Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er jörðin í hættu?

Er jörðin í hættu?

Er jörðin í hættu?

HLÝNUN JARÐAR hefur verið kölluð mesta ógn sem steðjar að mannkyni. Í tímaritinu Science kemur fram að vísindamenn óttist að „við höfum ýtt af stað hægfara breytingum sem ógerlegt sé að stöðva“. Efasemdamenn véfengja það. Margir þeirra fallast að vísu á að loftslag fari hlýnandi en segja óvíst hvað valdi því og hvaða afleiðingar það eigi eftir að hafa. Vissulega geti mennirnir átt einhvern þátt í hlýnun jarðar, segja þeir, en óvíst sé að þeir séu aðalorsökin. Af hverju eru menn ekki á eitt sáttir um þetta?

Ein ástæðan er sú að þau ferli náttúrunnar, sem stýra loftslagi jarðar, eru býsna flókin og menn skilja þau ekki til fulls. Þar við bætist að hagsmunahópar hafa tilhneigingu til að túlka vísindagögn sér í hag, til dæmis þau gögn sem eru notuð til að sýna hvers vegna loftslag fari hlýnandi.

Fer loftslag hlýnandi í raun og veru?

Samkvæmt nýlegri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er hlýnun jarðar „óumdeilanleg“ staðreynd og „mjög líklega“ að miklu leyti af mannavöldum. Sumir eru ósammála þessari niðurstöðu, einkum að hlýnunin sé af mannavöldum. Þeir fallast að vísu á að loftslag í borgum fari hugsanlega hlýnandi vegna þess að borgirnar stækki. Þeir benda á að stál og steinsteypa drekki hratt í sig varma sólarinnar en kólni hægt að nóttu. Hitastigsmælingar í borgum endurspegli því ekki þróunina til sveita, segja þeir, og geti þar af leiðandi gefið skakka mynd af hitatölum á hnattræna vísu.

Clifford býr á eyju út af strönd Alaska og er þorpsöldungur þar. Hann segist hafa séð breytingarnar með eigin augum. Þorpsbúar fara á lagnaðarís til meginlandsins til að veiða elg og hreindýr. Hækkandi hitastig gerir þeim hins vegar næstum ókleift að halda uppi hefðbundnum lífsháttum. „Sjávarstraumar hafa breyst, ástand íssins hefur breyst og Tsjúkothaf leggur ekki . . . eins og áður,“ segir Clifford. Venjulega lagði sjóinn í október, segir hann, en nú gerist það ekki fyrr en seint í desember.

Árið 2007 opnaðist norðvesturleiðin að fullu í fyrsta sinn á sögulegum tíma, og það er einnig til vitnis um að loftslag hafi hlýnað. „Það sem við höfum séð í ár kemur heim og saman við þá heildarmynd að þiðnun nái yfir lengri tíma ársins en áður.“ Þetta segir hátt settur vísindamaður við Snjó- og jöklamælingamiðstöð Bandaríkjanna (National Snow and Ice Data Center).

Gróðurhúsaáhrifin eru forsenda lífs

Ein orsök þessara breytinga er sögð vera sú að gróðurhúsaáhrifin hafi færst í aukana. Gróðurhúsaáhrifin eru náttúrufyrirbæri sem er ein af forsendum þess að líf fái þrifist á jörðinni. Andrúmloft, jarðvegur og sjór drekka í sig um 70 prósent af þeirri sólarorku sem nær til jarðar. Ef það gerðist ekki myndi að meðaltali vera um 18 stiga frost við yfirborð jarðar. Jörðin ofhitnar samt ekki því að hún skilar varmanum aftur út í geiminn sem innrauðri geislun. Þegar mengunarefni breyta samsetningu andrúmsloftsins sleppur minni varmi út í geiminn með þeim afleiðingum að jörðin hlýnar.

