Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forn handrit hvernig eru þau aldursgreind?

Forn handrit hvernig eru þau aldursgreind?

Forn handrit hvernig eru þau aldursgreind?

BIBLÍUFRÆÐINGURINN Konstantin von Tischendorf var staddur í Katrínarklaustri við rætur Sínaífjalls í Egyptalandi árið 1844. Við leit í einu bókasafninu rakst hann á skinnhandrit eða pergament sem vakti athygli hans. Tischendorf hafði kynnt sér fornletursfræði. * Hann áttaði sig fljótt á því að skinnblöðin voru úr Sjötíumannaþýðingunni sem er grísk þýðing Hebresku ritninganna eða „Gamla testamentisins“ sem svo er kallað. „Ég hafði ekkert séð sem telja mætti eldra en þessar sínaítísku arkir,“ skrifaði hann.

Skinnblöð þessi hafa verið tímasett frá fjórðu öld e.Kr. og eru hluti af handriti sem nú er kallað Sínaíhandritið (Codex Sinaiticus). Sínaíhandritið er aðeins eitt af þúsundum fornra handrita af Hebresku og Grísku ritningunum sem eru fræðimönnum ótæmandi rannsóknarefni.

Saga grískrar fornletursfræði

Bernard de Montfaucon (1655-1741), munkur af Benediktsreglu, lagði grunninn að kerfisbundnum rannsóknum á grískum handritum. Aðrir fræðimenn lögðu sitt af mörkum í framhaldi af því. Tischendorf vann það þrekvirki að taka saman skrá um elstu grísku handrit Biblíunnar í bókasöfnum Evrópu. Hann fór auk þess nokkrar ferðir til Mið-Austurlanda, rannsakaði þar skjöl í hundraðatali og birti síðan niðurstöður sínar.

Á 20. öld fengu fornletursfræðingar í hendur ný og fleiri hjálpargögn. Eitt þeirra er listi sem Marcel Richard tók saman yfir hér um bil 900 handritaskrár. Í þeim er lýst 55.000 grískum handritum af Biblíunni og öðrum ritum sem eru í eigu 820 bókasafna og einstaklinga. Þessi mikli upplýsingabanki er afar verðmætur fyrir þýðendur og auðveldar jafnframt fornletursfræðingum að tímasetja handrit af meiri nákvæmni en áður.

Hvernig eru handrit aldursgreind?

Hugsaðu þér að þú sért að taka til uppi á háalofti í gömlu húsi og finnir handskrifað bréf gulnað af elli. Bréfið er ódagsett. Þú ferð að velta fyrir þér hve gamalt það sé. Þá kemurðu auga á annað gamalt bréf. Almennur stíll þess, leturgerð og fleira ber svipmót af hinu fyrra. Og þér til mikillar ánægju er síðara bréfið dagsett. Þú getur að vísu ekki sagt til um hvaða ár ódagsetta bréfið var skrifað en kannski ertu kominn með allgóða vísbendingu til að áætla tímann hér um bil.

Fornir skrifarar voru ekki vanir að merkja hvenær þeir luku við að skrifa biblíuhandrit. Til að áætla aldur þeirra bera fræðimenn textann saman við önnur verk sem vitað er hvenær voru skrifuð, þar á meðal ýmis veraldleg skjöl. Draga má ýmsar ályktanir af leturgerð, greinarmerkjasetningu, skammstöfunum og fleiru. Þó hafa fundist nokkur hundruð grísk handrit sem eru dagsett. Þau eru frá árunum 510 til 1593 e.Kr.

Letrið gefur vísbendingar

Fornletursfræðingar skipta grísku skrifletri í tvo meginflokka, settletur sem er fágað og formlegt, og léttiskrift sem er samfelld og með samföstum stöfum, einkum notuð til að skrifa skjöl sem ekki töldust bókmenntalegs eðlis. Grískir ritarar notuðu einnig ýmsar stafagerðir sem flokka má sem hástafi, þumlungsstafi (ákveðin gerð upphafsstafa), léttiskrift og lágstafaletur. Ein tegund settleturs, hástafaletrið, var notuð frá fjórðu öld f.Kr. fram á áttundu eða níundu öld e.Kr. Lágstafaletur, sem er smágert settletur, var notað frá áttundu eða níundu öld e.Kr. fram á miðbik fimmtándu aldar þegar prentun með lausaletri hófst í Evrópu. Lágstafaletur var hægt að skrifa hraðar og þéttar en hástafaletur og sparaði því bæði tíma og bókfell.

