Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bragðað á taílenskum mat

Bragðað á taílenskum mat

Bragðað á taílenskum mat

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í MALASÍU

ÞÚ ERT á gangi í mannþrönginni á götum Bangkok í Taílandi þegar þú finnur skyndilega ómótstæðilegan matarilm. Undir berum himni eru kokkar að útbúa hefðbundna taílenska rétti. Þegar þú hefur fundið lokkandi ilminn og séð litríkan og safaríkan matinn finnst þér örugglega freistandi að bragða á honum.

Töfrar taílenskrar matargerðar liggja í blöndu af sérvöldum jurtum, rótum, laufum og fræjum. Úr verður sambland af sætu, súru, söltu, beisku og sterku bragði og ilmurinn verður slíkur að erfitt getur reynst að ganga fram hjá án þess að bragða á matnum. En hvernig hófst taílensk matargerð? Hvaðan kemur þessi óvenjulega blanda? Svarið er að finna í fjarlægri fortíð.

Alþjóðleg blanda

Taíland er í alfaraleið í Asíu. Í aldaraðir ferðuðust Kínverjar, Laosar, Kambódíumenn, Indónesar, Evrópubúar og aðrir í gegnum Taíland og margir þeirra settust þar að. Þetta fólk flutti með sér matargerð frá sínu heimalandi. Bragðið og ilmurinn af öllum þessum mismunandi mat varð eftir í Taílandi.

Einhvern tíma í fortíðinni sýndu indverskir ferðamenn Taílendingum hvernig nota mætti karrí við matargerð. Á 16. öld komu Portúgalar með rauðan eldpipar til landsins og ef til vill líka tómata. Taílenskur matur er mjög fjölbreyttur en í flestum réttum má finna úrval af gulum, grænum eða rauðum eldpipar ásamt karrímauki með sama lit. Þessi blanda af karrí og eldpipar gefur taílenskri matargerð þetta sterka bragð sem einkennir austurlenskan mat.

Margir réttir, margslungið bragð

Hefðbundinn taílenskur matur samanstendur af mismunandi réttum eins og súpu, salati, snöggsteiktum mat, karríréttum og sósum til að dýfa í. Nýsoðin hvít hrísgrjón eru alltaf borin fram með matnum. Síðan eru það ábætisréttirnir sem eru oft sætindi búin til úr sykri og eggjum. Kókosaldin og kókosmjólk eru líka notuð í sæta rétti.

Lykillinn að góðum mat alls staðar í heiminum er ferskt hráefni. Og í Taílandi er oftast nóg framboð af því. Í borgum og bæjum eru markaðir þar sem fást ferskir ávextir, grænmeti, fiskur og krydd eins og sítrónugras, kóríander, hvítlaukur, engifer, galangal, kardimomma, tamarind og broddkúmen. Á mörkuðunum er líka hægt að fá fullt af súraldinum og sterkum eldpipar sem eru mikið notuð í taílenskri matargerð.

Ertu á leiðinni til Taílands eða langar þig til að smakka taílenskan mat heima hjá þér? Þá ættirðu að prófa tom yam goong, rækjusúpu sem er sterk og súr á bragðið. Þú gætir líka gætt þér á krydduðu papayasalati, glærum núðlum með steiktum kjúklingi, önd, svínakjöti eða kryddlegnum fiski. Ma ho, sem þýðir „hestar á stökki“, er blanda af svínakjöti, djúphafsrækjum og jarðhnetum, sett ofan á ferskan ananas og skreytt með rauðum eldpipar og kóríanderlaufum. Prófaðu síðan klístruð hrísgrjón með kókosmjólk og mangó í eftirrétt.

Hvernig er best að borða taílenskan mat? Sum staðar í Taílandi er hefð fyrir því að nota fingurna til að þrýsta klístruðu hrísgrjónunum saman í litlar kúlur, dýfa þeim í sósur og stinga þeim síðan upp í sig. Prjónar eru oft notaðir til að borða núðlurétti. En ef prjónarnir þvælast fyrir þér er líka bara hægt að nota gaffal og skeið.

Ertu kominn með vatn í munninn? Kannski vekur maturinn frá þessu fallega landi í Asíu áhuga þinn á austurlenskri matargerð.

[Myndir á blaðsíðu 25]

1 Tom yam goong-súpa

2 Salat með glærum núðlum, svínahakki og rækjum.

3 Kryddað papayasalat

4 Ma ho

5 Klístruð hrísgrjón með kókosmjólk og mangó.