Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvenær er sjálfsvörn réttlætanleg?

Hvenær er sjálfsvörn réttlætanleg?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvenær er sjálfsvörn réttlætanleg?

SKYNDILEGUR hávaði vekur þig um miðja nótt. Þú heyrir fótatak. Einhver hefur brotist inn til þín. Hjartað tekur að hamast og þú hugsar skelfingu lostinn hvað þú eigir til bragðs að taka.

Hver sem er gæti lent í þessum aðstæðum. Glæpir — jafnvel ofbeldisglæpir — takmarkast ekki lengur við nein ákveðin lönd eða stórborgir. Þar af leiðandi óttast margir um líf sitt og hafa lært sjálfsvarnarlist eða keypt sér vopn til að geta varið sig. Sum stjórnvöld hafa sett lög sem gefa þegnum sínum leyfi til að verja sig, jafnvel þótt það kosti árásarmanninn lífið. En hvað segir Biblían? Er einhvern tíma réttlætanlegt að beita ofbeldi til að verja sig eða fjölskyldu sína?

Guð hatar ofbeldi

Biblían fordæmir ofbeldi og þá sem grípa til þess. Sálmaritarinn Davíð sagði um Jehóva Guð: „Hann hatar þann sem elskar ofríki,“ það er að segja ofbeldi. (Sálmur 11:5) Guð felldi dóm yfir nokkrum fornþjóðum, þar á meðal sinni eigin þjóð, vegna ofbeldisverka þeirra og blóðsúthellinga. (Jóel 3:19; Míka 6:12; Nahúm 3:1) Jafnvel manndráp af gáleysi og vanrækslu var alvarlegur glæpur samkvæmt Móselögunum. — 5. Mósebók 22:8.

Biblían hvetur einstaklinga til að koma í veg fyrir árekstra með því að ástunda frið öllum stundum. Oft brjótast út slagsmál vegna rifrildis. Biblían segir: „Þegar eldsneytið þrýtur slokknar eldurinn og þegar enginn er rógberinn stöðvast deilurnar.“ (Orðskviðirnir 26:20) Með því að halda ró sinni er oft hægt að sefa reiði og koma í veg fyrir að ráðist sé á mann. Páll postuli skrifaði: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ — Rómverjabréfið 12:18.

Þegar þér er ógnað

Að ástunda frið er engin trygging fyrir því að þú verðir aldrei fyrir líkamsárás. Trúfastir þjónar Guðs í gegnum tíðina hafa mátt sæta ofbeldi. (1. Mósebók 4:8; Jobsbók 1:14, 15, 17) Segjum sem svo að manneskju sé ógnað af vopnuðum þjófi. Hvað ætti hún þá að gera? Jesús sagði að við ættum ekki að veita slíkum manni mótspyrnu. (Matteus 5:39) Hann sagði líka: „Taki einhver yfirhöfn þína skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.“ (Lúkas 6:29) Jesús samþykkti ekki notkun vopna til að verja efnislegar eigur. Skynsöm manneskja reynir ekki að streitast á móti þegar vopnaður þjófur krefst þess að hún láti verðmæti sín af hendi. Lífið er svo miklu dýrmætara en efnislegar eigur.

En hvað á að gera ef árásarmaður ógnar lífi manns? Ákvæði, sem Guð gaf Ísraelsmönnum til forna, varpar ljósi á það. Ef þjófur var staðinn að verki að degi til og drepinn var banamaður hans ákærður fyrir morð. Ástæðan var augljóslega sú að þjófnaður varðaði ekki dauðarefsingu og mögulegt var að bera kennsl á þjófinn og láta hann svara til saka. Aftur á móti ef þjófur var drepinn að nóttu til mátti hreinsa húsráðandann af sök þar sem hann gat átt erfitt með að sjá hvað innbrotsþjófurinn var að gera og hvað honum gekk til. Húsráðandinn gat dregið þá ályktun að fjölskylda hans væri í hættu og snúist til varnar. — 2. Mósebók 22:2, 3.

Við sjáum af þessu að samkvæmt Biblíunni er leyfilegt að verja sig eða fjölskyldu sína fyrir líkamsárás. Maður gæti varist höggum, haldið árásarmanninum í skefjum eða jafnvel slegið til hans til að rugla hann í ríminu eða til að koma í veg fyrir að hann geti haldið áfram. Markmiðið væri að stöðva árásina. Ef árásarmaðurinn hlýtur alvarlega áverka eða er drepinn við slíkar aðstæður væri dauði hans talinn óviljandi en ekki af ásettu ráði.

Besta vörnin

Það geta greinilega komið upp aðstæður þar sem sjálfsvörn innan skynsamlegra marka er réttlætanleg. Fólk hefur rétt til að verja sig og ástvini sína fyrir hættulegum árásum. Ekkert í Biblíunni mælir gegn skynsamlegri sjálfvörn þegar engrar undankomu er auðið. Engu að síður er viturlegt að reyna eftir fremsta megni að forðast aðstæður sem gætu leitt til ofbeldis. — Orðskviðirnir 16:32.

Í Biblíunni erum við hvött til að ‚ástunda frið og keppa eftir honum‘ á öllum sviðum lífsins. (1. Pétursbréf 3:11) Þetta er hagnýtt ráð sem stuðlar sannarlega að friði.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hvers vegna ættum við ekki að beita ofbeldi? — Sálmur 11:5.

◼ Hvað er viturlegt að gera þegar við verjum efnislegar eigur okkar? — Orðskviðirnir 16:32; Lúkas 12:15.

◼ Hvaða viðhorf getur forðað okkur frá hættu? — Rómverjabréfið 12:18.

[Innskot á blaðsíðu 11]

Af Biblíunni má sjá að það er leyfilegt að verja sig eða fjölskyldu sína fyrir líkamsárás.