Ætti ég að kjafta frá?
Ungt fólk spyr
Ætti ég að kjafta frá?
„Þetta var ótrúlega erfitt. Hann var góður vinur minn.“ — Jakob. *
„Fyrst voru samskiptin mjög stirð. Mér var úthýst úr vinahópnum vegna þess að ég sagði frá.“ — Anna.
Í BIBLÍUNNI segir: „Til er sá vinur sem reynist tryggari en bróðir.“ (Orðskviðirnir 18:24) Átt þú slíkan vin? Þá hefurðu fundið eitthvað mjög dýrmætt.
En hvað ef vinur þinn, sem telur sig vera kristinn, gerir eitthvað af sér? Hvað ef hann hefur gerst sekur um siðleysi, reykt, drukkið án þess að hafa aldur til, notað fíkniefni eða gert eitthvað annað alvarlegt? (1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Tímóteusarbréf 1:9, 10) Hvað áttu að gera? Áttu að tala við vin þinn um málið? Tala við foreldra þína? Tala við foreldra vinar þíns? Láta öldung í söfnuðinum vita af málinu? * Hvaða áhrif mun það hafa á vináttuna ef þú segir frá? Væri kannski betra að segja ekki neitt?
Ætti ég að segja frá eða ekki?
Allir gera mistök. Í Biblíunni stendur meira að segja: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) En sumir gera sig seka um alvarleg mistök. Aðrir taka feilspor sem gætu leitt til stærri vandamála ef ekkert er að gert. (Galatabréfið 6:1) Skoðum eitt raunverulegt dæmi.
◼ Súsanna er stelpa í söfnuði votta Jehóva. Hún komst að því að vinkona hennar, sem er líka vottur, var með siðlausar myndir og tónlist með grófum textum á heimasíðunni sinni á Netinu.
Hugleiddu: Hvað myndir þú gera ef þú værir Súsanna? Myndirðu gera eitthvað í málinu? Eða myndirðu hugsa sem svo að það komi þér ekki við hvað vinur þinn eða vinkona setur inn á heimsíðuna sína? Hvað myndirðu segja við Súsönnu ef hún kæmi til þín og bæði um ráð?
․․․․․
Hvað gerði Súsanna? Eftir að hafa hugsað málið ákvað hún að tala við foreldra vinkonu sinnar. „Ég var mjög hrædd við að segja þeim frá þessu,“ segir hún, „vegna þess að þau eru
líka góðir vinir mínir. Það var svo erfitt að segja þeim þetta að ég fór að gráta.“Hvað finnst þér? Brást Súsanna rétt við? Eða hefði kannski verið betra ef hún hefði bara þagað yfir þessu?
Til að hjálpa þér að komast að niðurstöðu skaltu hugsa um eftirfarandi:
Hvað myndi sannur vinur gera? Í Orðskviðunum 17:17 segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ Þegar einhver gerir eitthvað sem brýtur í bága við meginreglur Biblíunnar er hann „í andstreymi“ hvort sem hann gerir sér grein fyrir því eða ekki. Það væru að vísu mistök að reyna að vera „of réttlátur“ með því að gera mál úr einhverju smávægilegu. En sannur vinur lokar samt ekki augunum fyrir því ef vinur hans hegðar sér ókristilega. (Prédikarinn 7:16) Það er einfaldlega ekki valkostur að gera ekki neitt. — 3. Mósebók 5:1.
Hvað ef dæminu væri snúið við? Spyrðu þig: Ef ég væri foreldri og barnið mitt væri með siðlaust efni á heimasíðunni sinni, myndi ég þá vilja vita af því? Hvað myndi mér finnast ef vinur sonar míns eða dóttur vissi af þessu en segði ekki neitt?
Hvernig lítur Guð á málið? Það síðasta sem þú ættir að gera er að hylma yfir með vini þínum. Þú ættir miklu fremur að fylgja siðferðisstöðlum Guðs sem eru að finna í Biblíunni. Staðreyndin er sú að þegar þú stendur með því sem er rétt gleðurðu hjarta skapara þíns. (Orðskviðirnir 27:11) Þar að auki líður þér betur vegna þess að þú veist að þú gerðir það sem var vini þínum fyrir bestu. — Esekíel 33:8.
„Að tala hefur sinn tíma“
Í Biblíunni segir: „Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:7) Ungir krakkar eiga oft erfitt með að skilja hvenær er viðeigandi að segja frá og hvenær ekki. Þegar vinur þeirra gerir eitthvað rangt hugsa þeir kannski: ‚Ég vil ekki koma vini mínum í vandræði‘ eða ‚ég vil ekki að hann verði reiður út í mig.‘ Ef þetta væri það eina sem skipti máli væri ekki erfitt að ákveða sig — nú væri tími til að þegja.
En eftir því sem þú verður eldri ferðu að líta aðeins öðruvísi á málin. Þú gerir þér grein fyrir að vinur þinn er nú þegar kominn í vanda og þarf að fá hjálp sem þú getur kannski séð til að hann fái. En hvað geturðu gert ef þú heyrir af því að vinur þinn hefur gert eitthvað sem brýtur lög eða meginreglur Biblíunnar?
