Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er vá fyrir dyrum?

Er vá fyrir dyrum?

Er vá fyrir dyrum?

„Veu Lesa er 73 ára og býr í þorpi á Túvalú-eyjaklasanum. Hann þarf ekki að lesa skýrslur vísindamanna til að sannfærast um að sjávarborð fari hækkandi,“ að því er segir í dagblaðinu The New Zealand Herald. „Fjörurnar, sem hann þekkti í æsku, eru að hverfa. Sjávarselta hefur spillt matjurtagörðum sem brauðfæddu fjölskyldu hans. Í apríl [2007] varð hann að yfirgefa heimili sitt þegar allt fór á flot á stórstraumsflóði og brimið bar rusl og grjót á land.“

TÚVALÚ er lítill eyjaklasi þar sem hæsti punktur er ekki nema fjórir metrar yfir sjávarmáli. Fyrir þá sem byggja eyjarnar er hlýnun jarðar ekki bara fræðileg vísindi heldur „daglegur veruleiki“, að sögn The New Zealand Herald. * Þúsundir eyjarskeggja hafa flust á brott og margir til viðbótar eru að búa sig undir það.

Robert býr í Brisbane í Ástralíu. Hann má ekki vökva garðinn hjá sér nema á vissum dögum og þá ekki með slöngu heldur garðkönnu. Og hann getur ekki þvegið allan bílinn sinn nema hann fari með hann á þvottastöð þar sem vatn er endurnýtt. Annars má hann bara þvo spegla, rúður og númeraplötur. Þessar hömlur á notkun vatns hafa verið settar vegna mestu þurrka sem orðið hafa í þessum landshluta í heila öld. Og sums staðar er ástandið enn alvarlegra. Er vandi Ástrala og Túvalúmanna merki um hlýnun jarðar?

Það sem sumir óttast

Margir álíta að hlýnun jarðar sé aðallega af mannavöldum og hún geti haft hrikalegar afleiðingar fyrir umhverfi okkar og loftslag. Sjávarborð gæti til dæmis hækkað verulega ef jöklar bráðnuðu í stórum stíl og sjór þendist út vegna hlýnunar. Láglendar eyjar á borð við Túvalú gætu horfið með öllu og hið sama er að segja um stóra hluta Hollands og Flórída svo nefnd séu aðeins tvö önnur svæði. Milljónir manna gætu þurft að yfirgefa borgir eins og Shanghai og Kalkútta og sömuleiðis gæti fólk þurft að flýja stór svæði í Bangladess.

Hækkandi hitastig gæti á sama tíma gert storma, flóð og þurrka ofsafengnari en áður. Ef jöklar á Himalajafjöllum rýrnuðu verulega eða hyrfu alveg gæti það valdið skorti á ferskvatni hjá 40 prósentum jarðarbúa — en sjö vatnasvið eiga upptök sín í Himalajafjöllum. Þúsundir dýrategunda eru einnig í útrýmingarhættu, þar á meðal ísbirnir sem veiða aðallega á ís. Rannsóknir benda til þess að margir ísbirnir hafi horast og sumir svelti.

Hækkandi hitastig getur einnig leitt til þess að moskítóflugur, blóðmaurar og fleiri lífverur, svo sem sveppir, nemi ný lönd og beri með sér sjúkdóma sem ekki voru fyrir á þeim slóðum. „Hætturnar af völdum loftslagsbreytinga eru næstum eins alvarlegar og hættan sem stafar af kjarnavopnum,“ að því er segir í vefritinu Bulletin of the Atomic Scientists. „Áhrifin verða trúlega ekki eins afdrifarík til skamms tíma litið . . . en sé horft til næstu þriggja eða fjögurra áratuga gætu loftslagsbreytingar valdið óbætanlegu tjóni á þeim búsvæðum sem samfélög manna byggja tilveru sína á.“ Og til að bæta gráu ofan á svart telja sumir vísindamenn að þær breytingar sem raktar eru til hlýnunar jarðar séu enn hraðari en þeir bjuggust við.

Hvað eigum við að halda um þessar spár? Er lífið á jörðinni virkilega í alvarlegri hættu? Til eru þeir sem efast um að jörðin fari hlýnandi og segja að þessar hrakspár séu tilhæfulausar. Og margir eru á báðum áttum. Hver er sannleikurinn í málinu? Er framtíð jarðar — og okkar — stefnt í voða?

[Neðanmáls]

^ Með „hlýnun jarðar“ er átt við hækkandi meðalhita lofts og sjávar.