Lofttegundir eins og koldíoxíð, köfnunarefnisoxíð, metan og vatnsgufa stuðla að gróðurhúsaáhrifum. Gróðurhúsalofttegundirnar í andrúmsloftinu hafa aukist töluvert síðastliðin 250 ár, eða frá því að iðnbyltingin hófst og farið var að nota jarðefnaeldsneyti, svo sem kol og olíu, í auknum mæli. Fjölgun búpenings virðist sömuleiðis hafa aukið á gróðurhúsaáhrifin en meltingarstarfsemi dýranna myndar bæði metan og köfnunarefnisoxíð. Sumir vísindamenn benda á aðrar orsakir hlýnandi loftslags sem þeir segja hafa átt sér stað áður en menn gátu farið að hafa áhrif á loftslag.

Eðlilegar sveiflur?

Þeir sem efast um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum benda á að hitastig jarðar hafi áður sveiflast mjög mikið. Þeir benda á svonefndar ísaldir þegar loftslag á jörðinni á að hafa verið mun kaldara en núna, og sem dæmi um eðlilega hlýnun benda þeir á að á köldum svæðum eins og Grænlandi hafi einu sinni vaxið jurtir sem vaxa að jafnaði í mun hlýrra loftslagi. En vissulega viðurkenna vísindamenn að því lengra sem farið sé aftur í tímann því minna sé vitað með vissu um loftslag á jörðinni.

Hvað gæti hugsanlega hafa valdið verulegum loftslagsbreytingum áður en áhrifa mannanna fór að gæta? Sólblettir og sólblossar gætu hafa haft þar áhrif því að þeim fylgja sveiflur í útgeislun sólar. Og sporbaugur jarðar breytist reglubundið á mörg þúsund ára tímabili með tilheyrandi breytingu á fjarlægð hennar frá sól. Eldfjallaaska og breytingar á hafstraumum hafa einnig sín áhrif.

Loftslagslíkön

Ef jörðin fer hlýnandi — af hverju sem það nú stafar — hvaða áhrif ætli það hafi á okkur og umhverfið? Erfitt er að spá um það með nákvæmni. Vísindamenn geta notað öflugar tölvur og reiknilíkön til að herma eftir loftslagkerfi jarðar. Reiknilíkönin taka mið af eðlisfræðilögmálum, veðurfarsupplýsingum og náttúrufyrirbærum sem hafa áhrif á loftslag.

Með reiknilíkön að vopni geta vísindamenn gert tilraunir með loftslagsbreytingar sem ekki væri hægt að gera á annan hátt. Þeir geta til dæmis „breytt“ útgeislun sólar til að kanna hvaða áhrif það hafi á heimskautaís, loft- og sjávarhita, uppgufun, loftþrýsting, skýjamyndun, vinda og úrkomu. Þeir geta „búið til“ eldgos og kannað áhrif ösku á veðurfar. Og þeir geta rannsakað áhrifin af mannfjölgun, eyðingu skóga og landnýtingu. Þeir geta „breytt“ losun gróðurhúsalofttegunda og svo mætti lengi telja. Vonir standa til að reiknilíkönin verði nákvæmari og áreiðanlegri með tímanum.

Hve nákvæm eru reiknilíkönin? Það ræðst auðvitað að miklu leyti af því hve nákvæm og ítarleg gögn líkönin styðjast við. Útkoman getur verið allt frá minni háttar breytingum upp í hrikalegustu hamfarir. En „loftslagskerfi jarðar getur líka komið okkur á óvart,“ að sögn tímaritsins Science. Og sumt hefur nú þegar komið loftslagssérfræðingum í opna skjöldu, til dæmis það hve hratt heimskautaísinn hefur bráðnað. En jafnvel þó að ráðamenn hafi ekki nema óljósa hugmynd um afleiðingar þess sem gert er núna eða látið ógert ætti það að nægja þeim til að taka ákvarðanir sem gætu dregið úr vandamálum framtíðarinnar.

