Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Áhrifamáttur auglýsinga

Áhrifamáttur auglýsinga

Áhrifamáttur auglýsinga

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í PÓLLANDI

Tomek starir eins og dáleiddur á sjónvarpsskjáinn. Hann hlustar bergnuminn á boðskap auglýsingarinnar: „Þegar sonur þinn klæðist íþróttagallanum verður hann sterkur og stæltur og vinir hans dást að honum. Kauptu hann strax!“ Tomek hleypur til pabba síns og raular grípandi laglínuna sem hann er nýbúinn að heyra. „Pabbi, viltu kaupa íþróttagallann handa mér?“ spyr hann.

◼ Af hverju vilja börn fá það sem þau sjá auglýst? „Þau vilja eignast þetta af því að aðrir eiga það. Þau vilja njóta viðurkenningar innan hópsins.“ Þetta er haft eftir uppeldisfræðingi í pólska tímaritinu Rewia. Þegar krakkarnir þrábiðja, væla eða fara í fýlu er algengt að foreldrarnir láti undan og kaupi það sem krakkana langar í.

Af hverju ætli auglýsingar, sem beinast að börnum, séu svona áhrifaríkar? „Áherslan er ekki á verð og gæði eða gagnið af vörunni,“ segir sálfræðingurinn Jolanta Wąs. Auglýsingarnar eru til þess gerðar að „höfða til tilfinninganna“. Hún heldur áfram: „Ungir krakkar brjóta ekki til mergjar sögu sem er sögð í auglýsingu . . . Þeir bera ekki upplýsingarnar saman við staðreyndir.“ Og jafnvel þó að þeir reyni að gera það er óvíst að þeir hafi nægan skilning á staðreyndunum til að leggja rétt mat á vöruna.

Hvernig er hægt að vernda börnin fyrir áhrifamætti auglýsinganna? Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að „vera nógu mikið með börnunum og útskýra fyrir þeim aftur og aftur að manngildi okkar fari ekki eftir því hvort við klæðumst skóm [eða fötum] með ákveðnu vörumerki“, segir í tímaritinu Rewia. Kenndu börnunum að það sé hægt að eiga ánægjulega æsku án þess að eiga nýjustu leikföngin. Í öðru lagi þurfa foreldrar að gera sér grein fyrir því hvernig auglýsingar geta haft áhrif á börn. Kjarni málsins er sá að „láta ekki auglýsingarnar ákveða fyrir okkur hvað sé gott fyrir börnin“, segir Jolanta Wąs.

Að síðustu ber að nefna að allir foreldrar geta nýtt sér þær leiðbeiningar sem er að finna í Biblíunni. Jóhannes postuli skrifaði: „Allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna er ekki frá föðurnum heldur frá heiminum.“ — 1. Jóh. 2:15, 16.

Ertu ekki sammála því að margar auglýsingar ‚glepji augað‘ og tæli jafnt börn sem fullorðna til að sýna af sér „oflæti vegna eigna“? Það er athyglisvert að Jóhannes postuli skuli segja í framhaldinu: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ — 1. Jóh. 2:17.

Ef foreldrar gefa sér tíma til að ræða uppbyggileg mál við börnin geta þeir innprentað þeim meginreglur Guðs og góð lífsgildi. (5. Mósebók 6:5-7) Þá láta börnin ekki glepjast af auglýsingum sem eru gerðar til þess að fá þau til að nauða í foreldrunum svo að þeir kaupi hinar auglýstu vörur.