Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Sex ára börn í Bretlandi hafa að meðaltali eytt heilu ári fyrir framan sjónvarpið og meira en helmingur þriggja ára barna er með sjónvarp inni í herberginu sínu.“ — THE INDEPENDENT, BRETLANDI.

Í skoðanakönnun sem gerð var í Kína sögðust 31,4 prósent aðspurðra, 16 ára og eldri, vera trúaðir. Ef þetta er þverskurður af allri þjóðinni gefur það til kynna að „um 300 milljónir séu trúaðar . . . ólíkt opinberu tölunni sem er 100 milljónir“. — CHINA DAILY, KÍNA.

Meiri skaði en gagn

Fyrir fáeinum árum héldu hollenskir stjórnmálamenn og umhverfissinnar að þeir hefðu fundið góðan endurnýjanlegan orkugjafa. Þeir notuðu lífrænt eldsneyti, það er að segja pálmaolíu, til að knýja rafala. En þetta breyttist í „algera martröð“, segir í The New York Times. „Aukin eftirspurn eftir pálmaolíu í Evrópu leiddi til þess að ruddir voru regnskógar á mjög stóru svæði í Suðaustur-Asíu og tilbúinn áburður var ofnotaður.“ Búin voru til ræktarlönd með því að þurrka og brenna mójarðveg en það stuðlaði að „gríðarlegri“ losun kolefnissambanda í andrúmsloftið. Tímaritið Times segir að kjölfarið hafi Indónesía skyndilega orðið ábyrg fyrir „þriðju mestu losun kolefnis í heiminum en vísindamenn telja að það stuðli að hlýnun jarðar.“

„Dómsdagsklukkan“ færð fram

Dómsdagsklukkan var útbúin af fræðimönnum tímaritsins Bulletin of Atomic Scientists (BAS). Hún átti að gefa til kynna hversu nærri heimurinn stæði kjarnorkustyrjöld. Klukkan hefur nú verið færð fram um tvær mínútur og vantar fimm mínútur í miðnætti — „táknrænan endi mannfélagsins“. Klukkan hefur aðeins verið endurstillt 18 sinnum á þeim 60 árum sem hún hefur verið til. Síðasta breytingin var í febrúar árið 2002 eftir árásina á World Trade Center í New York. Þar sem kjarnavopn eru enn til og stöðugt í þróun og ekki hefur tekist að gera kjarnorku örugga „þýðir það að okkur hefur mistekist að leysa þau vandamál sem stafa af skaðlegustu tækni jarðarinnar,“ sagði í yfirlýsingu frá BAS. Í framhaldinu var sagt að „hættan samfara loftslagsbreytingum sé næstum jafn alvarleg og hættan sem stafar af kjarnavopnum“.

Streita á meðgöngu

Streita, sem barnshafandi kona finnur fyrir vegna deilna við maka sinn eða ofbeldis að hans hálfu, getur haft mjög slæm áhrif á andlegan þroska fóstursins, samkvæmt nýlegri könnun. Vivette Glover, sem er prófessor við Imperial College í London, segir: „Við komumst að raun um að ef maki konunnar beitti [hana] andlegu ofbeldi þegar [hún] var barnshafandi hafði það veruleg áhrif á þroska barnsins. Faðirinn gegnir því stóru hlutverki.“ Samband foreldranna hefur áhrif á „efna- og hormónajafnvægi í líkama móðurinnar og það hefur síðan áhrif á það hvernig heili barnsins þroskast“, útskýrir hún.

Ökumenn með sjálfstýringuna á

Þeir sem keyra sömu leið í vinnu á hverjum degi gera það oft án þess að nota þann hluta heilans þar sem meðvituð hugsun á sér stað. Þetta segir umferðarfræðingurinn Michael Schreckenberg við Háskólann í Duisburg-Essen í Þýskalandi. Þegar ökumenn keyra kunnuglegar leiðir verður hugurinn upptekinn af öðru en að einbeita sér að umferðinni. Þetta hefur þau áhrif að ökumenn eru lengur að koma auga á hættur. Michael Schreckenberg hvetur þá sem keyra í vinnu á hverjum degi til að minna sig stöðugt á að vera vakandi fyrir hættum og einbeita sér að akstrinum.