Með þann möguleika í huga rannsakaði milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sex mögulegar útkomur miðað við breytilegar forsendur — allt frá óheftri losun gróðurhúsalofttegunda til verulegra takmarkana á losun. Einnig var kannað hvaða áhrif það hefði á loftslag ef haldið væri í horfinu eins og nú er. Og framreiknuð áhrif á loftslag og umhverfi voru breytileg eftir því. Í ljósi útkomunnar hvetja sérfræðingar til þess að gripið sé til ýmissa aðgerða. Þar má nefna að losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis verði takmörkuð með valdboði, brotlegum aðilum verði refsað, kjarnorka verði notuð í auknum mæli til raforkuframleiðslu og tekin verði í notkun vistvænni tækni.

Eru reiknilíkönin áreiðanleg?

Gagnrýnendur segja að núverandi aðferðir til að spá fyrir um loftslagsbreytingar „einfaldi um of loftslagsferli sem menn hafi hvort eð er takmarkaðan skilning á“ og „gefi alls engan gaum að öðrum“. Jafnframt benda þeir á að reiknilíkönum beri ekki saman. Vísindamaður, sem tók þátt í umræðum milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar, sagði: „Sum okkar finna svo til vanmáttar síns til að mæla og skilja hið gríðarlega flókna loftslagskerfi að við efumst um eigin færni til að vita hvað það gerir og hvers vegna.“ *

Sumir segja auðvitað að mannkynið taki býsna mikla áhættu með því að gera ekki neitt í skjóli þess að við vitum ekki nógu mikið. „Hvernig eigum við að útskýra það fyrir börnum okkar?“ spyrja þeir. Hvort sem loftslagslíkönin eru áreiðanleg eða ekki leikur enginn vafi á því að mikill vandi steðjar að jörðinni. Lífríkinu stafar hætta af mengun, eyðingu skóga, vaxandi borgum og útrýmingu tegunda, svo nefnd séu nokkur dæmi sem enginn getur mótmælt.

Getum við, í ljósi þess sem við vitum, reiknað með að mannkynið í heild snúi algerlega við blaðinu til að bjarga hinu fagra heimili okkar, jörðinni — og sjálfum okkur í leiðinni? Ef hlýnun jarðar er af mannavöldum er ekki mikill tími til stefnu til að gera nauðsynlegar breytingar. Hann telst kannski í árum frekar en öldum. Hvað sem öðru líður þarf að ráðast að rótum vandans til að gera nauðsynlegar breytingar — og undirrót vandans er græðgi mannanna, eigingirni, fáfræði og sinnuleysi, auk vanmáttugra stjórnvalda. Er líklegt að mannkynið breyti um stefnu eða er það aðeins óskhyggja? Og ef hið síðarnefnda verður uppi á teningnum, er þá öll von úti? Við lítum nánar á málið í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ The Wall Street Journal, 1. nóvember 2007. Haft eftir John R. Christy sem er forstöðumaður jarðkerfisfræðistofnunar (Earth System Science Center) Alabamaháskóla í Huntsville í Bandaríkjunum.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 5]

HVERNIG ER HÆGT AÐ MÆLA HITASTIG JARÐAR?

Til að lýsa því hve flókið það er skulum við taka dæmi. Hvernig á að mæla hitastigið í stóru herbergi? Hvar á hitamælirinn að vera? Heitt loft stígur upp þannig að líklega er heitara uppi undir lofti en niðri við gólf. Niðurstaðan getur líka verið breytileg eftir því hvort hitamælirinn er nálægt glugga og hvort hann er í skugga eða baðaður sólskini. Litir geta einnig haft áhrif á mælinguna því að dökkir fletir drekka í sig meiri varma en ljósir.

Ein mæling nægir því líklega ekki. Nauðsynlegt væri að mæla hitann á nokkrum stöðum og reikna síðan út meðaltal. Og mæliniðurstöðurnar geta verið breytilegar frá degi til dags og eftir árstíðum. Til að fá rétt meðaltal þarf því að gera margar mælingar á löngum tíma. Við getum rétt ímyndað okkur hve flókið það er að mæla meðalhitastig yfirborðs jarðar, andrúmslofts og sjávar. Engu að síður eru slíkar tölur nauðsynlegar til að hægt sé að leggja nákvæmt mat á loftslagsbreytingar.