Fyrst þarftu að fullvissa þig um að það sem þú heyrðir sé satt. Kannski er þetta bara kjaftasaga. (Orðskviðirnir 14:15) Unglingsstúlka, sem heitir Kata, segir: „Vinkona mín fór að ljúga upp á mig og fólk sem þekkti mig vel trúði því sem hún sagði. Ég var hrædd um að enginn myndi nokkurn tíma trúa mér.“ Í Biblíunni var því spáð að Jesús myndi ‚ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyrðu‘. Biblíuþýðingin Contemporary English Version orðar þetta þannig að hann myndi ‚ekki hlusta á orðróm‘. (Jesaja 11:3) Hvað getum við lært af þessu? Gerðu ekki ráð fyrir að allt sem þú heyrir sé satt. Reyndu að komast að sannleikanum. Skoðum annað raunverulegt dæmi.
◼ Jakob, sem minnst var á í upphafi greinarinnar, heyrði að góður vinur hans hefði notað fíkniefni í partíi.
Hugleiddu: Hvað myndir þú gera ef þú værir í sporum Jakobs? Hvernig gætirðu komist að því hvort það sem þú heyrðir sé satt?
․․․․․
Hvað gerði Jakob? Í fyrstu lét hann eins og hann hefði ekkert heyrt og vissi ekki neitt. „En síðan fór samviskan að naga mig,“ segir hann. „Ég vissi að ég þyrfti að tala við vin minn um þetta.“
Hvað finnst þér? Hvaða kosti hefur það að tala fyrst við manneskjuna sem þú fréttir að hefði gert eitthvað af sér?
․․․․․
Hvað annað geturðu gert ef þér finnst erfitt að tala við viðkomandi?
․․․․․
Vinur Jakobs viðurkenndi að hann hefði neytt fíkniefna í partíinu. En síðan sárbændi hann Jakob um að segja engum frá því. Jakob vildi gera það sem var rétt. En hann vildi líka að vinur sinn gerði það sem var rétt. Hann gaf honum þess vegna eina viku til að segja öldungunum í söfnuðinum frá þessu. Ef hann gerði það ekki innan þess tíma myndi Jakob sjálfur gera það.
Var Jakob sanngjarn? Af hverju eða af hverju ekki?
․․․․․
Vinurinn fór ekki til öldunganna þannig að Jakob fór sjálfur og talaði við þá. En seinna sá vinur hans að sér. Hann fékk hjálp öldunganna og skildi að hann þurfti að iðrast og eignast aftur gott samband við Jehóva.
Ertu klöguskjóða ef þú segir frá?
En kannski hugsarðu sem svo: ‚Er ég ekki að bregðast vini mínum ef ég kjafta frá? Væri ekki bara auðveldara að láta sem ekkert sé?‘ Hvað geturðu gert ef þér líður þannig?
Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að auðveldasta leiðin er ekki alltaf sú besta og það sem er vini þínum fyrir bestu er ekki alltaf það auðveldasta. Það þarf hugrekki til að segja frá broti vinar þíns. Væri ekki gott að tala við Guð um málið? Biddu hann um að gefa þér þá visku og það hugrekki sem þú þarfnast. Hann mun hjálpa þér. — Filippíbréfið 4:6.
Í öðru lagi skaltu hugleiða hvernig það er vini þínum til góðs ef þú segir frá. Það má lýsa þessu með dæmi: Segjum að þú sért að ganga upp bratta brekku með vini þínum þegar hann misstígur sig og hrasar út af slóðinni niður á syllu. Vinur þinn þarf augljóslega að fá hjálp. En hvað ef hann skammast sín svo fyrir að hafa dottið að hann segist frekar vilja reyna að klifra til baka sjálfur? Myndirðu leyfa honum að hætta lífi sínu með þessum hætti?
Þetta er svipað og þegar vinur hrasar út af kristna lífsveginum. Hann heldur kannski að hann geti náð sér á strik án hjálpar. En það er heimskulegt að halda það. Vinur þinn fer kannski hjá sér vegna þess sem gerðist en ef þú hrópar á hjálp getur það ef til vill bjargað lífi hans. — Jakobsbréfið 5:15.
Vertu þess vegna ekki hræddur við að segja frá ef vinur þinn hefur gert eitthvað alvarlegt af sér. Með því að sjá til þess að hann fái hjálp sýnirðu Jehóva Guði hollustu og líka vini þínum, og hver veit nema hann verði þakklátur fyrir það seinna.
Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.
[Neðanmáls]
^ Nöfnum hefur verið breytt í þessari grein.
^ Öldungar í söfnuði Votta Jehóva veita fólki andlega hjálp ef það hefur drýgt alvarlega synd. — Jakobsbréfið 5:14-16.
TIL UMHUGSUNAR
◼ Hvernig ertu í raun að sýna vini þínum hollustu með því að segja frá ef hann hefur gert eitthvað rangt?
◼ Hvaða dæmi úr Biblíunni detta þér í hug þar sem reyndi á hollustu milli vina? Hvað geturðu lært af þeim?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Ef vinur þinn hefur hrasað út af kristna lífsveginum þarftu að sjá til þess að hann fái hjálp.