Fornletursfræðingar nota ákveðnar aðferðir til að aldursgreina handrit. Almennt séð byrja þeir á því að horfa á heildarsvip letursins og síðan rannsaka þeir gerð einstakra stafa. En þar sem allar meiri háttar breytingar á skrifletri tóku að jafnaði langan tíma er ekki hægt að tímasetja handrit af mikilli nákvæmni með þessari rannsóknaraðferð, þótt hún sé vissulega gagnleg.

Sem betur fer geta sérfræðingar beitt fleiri aðferðum til að ákvarða aldur handrita af meiri nákvæmni. Meðal annars er hægt að tímasetja hvenær ákveðnar skriftarvenjur voru teknar upp og kanna hvort þær er að finna í handritinu. Til dæmis má nefna að upp úr 900 e.Kr. fóru grískir ritarar í vaxandi mæli að nota límingar (skeyta tveim eða fleiri stöfum saman í einn). Skrifarar fóru einnig að draga suma grísku stafina niður fyrir grunnlínu og bæta inn framburðartáknum.

Rithönd manns helst að mestu leyti óbreytt alla ævi hans. Þess vegna er sjaldan hægt að tímasetja texta með meira en 50 ára nákvæmni. Auk þess áttu skrifarar það til að nota eldri handrit til fyrirmyndar og þá lítur afritið út fyrir að vera eldra en það er. En þótt við ýmis vandkvæði sé að glíma hefur tekist að tímasetja mörg mikilvæg biblíuhandrit.

Aldursgreining helstu grísku biblíuhandritanna

Alexandríuhandritið (Codex Alexandrinus) var fyrsta meginhandrit Biblíunnar sem fræðimenn fengu aðgang að. Það er nú varðaveitt í British Library. Það hefur að geyma mestan hluta Biblíunnar og er skrifað með grísku hástafaletri á mjög þunnt bókfell. Handrit þetta er tímasett frá því snemma á fimmtu öld e.Kr. Þessi aldursgreining tekur einkum mið af breytingum sem urðu á ritun hástafaleturs milli fimmtu og sjöttu aldar og þær koma fram í dagsettu skjali sem kallað er Dioskorides frá Vínarborg. *

Annað meginhandrit, sem fræðimenn fengu aðgang að, er Sínaíhandritið (Codex Sinaiticus) sem Tischendorf komst yfir í Katrínarklaustri. Það er skrifað með grísku hástafaletri á bókfell og hefur að geyma hluta Hebresku ritninganna samkvæmt grísku Sjötíumannaþýðingunni og allar kristnu Grísku ritningarnar. Af þessu handriti eru 43 arkir geymdar í Leipzig, 347 í British Library í Lundúnum og bútar af 3 í Sankti Pétursborg. Handritið er tímasett frá því síðla á fjórðu öld e.Kr. Þessi tímasetning er staðfest af töflum á spássíum guðspjallanna. Vitað er að Evsebíus frá Sesareu er höfundur að þessum töflum en hann var uppi á fjórðu öld. *

Þriðja meginhandritið er Vatíkanhandrit nr. 1209 (Codex Vaticanus). Það er skrifað með grísku hástafaletri á 759 arkir úr þunnu bókfelli. Þessa handrits er fyrst getið árið 1475 í skrám í bókasafni Páfagarðs. Það innihélt upphaflega alla Biblíuna á grísku en nú vantar í það stærstan hluta 1. Mósebókar og hluta af Sálmunum og kristnu Grísku ritningunum. Fræðimenn tímasetja handritið frá fyrri hluta fjórðu aldar e.Kr. og byggja það á því að skriftarstíllinn er líkur Sínaíhandritinu sem er einnig frá fjórðu öld. Vatíkanhandritið er þó talið örlítið eldra. Þar vantar til dæmis millivísanakerfi Evsebíusar.

Fjársjóður úr sorphaugi

Árið 1920 eignaðist John Rylands-bókasafnið í Manchester mikið af papírusritum sem fundist höfðu við uppgröft í ævafornum sorphaugi í Egyptalandi. Meðal handritanna voru bréf, kvittanir og manntalsskjöl. Fræðimaðurinn Colin Roberts var að rannsaka skjölin þegar hann kom auga á handritabrot með texta sem hann kannaðist við — fáein vers úr 18. kafla Jóhannesarguðspjalls. Þetta voru elstu kristnu textarnir á grísku sem fundist höfðu fram til þessa.

Handritabrotið er kallað John Rylands Papyrus 457 og er auðkennt á alþjóðvettvangi sem P52. Það er skrifað með grísku hástafaletri og er tímasett frá fyrri hluta annarrar aldar, aðeins fáeinum áratugum eftir að Jóhannesarguðspjall er skrifað. Athygli vekur að textinn er nánast algerlega samhljóða handritum sem eru miklu yngri.