[Credit line]

Mynd frá NASA

[Rammi á blaðsíðu 6]

ER KJARNORKA LAUSNIN?

Orkunotkun jarðarbúa stigmagnast. Þar eð gróðurhúsalofttegundir myndast þegar brennt er olíu og kolum eru sumar ríkisstjórnir að skoða þann möguleika að reisa kjarnorkuver til að framleiða hreinni orku. En notkun kjarnorku hefur einnig sína annmarka.

Frakkar eru ein þeirra þjóða sem nota kjarnorku hvað mest til raforkuframleiðslu. Í dagblaðinu International Herald Tribune segir frá því að þeir noti allt að 19 milljónir rúmmetra af vatni á ári til að kæla kjarnakljúfana. Árið 2003 gekk hitabylgja yfir Frakkland. Óttast var að vatnshiti í ám myndi hækka svo af völdum kælivatnsins að lífríki þeirra væri í hættu. Brugðið var á það ráð að slökkva á sumum orkuverunum. Búist er við að ástandið versni ef loftslag í heiminum fer hlýnandi.

„Við þurfum að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar ef við ætlum okkur að nýta kjarnorkuna,“ segir David Lochbaum en hann er kjarnorkuverkfræðingur og tilheyrir samtökum bandarískra vísindamanna sem nefnast Union of Concerned Scientists.

[Rammi/Kort á blaðsíðu 7]

HAMFARIR AF VÖLDUM VEÐURS ÁRIÐ 2007

Árið 2007 gaf mannúðarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna út fleiri hjálparbeiðnir en nokkru sinni fyrr vegna hamfara af völdum veðurs. Alls voru beiðnirnar 14 eða 4 fleiri en árið 2005 sem einnig var metár. Hér fylgir listi yfir nokkrar af þeim hamförum sem urðu árið 2007. Rétt er að hafa í huga að einstakir atburðir lýsa ekki endilega framvindu til langs tíma litið.

Bretland: Yfir 350.000 manns urðu fyrir barðinu á verstu flóðum í meira en 60 ár. Á Englandi og Wales mældist úrkoma á tímabilinu maí til júlí sú mesta frá því að mælingar hófust árið 1766.

Vestur-Afríka: Um 800.000 manns í 14 löndum urðu illa úti vegna flóða.

Lesótó: Hitabylgja og þurrkar eyðilögðu uppskeru. Um 553.000 manns geta þurft á matvælaaðstoð að halda.

Súdan: Um 150.000 manns urðu heimilislaus eftir ofsarigningar. Að minnsta kosti 500.000 fengu neyðaraðstoð.

◼ Madagaskar: Fellibyljir og úrhelli gengu yfir eyna með þeim afleiðingum að 33.000 manns urðu að yfirgefa heimili sín og uppskera 260.000 manns eyðilagðist.

Norður-Kórea: Talið er að 960.000 manns hafi orðið illa úti vegna mikilla flóða og skriðufalla.

Bangladess: 8,5 milljónir manna urðu fyrir búsifjum af völdum flóða, meira en 3.000 fórust og 1,25 milljónir húsdýra drápust. Næstum 1,5 milljónir heimila skemmdust eða eyðilögðust.

Indland: 30 milljónir manna urðu illa úti af völdum flóða.

Pakistan: 377.000 manns urðu heimilislaus eftir rigningar af völdum fellibylja og hundruð manna fórust.

Bólivía: Meira en 350.000 manns urðu fyrir tjóni af völdum flóða og 25.000 urðu að yfirgefa heimili sín.

Mexíkó: Yfir ein milljón manna lenti í vanda vegna svæðisbundinna flóða, þar af urðu 500.000 eða fleiri heimilislaus.

Dóminíska lýðveldið: Langvarandi rigningar ollu flóðum og skriðuföllum. 65.000 manns urðu að yfirgefa heimili sín.

Bandaríkin: 500.000 urðu að flýja heimili sín vegna mikilla skógarelda í suðurhluta Kaliforníu.

[Credit line]

Byggt á NASA/Visible Earth imagery