Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haf sem ber nafn með rentu

Haf sem ber nafn með rentu

Haf sem ber nafn með rentu

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÍSRAEL

ÞAÐ er brimsalt, steindautt og liggur lægst allra vatna á jörðinni. Að mati sumra er það líka heilnæmasta stöðuvatn jarðar. Í aldanna rás hefur það gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem Daunillahaf, Djöfulshaf og Jarðbikshaf. Í Biblíunni er það kallað Saltisjór og Arabavatn. (1. Mósebók 14:3; Jósúabók 3:16, Biblían 2007) Sagnir herma að rústir Sódómu og Gómorru liggi á botni vatnsins og margir fræðimenn telja það vera rétt. Vatnið er því einnig þekkt sem Sódómuhaf og Lotshaf en maðurinn Lot kom við sögu í miklum atburðum sem tengdist borgunum tveim og sagt er frá í Biblíunni. — 2. Pétursbréf 2:6, 7.

Sum þessara nafna eru ekki beinlínis til þess fallin að vekja þá hugmynd að þetta sé notalegur staður heim að sækja. Engu að síður koma þúsundir manna ár hvert til að sjá þetta óvenjulega stöðuvatn sem er að jafnaði kallað Dauðahaf eða Saltisjór. Af hverju er það svona salt? Er það algerlega líflaust en engu að síður heilnæmt?

Lægst og saltast

Dauðahafið er norðan til í Sigdalnum mikla, misgengi sem teygir sig allt suður til Austur-Afríku. Áin Jórdan hlykkjast úr norðri og fellur í Dauðahafið sem er lægsti staður á yfirborði jarðar, um 418 metrar undir sjávarmáli. Gjáin, sem Dauðahafið liggur í, afmarkast af hæðum Júdeu til vesturs og Móabsfjöllum í Jórdaníu til austurs.

En hvers vegna er Dauðahafið brimsalt? Ýmis sölt, einkum magnesíum-, natríum- og kalsíumklóríð, berast í það með vatni Jórdanar og öðrum smærri ám, lækjum og uppsprettum. Talið er að Jórdan ein beri með sér hvorki meira né minna en 850.000 tonn af salti á hverju ári. Þar sem Dauðahafið liggur svona lágt er ekkert afrennsli af því en uppgufun er hins vegar mikil. Á heitum sumardegi gufa upp heilar sjö milljónir tonna af vatni sem skýrir hvers vegna Dauðahafið stækkar ekki. En þegar vatnið gufar upp verða söltin og steinefnin eftir. Dauðahafið er því saltasta vatn jarðar. Seltan er um 30 prósent sem er nokkrum sinnum meiri selta en í úthöfunum.

Sérkenni Dauðahafsins hafa frá fornu fari vakið forvitni manna og áhuga. Gríski heimspekingurinn Aristóteles frétti að það væri „svo beiskt og salt að enginn fiskur lifði þar“. Mikill flotkraftur er í vatninu sökum þess hve salt það er. Menn fljóta þar fyrirhafnarlaust og þarf ekki sundkunnáttu til. Gyðingurinn og sagnaritarinn Flavíus Jósefus segir frá því að rómverski hershöfðinginn Vespasíanus hafi látið reyna á þetta með því að kasta föngum sínum í Dauðahafið.

En nú er þér eflaust spurn hvernig þetta mikla stöðuvatn geti bæði verið steindautt og heilnæmt.

Heilnæmast vatna?

Á miðöldum sögðu ferðalangar sögur af stöðuvatni þar sem ekkert líf þrifist, hvort fuglar, fiskar né gróður. Menn töldu jafnvel að illa þefjandi gufur úr vatninu væru banvænar. Það var auðvitað kveikjan að hugmyndinni um daunillt og dautt stöðuvatn. Vissulega er það rétt að vatnið er svo salt að þar þrífast aðeins einfaldar lífverur eins og einstaka harðgerar bakteríur. En ef fiskar eru svo óheppnir að berast þangað með ám eða lækjum eru þeir dauðans matur.

Þó að Dauðahafið geti ekki haldið uppi lífi er aðra sögu að segja af svæðinu umhverfis. Það er að vísu hrjóstrugt að mestu leyti en þó má finna þar blómlega bletti með fossum og hitabeltisjurtum sem eru eins og vinjar í eyðimörk. Á þessu svæði er einnig blómlegt dýralíf. Þar eru 24 tegundir spendýra, þar á meðal sandköttur, arabíuúlfur og núbíu-steingeit sem oft sést þar. Ferskvatn á svæðinu skapar góð skilyrði fyrir margar tegundir froskdýra, skriðdýra og fiska. Fjöldi farfugla á leið um Dauðahaf. Þarna hafa sést meira en 90 fuglategundir, þar á meðal kolstorkur og hvítstorkur. Eins bregður fyrir gæsagammi og skarngammi.

