Horft á heiminn
Horft á heiminn
◼ „Við erum agndofa yfir því hve hratt ísinn [á norðurheimskautssvæðinu] hefur hopað á þessu ári [2007] vegna þess að bráðnunin sló ekki bara öll fyrri met heldur rauk langt fram úr þeim.“ — MARK SERREZE, SNJÓ- OG JÖKLAMÆLINGAMIÐSTÖÐ BANDARÍKJANNA.
◼ Sérfræðingaráð New Economics Foundation áætlar að „ef allir jarðarbúar eyddu jafn miklu af auðlindum jarðar og Bandaríkjamenn þyrfti 5,3 reikistjörnur á borð við jörðina til að halda þeim uppi . . . Talan er 3,1 fyrir Frakkland og Bretland, 3,0 fyrir Spán, 2,5 fyrir Þýskaland og 2,4 fyrir Japan“. — REUTERS-FRÉTTASTOFAN, BRETLANDI.
„Meira ógagn en gagn“?
„Meirihluti sjúklinga getur hugsanlega haft meira ógagn en gagn af því að fá blóð sem hefur verið geymt í blóðbanka.“ Þetta kemur fram í skýrslu frá læknadeild Duke-háskóla í Durham í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum. Rannsóknir sýna að „hjartaáföll, hjartabilun, heilablæðing og jafnvel dauði er algengari“ hjá sjúklingum sem fá blóðgjöf en sjúklingum sem er ekki gefið blóð. Ástæðan er sú að „köfnunarefnisoxíð í rauðkornunum byrjar að klofna næstum samstundis og rauðkornin yfirgefa líkamann“. Köfnunarefnisoxíðið er nauðsynlegt til að halda æðunum opnum og gera rauðkornunum kleift að flytja súrefni til vefja líkamans. „Greinilegt er að milljónum sjúklinga er gefið blóð sem hefur skerta hæfni til að flytja súrefni,“ segir í skýrslunni.
Sjónvarpsfíkn í Bútan
Áratugum saman var sjónvarp ekki leyft í smáríkinu Bútan í Himalajafjöllum. En eftir að margir af íbúunum kvörtuðu undan því að geta ekki horft á heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu árið 1998 leyfðu yfirvöld sjónvarp í landinu. Það var árið 1999. Núna geta landsmenn horft á 40 rásir og margir eru orðnir háðir amerískum kvikmyndum og indverskum sápuóperum, að því er segir í frétt frá Bútan. Fjölskyldur safnast nú saman við sjónvarpið í stað þess að sitja saman og syngja eða spjalla eins og áður var. Kona nokkur kvartar undan því að hún hafi lítinn tíma núorðið til nokkurs annars — hún megi varla vera að því að biðja. Haft er eftir henni í dagblaðinu The Peninsula sem gefið er út í Katar: „Þó að ég snúi bænahjólinu er ég alltaf með hugann við sjónvarpið.“ Í blaðinu segir enn fremur: „Mest óttast menn þó taumlausa neysluhyggju umheimsins. ‚Sjónvarp og auglýsingar geta skapað langanir sem ekki er hægt að fullnægja miðað við efnahag þjóðarinnar.‘“
Skrifstofufólk annars hugar
„Lífið á skrifstofunni virðist stundum lítið annað en endalausar símhringingar, áminningar og truflanir,“ að sögn tímaritsins New Scientist. Rannsókn á úrtaki fólks í upplýsingageiranum sýndi að það hafði aðeins þriggja mínútna vinnufrið að meðaltali áður en það varð fyrir truflun. Þar eð truflanir geta skert vinnudaginn um heila tvo klukkutíma er önnum kafið skrifstofufólk farið að nota tölvuforrit til að greina milli truflana sem er áríðandi að sinna og hinna sem mega bíða. Allir geta þó nýtt sér eftirfarandi tillögur: „Vertu heiðarlegur . . . og segðu fólki að þú hafir enga stund aflögu ef þú hefur það ekki,“ og sýndu þann kjark að „slökkva á tölvupósti, síma og spjallforritum þangað til verkinu er lokið“.