Forn en nákvæm

Í bók sinni, The Bible and Archæology, segir breski textagagnrýnandinn sir Frederic Kenyon um Grísku ritningarnar: „Við getum litið svo á að nú sé endanlega staðfest að bækur Nýja testamentisins séu bæði ósviknar og óspilltar.“ Fræðimaðurinn William H. Green tekur í sama streng varðandi Hebresku ritningarnar. Hann segir: „Óhætt er að fullyrða að ekkert annað verk fornaldar hafi skilað sér af slíkri nákvæmni.“

Ummæli þessara fræðimanna minna á orð Péturs postula þegar hann sagði: „Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur. En orð Drottins varir að eilífu.“ — 1. Pétursbréf 1:24, 25.

[Neðanmáls]

^ Fornletursfræði er „fræðigrein um leturtegundir fornaldar og miðalda; notuð til að ráða aldur og uppruna handrita“. — Íslenska alfræðiorðabókin.

^ Dioskorides frá Vínarborg var skrifað fyrir konu sem hét Juliana Anicia en hún dó annaðhvort árið 527 eða 528 e.Kr. Skjalið er „elsta dæmi um hástafaletur á bókfelli sem hægt er að tímasetja nokkurn veginn“. — E. M. Thompson. An Introduction to Greek and Latin Palaeography.

^ Textaskýringar Evsebíusar, sem svo eru kallaðar, eru töflur eða kerfi millivísana „til að sýna hvaða vers í hverju guðspjalli eru áþekk versum í hinum guðspjöllunum“. — Bruce M. Metzger. Manuscripts of the Greek Bible.

[Innskot á blaðsíðu 21]

Með því að rannsaka dagsett handrit geta fornletursfræðingar tímasett verk sem eru ekki dagsett.

[Rammi á blaðsíðu 20]

Dauðahafshandrit Jesajabókar aldursgreint

Fyrra Dauðahafshandrit Jesajabókar fannst árið 1947. Þetta er skinnhandrit skrifað með hebresku letri sem er frá því fyrir daga Masoreta. Fræðimenn telja það ritað á árabilinu 125 til 100 f.Kr. Þessi niðurstaða fékkst með því að bera leturgerðina saman við aðra hebreska texta og áletranir. Aldursgreining með kolefni 14 styður þessa tímasetningu.

Athygli vekur að enginn kenningarlegur munur finnst þegar Dauðahafshandritin eru borin saman við texta Masoretanna sem voru gerðir mörgum öldum síðar. * Sá munur, sem fundist hefur, er oft fólginn í breyttri stafsetningu eða málfræði. Sömuleiðis er eftirtektarvert að fjórstafanafnið er notað út í gegnum bókina, það er að segja nafn Guðs, Jehóva, ritað með fjórum hebreskum samhljóðum.

[Neðanmáls]

^ Masoretar voru hópur Gyðinga sem vann að afritun Biblíunnar á sjöttu til tíundu öld e.Kr. Þeir voru orðlagðir fyrir nákvæmni.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 20, 21]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Grískt skrifletur

Settletur (þumlungsletur)

Frá 4. öld f.Kr. til 8. eða 9. aldar e.Kr.

Lágstafaletur

Frá 8. eða 9. öld e.Kr. til 15. aldar e.Kr.

Mikilvæg handrit

400

200

Dauðahafshandrit

Síðari hluti 2. aldar f.Kr.

f.Kr.

e.Kr.

100

John Rylands Papyrus 457

125 e.Kr.

300

Vatíkanhandrit nr. 1209

Snemma á 4. öld.

Sínaíhandritið

4. öld.

400

Alexandríuhandritið

Snemma á 5. öld.

500

700

800

[Myndir á blaðsíðu 19]

Að ofan: Konstantin von Tischendorf.

Til hægi: Bernard de Montfaucon.

[Credit line]

© Réunion des Musées Nationaux/ Art Resource, NY

[Mynd credit line á blaðsíðu 20

Dauðahafshandrit: Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem

[Mynd credit line á blaðsíðu 21]

Ljósrituð eftirprentun Vatíkanhandrits nr. 1209: Úr bókinni Bibliorum Sacrorum Graecus Codex Vaticanus, 1868; Endurgerð Sínaíhandritsins: 1. Tímóteusarbréf 3:16 eins og það er í Codex Sinaiticus frá 4. öld; Alexandríuhandritið: Úr The Codex Alexandrinus in Reduced Photographic Facsimile, 1909, með leyfi British Library