En hvernig getur Dauðahafið verið heilnæmast vatna? Sagt er að fólk til forna hafi drukkið vatnið í þeirri trú að það byggi yfir lækningamætti en það er auðvitað ekki mælt með að fólk geri það núna. Hins vegar má leiða rök að því að það geti verið hollt að baða sig í brimsöltu vatninu. Svæðið í heild er talið heilsusamlegt á marga vegu. Þar sem vatnið stendur langt undir sjávarmáli er loftið súrefnisauðugt af náttúrunnar hendi. Í loftinu er mikið af brómsamböndum sem eru sögð hafa slakandi áhrif, og við strendur vatnsins eru bæði heitir brennisteinshverir og svartur, steinefnaríkur leir sem hvort tveggja er notað við ýmsum húðsjúkdómum og við liðagigt. Og balsamtréð, sem óx einu sinni á svæðinu, hefur alltaf verið mikils metið og balsamkvoða notuð bæði í snyrtivörur og til lækninga.

Jarðbik úr sjónum

Eitt af furðulegustu fyrirbærum Dauðahafsins er jarðbik sem flýtur þar stundum í klumpum. Tímaritið The Biblical World skýrði frá því árið 1905 að jarðbiksklumpi, sem vó um 2,7 tonn, hafi skolað á land árið 1834. Jarðbik er sagt vera „fyrsta jarðolíuafurð sem mannkynið lærði að nota“. (Saudi Aramco World, nóvember-desember 1984) Sumir töldu að þessir klumpar brotnuðu upp úr botni Dauðahafsins við jarðskjálfta og flytu síðan upp á yfirborðið. Líklegra er þó að jarðbikið seytli upp gegnum stöpullaga innskot eða sprungur og berist upp á sjávarbotninn ásamt saltsteini. Saltið leysist síðan upp og jarðbikið flýtur upp á yfirborðið.

Jarðbik hefur verið notað með ýmsum hætti í aldanna rás, til dæmis til að þétta báta, við húsbyggingar og jafnvel sem skordýrafæla. Talið er að um miðbik fjórðu aldar f.Kr. hafi Egyptar farið að nota jarðbik í stórum stíl til að verja lík gegn rotnun. Sumir sérfræðingar draga það þó í efa. Það var um þetta leyti sem Nabatear einokuðu viðskipti með jarðbik á þessu svæði, en þeir voru hirðingjar sem settust að í grennd við Dauðahaf. Þeir söfnuðu jarðbikinu, hjuggu það í smærri bita og fluttu síðan til Egyptalands.

Það má sannarlega viðhafa stór orð um Dauðahafið. Það eru engar ýkjur að segja að það sé saltasta stöðuvatn á jörðu, það sé lægsti punktur jarðar, það sé steindautt en kannski líka heilnæmasta vatn á jarðríki. Að minnsta kosti er óhætt að segja að það sé eitt áhugaverðasta stöðuvatn jarðar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 25]

VARÐVEITT Í SALTPÆKLI

Sagnfræðingar segja að einu sinni hafi legið fjölfarin verslunarleið um Dauðahaf, og nýlega fundust þar tvö tréakkeri sem skjóta stoðum undir það.

Akkerin fundust á strönd Dauðahafs þegar sjávarborðið lækkaði í námunda við höfn Engedí-borgar sem stóð þar forðum daga. Annað akkerið er talið vera um 2500 ára gamalt og er þar með elsta akkeri sem fundist hefur á svæðinu. Hitt er talið vera um 2000 ára og álitið er að notuð hafi verið nýjasta tækni Rómverja við smíði þess.

Akkeri úr tré fúna yfirleitt í sjó en akkeri úr málmi varðveitast. En sökum þess að Dauðahafið er súrefnissnautt og seltan mikil hefur bæði tréð og reipi, sem fest voru við, varðveist ótrúlega vel.

[Mynd]

Akkeri úr tré frá sjöundu til fimmtu öld f.Kr.

[Credit line]

Ljósmynd © Israel Museum, með góðfúslegu leyfi Israel Antiquities Authority

[Mynd á blaðsíðu 24]

Foss úr heitri lind.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Núbíu-steingeit (hafur)

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hægt er að liggja í sjónum og lesa dagblað.