dæmis á orð Salómons sem bent var á í greininni á undan. Þar stendur mjög skýrt að hinir dánu — bæði menn og dýr — hafi enga meðvitund. Samkvæmt Biblíunni er því engin starfsemi, vitund, tilfinning eða hugsun hjá hinum dánu. — Prédikarinn 9:5, 6, 10.

Er erfitt að trúa þessu? Hugleiddu þetta: Hvert er ástand manna áður en þeir verða til? Hvar varst þú áður en örsmáar frumur úr foreldrum þínum sameinuðust og urðu að þeirri persónu sem þú ert núna? Ef menn hafa eitthvað ósýnilegt innra með sér sem lifir af dauðann, hvar er þá þetta fyrirbæri fyrir getnað? Sannleikurinn er sá að þú átt þér enga fortilveru til að muna eftir. Þú varst ekki til áður en þú varst getinn. Svo einfalt er það.

Það er því rökrétt að álykta að þegar við deyjum snúi meðvitundin aftur í sama horf og hún var í áður en við urðum til. Þetta er eins og Guð sagði við Adam eftir að hann óhlýðnaðist: „Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Að þessu leyti eru mennirnir ekkert öðruvísi en dýrin. Þegar Biblían fjallar um ástand hinna dánu segir hún: „Yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna.“ — Prédikarinn 3:19, 20.

Þýðir þetta að líf okkar takmarkist við fáeina áratugi og eftir það taki við eilíft tómarúm? Eða er einhver von fyrir hina látnu? Hugleiddu eftirfarandi.

Meðfædd löngun til að lifa

Nánast öllum finnst óþægilegt að ræða um dauðann. Og flestir virðast forðast að tala um eigin dauðdaga eða jafnvel hugsa um hann. Á hinn bóginn flæða yfir okkur kvikmyndir og sjónvarpsþættir þar sem fólk sést deyja við allar mögulegar aðstæður auk þess sem fjölmiðlar flytja stöðugar fréttir af dauða raunverulegs fólks.

Þetta hefur þau áhrif að það virðist eðlilegur hluti lífsins að ókunnugt fólk deyi. En þegar ástvinur deyr eða við sjálf finnst okkur ekkert eðlilegt við það. Það stafar af því að menn hafa djúpstæða og meðfædda löngun til að lifa. Við höfum líka næmt tímaskyn og vitund um eilífðina. Salómon konungur skrifaði: „Jafnvel eilífðina hefir [Guð] lagt í brjóst þeirra“. (Prédikarinn 3:11) Undir venjulegum kringumstæðum viljum við halda áfram að lifa. Við viljum að lífið sé án „síðasta söludags“. Ekkert bendir til þess að dýr búi yfir þessari þrá. Þau lifa án þess að gera sér grein fyrir framtíðinni.

Gríðarlegir möguleikar mannsins

Mennirnir þrá ekki aðeins að lifa ótakmarkað heldur hafa þeir líka hæfileika til að vera skapandi og iðjusamir að eilífu. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hve mikið við getum lært. Sagt hefur verið að ekkert í náttúrunni sé jafn flókið og mannsheilinn og eigi jafn auðvelt með að laga sig að breyttum aðstæðum. Ólíkt dýrunum höfum við frjóan huga sem getur rökrætt og skilið óhlutstæðar hugmyndir. Vísindamenn skilja enn ekki nema brot af gríðarlegum möguleikum mannsheilans.

Við höldum þessum hæfileika að mestu þegar við eldumst. Taugasérfræðingar hafa nýlega komist að þeirri niðurstöðu að öldrun hefur aðeins áhrif á lítinn hluta heilastarfseminnar. Sérfræðingar við stofnunina Franklin Institute’s Center for Innovation in Science Learning segja: „Mannsheilinn getur haldið áfram að aðlagast og endurskipuleggja sig endalaust. Nýjar taugafrumur geta jafnvel myndast á gamals aldri. Alvarleg afturför á heilastarfsemi stafar yfirleitt af sjúkdómum. En oftast má rekja minnisleysi eða dvínandi hreyfileikni á efri árum til aðgerðarleysis og ónógrar hugarleikfimi og örvunar fyrir heilann.“

Þetta þýðir að ef við gætum haldið heilanum virkum og heilbrigðum gæti hann haldið áfram að starfa endalaust. James Watson er sameindalíffræðingur sem átti þátt í að uppgötva uppbyggingu DNA. Hann segir: „Heilinn er það flóknasta sem við höfum fundið í alheiminum hingað til.“ Taugasérfræðingurinn Gerald Edelman útskýrir að í broti úr heilanum á stærð við eldspýtnahaus sé „um einn milljarður taugaenda sem geta tengst á svo marga vegu að talan verður stjarnfræðileg — af stærðargráðunni 10 með milljónum núlla á eftir“.

