Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar sólin kemur ekki upp

Þegar sólin kemur ekki upp

Þegar sólin kemur ekki upp

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í FINNLANDI

„SÓLIN rennur upp og sólin gengur undir og hraðar sér aftur til samastaðar síns þar sem hún rennur upp,“ segir í Biblíunni. (Prédikarinn 1:5) En á mörgum svæðum norðan við norðurheimskautsbaug er þessi staðreynd kannski ekki svo augljós. Frá miðjum nóvember til janúarloka er varla hægt að tala um sólarupprás og sólsetur. Þar á fólk ekki um annað að velja en að þreyja langar og dimmar nætur skammdegisins.

Sunnan við norðurheimskautsbaug búa menn einnig við langar nætur þó í minna mæli sé. Sem dæmi má nefna Sankti Pétursborg, Helsinki, Stokkhólm og Ósló, sem allar eru innan við 800 kílómetra sunnan við heimskautsbaug. Þar varir dagsbirtan aðeins um sex klukkustundir yfir háveturinn. Í Reykjavík varir dagsbirtan ekki nema um fjórar klukkustundir þegar dagurinn er stystur.

„Það er alls ekki niðamyrkur á norðurslóðum að vetri eins og margir halda,“ segir Ari en hann ólst upp í Kiruna í sænska hluta Lapplands. Stórum hluta dagsins má lýsa með einu orði — rökkur. Paula er listamaður í finnska hluta Lapplands. Hún segir: „Þegar Lappland er snævi þakið litast landið fölleitum bláum og fjólubláum litum.“

Dimmir vetur hafa slæm áhrif á suma. „Ég finn sárlega fyrir árstíðaskiptunum og breytingunni á veðurfarinu“, skrifaði finnska tónskáldið Jean Sibelius. Hann bætti við: „Það leggst alltaf einhver depurð á mig í skammdeginu.“ Hann er langt frá því að vera sá eini sem hefur þjáðst af svokölluðu skammdegisþunglyndi. Gríski læknirinn Hippókrates (um 460-377 f.Kr.) taldi árstíðirnar hafa áhrif á lundarfar fólks.

Það var þó ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar sem farið var að tala um skammdegisþunglyndi sem ákveðið heilkenni. Rannsóknir hafa leitt í ljós að lítill hluti fólks á norðlægum slóðum þjáist af árstíðabundnu þunglyndi. Milt skammdegisþunglyndi er þrefalt eða ferfalt algengara. Talið er að hundruð þúsunda manna finni fyrir því.

Andrei býr í Sankti Pétursborg. „Ég gæti sofið endalaust,“ segir hann. Annika, sem býr í Finnlandi, kvíðir vetrinum. Hún segir: „Stundum finn ég næstum fyrir innilokunarkennd af myrkrinu því að það er hvergi hægt að komast undan því.“

Sérfræðingar mæla með ýmsum aðferðum til að kljást við skammdegisþunglyndi. Sumir mæla til dæmis með því að vera eins mikið úti og hægt er meðan dagsbirtu nýtur. Þeir sem stunda einhverja útivist að vetri segja að það hjálpi í baráttunni við skammdegisþunglyndi.

Jarmo þekkir veturna bæði í Norður- og Suður-Finnlandi. Hann segir: „Í svartasta skammdeginu kveikjum við á fleiri kertum og látum fleiri ljós loga en venjulega.“ Sérstök ljósameðferð hefur hjálpað sumum. Aðrir hvíla sig á vetrarmyrkrinu með því að fara í frí til suðlægari landa. En sumir vara þó við því að heimkoman í vetrarmyrkrið eftir sólarlandaferð geti valdið enn meiri drunga hjá sumum.

Góð næring er einnig mikilvæg. Sólarljós hjálpar líkamanum að framleiða D-vítamín og því getur of lítið sólarljós valdið D-vítamínskorti. Sumir mæla með því að borða meira af D-vítamínríkum mat yfir veturinn, svo sem fiski, lifur og mjólkurvörum.

Af sömu ástæðu og veturnir eru dimmir eru sumrin líka björt. Er jörðin gengur um sporbraut sína kemur að því að sólin byrjar að skína á kaldan norðurpólinn. Og með tímanum verður sólarljósið allsráðandi yfir daginn. Síðan kemur sumarið og þá er hægt er að njóta sólarljóssins um miðjar nætur.

[Innskot á blaðsíðu 19]

Stórum hluta dagsins má lýsa með einu orði — rökkur.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Hádegi að vetri við heimskautsbaug.

[Credit line]

Dr. Hinrich Bäsemann/Naturfoto-Online

[Mynd á blaðsíðu 19]

Margir finna til þunglyndis þegar ekki sést til sólar.