Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju erum við hér?

Af hverju erum við hér?

Af hverju erum við hér?

Hver er tilgangur lífsins?

FÓLK spyr oft spurninganna hér að ofan. Önnur algeng spurning er: Getum við búist við einhverju meiru en að lifa aðeins í 70 eða 80 ár og deyja síðan? — Sálmur 90:9, 10.

Kannski spyrjum við slíkra spurninga helst þegar við finnum áþreifanlega fyrir því hve ævin er stutt. Að sjálfsögðu þurfum við ekki að ganga í gegnum lífshættulegar raunir til að spyrja af hverju við erum hér. Þessi spurning getur líka vaknað ef við verðum fyrir vonbrigðum í lífinu. Og sumir spyrja sig að þessu þegar þeir líta yfir farinn veg.

Dave var í vel launaðri vinnu, átti fína íbúð og naut þess að verja tíma með öllum vinum sínum. Hann segir: „Ég var að ganga heim úr veislu seint um kvöld þegar sú spurning sótti á mig hvort þetta væri allt og sumt. Á ég aðeins eftir að lifa í stutta stund og deyja síðan eða get ég vonast eftir einhverju meiru? Það sló mig hve innantómt líf mitt var á þessari stundu.“

Í bók sinni Man’s Search for Meaning bendir Viktor Frankl á að sumir þeirra sem lifðu af helförina eins og hann, hafi spurt sig slíkra spurninga eftir að þeir losnuðu úr fangabúðunum. Þegar sumir sneru heim komust þeir að raun um að ástvinir þeirra höfðu týnt lífi. Frankl skrifaði: „Vei þeim er sáu loks daginn sem þá hafði dreymt um en komust svo að því að hann var allt öðruvísi en þeir höfðu vonað.“

Menn sem spurðu þessarar spurningar

Allar kynslóðir manna hafa spurt sig hvers vegna við séum hér. Biblían segir frá fólki sem velti fyrir sér tilgangi lífsins. Þegar Job hafði misst aleiguna og börnin sín og þurfti að þola kvalarfullan sjúkdóm spurði hann: „Hví dó ég ekki nýkominn úr móðurskauti, andaðist er ég kom úr móðurlífi?“ — Jobsbók 3:11.

Elía spámaður bar svipaðar tilfinningar í brjósti. Þegar honum fannst hann vera sá eini sem tilbað Guð sagði hann harmþrunginn: „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt.“ (1. Konungabók 19:4) Slíkar tilfinningar eru allt of algengar. Enda segir Biblían: „Elía var maður eins og við.“ — Jakobsbréfið 5:17.

Tilgangsríkt „ferðalag“

Lífinu er oft líkt við ferðalag. Hægt er að leggja af stað í ferðalag með engan sérstakan áfangastað í huga og á sama hátt er hægt að lifa lífinu án þess að það hafi neinn raunverulegan tilgang. En ef menn gera það er hætta á að þeir leiti lífsfyllingar með því að „halda sér nógu uppteknum“ eins og rithöfundurinn Stephen R. Covey komst að orði. Hann talar um þá sem „vinna innantóma sigra og ná árangri á kostnað þess sem þeir gera sér skyndilega grein fyrir að var þeim mun kærara.“

Ertu ekki sammála því að það er tilgangslaust að flýta sér á ferðalagi ef maður stefnir ekki í rétta átt? Á sama hátt veitir það ekki sanna hamingju að reyna að finna tilgang í lífinu með því að „halda sér nógu uppteknum“. Það vekur aðeins tómleikatilfinningu.

Óháð aldri og uppruna fýsir alla að vita hver sé tilgangur lífsins. Ástæðan er sú að menn hafa andlegar þarfir sem geta verið óuppfylltar jafnvel eftir að búið er að svala öllum efnislegum þörfum. Athugum hvernig sumir hafa reynt að uppfylla þessa innri þörf í leit sinni að tilgangi lífsins.

[Innskot á blaðsíðu 4]

Það veitir ekki sanna hamingju að reyna að finna tilgang í lífinu með því að „halda sér nógu uppteknum“. Það vekur aðeins tómleikatilfinningu.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Job spurði af hverju hann hefði fæðst.

[Mynd á blaðsíðu 4]

„Elía var maður eins og við.“