Er þá rökrétt að mennirnir, sem hafa þessa gríðarmiklu hæfileika, eigi aðeins að lifa í nokkra áratugi? Það hljómar eins órökrétt og að nota kraftmikla eimreið og langa röð af lestarvögnum til að flytja eitt sandkorn nokkra sentímetra! Af hverju hafa menn þá svona mikla sköpunargáfu og ótrúlega hæfileika til að læra? Getur verið að ólíkt dýrunum eigi menn alls ekki að deyja — að þeir hafi verið skapaðir til að lifa að eilífu?

Von sem skaparinn veitir

Fyrst við höfum meðfædda löngun til að lifa og endalausa getu til að læra er rökrétt að draga þá ályktun að við mennirnir séum hannaðir til að lifa miklu lengur en 70 eða 80 ár. Og af því getum við dregið aðra ályktun: Það hlýtur að vera til hönnuður, skapari og Guð. Óhagganleg lögmál alheimsins og feikilegur margbreytileiki lífsins á jörðinni styður þá trú að til sé skapari.

En af hverju deyjum við ef Guð skapaði okkur þannig að við gætum lifað að eilífu? Og hvað tekur við eftir dauðann? Ætlar Guð að reisa hina dánu til lífs á ný? Það væri rökrétt að vitur og máttugur Guð veitti okkur svör við þessum spurningum, og það hefur hann gert. Hugleiddu eftirfarandi:

Það var ekki ætlun Guðs í upphafi að mennirnir dæju. Af fyrsta biblíuversinu, þar sem dauðinn er nefndur, má sjá að Guð ætlaði mönnum ekki að deyja. Í 1. Mósebók segir frá því að Guð hafi lagt einfalt próf fyrir fyrstu hjónin, Adam og Evu. Það gaf þeim tækifæri til að sýna honum kærleika sinn og hollustu. Prófið fólst í því að þau máttu ekki borða ávexti ákveðins trés. Guð sagði: „Jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Adam og Eva myndu því aðeins deyja að þau gerðu uppreisn og féllu á prófinu. Eins og fram kemur í frásögu Biblíunnar reyndust þau ótrú og dóu þar af leiðandi. Þannig komst mannkynið fyrst í kynni við ófullkomleika og dauða.

Biblían líkir dauðanum við svefn. Í Sálmi 13:4 er talað um að ‚sofna svefni dauðans‘. Áður en Jesús reisti upp vin sinn Lasarus útskýrði hann fyrir postulunum: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ Og það var einmitt það sem hann gerði. Í Biblíunni segir að þegar Jesús hafi kallaði hafi ‚hinn dáni komið út‘ úr gröfinni — heill og lifandi! — Jóhannes 11:11, 38-44.

Hvers vegna líkti Jesús dauðanum við svefn? Vegna þess að sofandi maður er aðgerðarlaus. Þegar hann sefur djúpum svefni hefur hann enga vitund um tímann eða umhverfi sitt. Hann líður engar þjáningar og finnur ekki til. Þetta er svipað og ástand hinna látnu, þar er engin starfsemi eða meðvitund. En samlíkingin nær lengra. Þegar við förum að sofa væntum við þess að vakna aftur. Og það er einmitt þetta sem Biblían lofar að muni gerast hjá hinum látnu.

Skaparinn segir: „Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi [gröfinni], leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel?“ (Hósea 13:14) Í öðrum spádómi er að finna eftirfarandi loforð: „[Guð] mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jesaja 25:8) Upprisa er sem sagt fólgin í því að vekja hina dánu aftur til lífs.

Hvar munu hinir upprisnu búa? Eins og nefnt hefur verið búa mennirnir yfir meðfæddri löngun til að lifa. Hvar myndirðu vilja búa að eilífu? Myndirðu sætta þig við að lifa eftir dauðann sem hluti af óhlutstæðum alheimskrafti eins og sum trúarbrögð kenna? Myndirðu vilja verða einhver allt önnur persóna án nokkurra minninga um hver þú varst áður? Höfðar það til þín að endurfæðast sem dýr eða tré? Ef þú mættir ráða, myndirðu þá vilja lifa í heimi sem er gersneyddur öllu því sem þú þekkir og því sem við mennirnir höfum venjulega yndi af?

Ef aðstæður væru fullkomnar myndirðu þá ekki vilja búa á jörð sem væri paradís? Biblían veitir okkur einmitt þessa von, að lifa hamingjusöm að eilífu hér á jörð. Guð skapaði jörðina í þessum tilgangi — að vera bústaður fólks sem elskar hann og þráir að þjóna honum að eilífu. Þess vegna segir í Biblíunni: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29; Jesaja 45:18; 65:21-24.

Hvenær á upprisan sér stað? Í Biblíunni er dauðanum líkt við svefn. Af því má ráða að upprisan eigi sér ekki stað strax eftir dauðann. Fólk „sefur“ um tíma frá því það deyr þar til upprisan á sér stað. Í Biblíunni segir að Job hafi spurt: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ Síðan sagði hann: „Þá skyldi ég þreyja [í gröfinni], þar til er lausnartíð mín kæmi. Þú [Guð] mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ (Jobsbók 14:14, 15) Það verður gleðilegur tími þegar hinir látnu verða reistir upp til lífs og geta hitt ástvini sína á ný.

Við þurfum ekki að skelfast dauðann

Sú von sem Biblían veitir eyðir ekki endilega öllum ótta við dauðann. Það er eðlilegt að kvíða sársaukanum og þjáningunum sem fylgja oft dauðanum. Það er skiljanlegt að maður óttist að missa ástvini sína. Og það er líka ofur eðlilegt að hafa áhyggjur af því hvernig ástvinum manns muni vegna ef maður fellur frá.

En þegar við höfum lært það sem Biblían kennir um ástand hinna látnu þurfum við ekki að skelfast dauðann. Við þurfum ekki að óttast að illir andar kvelji okkur í brennandi víti. Við þurfum ekki að óttast myrkan andaheim þar sem eirðarlausar sálir reika um að eilífu. Og við þurfum heldur ekki að óttast að eilíft tilveruleysi sé það eina sem framtíðin beri í skauti sér. Af hverju? Af því að Guð hefur ótakmarkað minni og hann hefur lofað að reisa alla látna, sem hann geymir í minni sér, til lífs hér á jörð. Í Biblíunni fáum við þetta loforð: „Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.“ — Sálmur 68:21.

[Innskot á blaðsíðu 5]

„Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ — 1. Mósebók 3:19.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Eilífðina hefir [Guð] lagt í brjóst þeirra.“ — Prédikarinn 3:11.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

SVÖR VIÐ SPURNINGUM UM DAUÐANN

Í þessari grein hefur ekki verið svarað öllum spurningum um dauðann og upprisuna. Margir hafa fengið svör við slíkum spurningum með því að lesa og rannsaka Biblíuna með vottum Jehóva. Við hvetjum þig til að gera það líka. Hér á eftir eru dæmi um spurningar sem þú getur fengið svör við:

◼ Hvað er átt við þegar Biblían talar um „helvíti“ og „eldsdíkið“?

◼ Hvernig er vondu fólki refsað ef það er ekki til neitt logandi víti?

◼ Samkvæmt Biblíunni yfirgefur andinn líkamann við dauðann. Hver er þessi andi?

◼ Af hverju eru til svona margar frásögur af samskiptum við dáið fólk?

◼ Hvað þýðir orðið „sál“ í Biblíunni?

◼ Hvenær verða hinir látnu reistir upp til lífs í paradís á jörð?

◼ Verða allir reistir upp óháð fyrra líferni?

Á baksíðu þessa blaðs er að finna upplýsingar um hvernig þú getur fengið svör byggð á Biblíunni við öllum þessum spurningum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús sagðist ætla að „vekja“ Lasarus.

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Ímyndaðu þér þá hamingju sem mun ríkja þegar látnir ástvinir fá upprisu.