Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju við erum hér

Af hverju við erum hér

Af hverju við erum hér

BIBLÍAN opinberar að skapari okkar, Jehóva Guð, geri ekkert án þess að hafa ástæðu fyrir því. Tökum sem dæmi hringrás vatnsins sem hann er hönnuður að og gerir lífið á jörðinni mögulegt. Biblían lýsir þessari hringrás á ljóðrænan en jafnframt nákvæman hátt og segir: „Allar ár renna í sjóinn en sjórinn fyllist ekki. Þangað sem árnar renna munu þær ávallt renna.“ — Prédikarinn 1:7.

Í Biblíunni er sagt að loforð Guðs séu jafn áreiðanleg og hringrás vatnsins. Eins og við vitum gufar vatn upp úr höfum, vötnum og ám vegna hita frá sólinni og kemur svo aftur til jarðar í mynd úrkomu. Jehóva vekur athygli á þessari hringrás og segir síðan: „Eins er . . . farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því.“ — Jesaja 55:10, 11.

Hreint vatn fellur aftur til jarðar úr skýjunum og gerir lífið á jörðinni mögulegt. Á sama hátt getur ‚orð Guðs sem kemur af munni hans‘ svalað innri andlegri þörf okkar. Jesús Kristur útskýrði þetta mál og sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ — Matteus 4:4.

Með því að fræðast um Guð getum við lagað líf okkar að vilja hans. En áður en við getum gert það verðum við að skilja hver vilji Guðs er. Af hverju skapaði hann jörðina? Og hvaða áhrif hefur fyrirætlun Guðs með jörðina á okkur? Skoðum málið nánar.

Fyrirætlun Guðs með jörðina

Guð vill mannkyninu allt það besta og þess vegna setti hann Adam og Evu, fyrsta manninn og konuna, í paradísargarðinn Eden. Síðan gaf hann þeim fyrirmæli um að eignast börn og sagði: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:26-28; 2:8, 9, 15.

Hvaða ályktun getum við dregið af þessum fyrirmælum? Er ekki ljóst að Guð vildi að öll jörðin yrði ræktuð og gerð að paradísarheimili fyrir mannkynið? Í orði hans segir: „Himinninn er himinn Drottins en jörðina gaf hann mannanna börnum.“ — Sálmur 115:16.

En til að mennirnir fengju að lifa að eilífu á jörðinni, eins og Guð ætlaði þeim, urðu þeir að heiðra hann með því að hlýða honum. En gerði Adam það? Nei, hann syndgaði með því að óhlýðnast Guði. Hver var afleiðingin? Allir afkomendur Adams, þar með talin við öll nú á dögum, hafa fengið synd og dauða í arf eins og Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ — Rómverjabréfið 5:12.

Þess vegna deyja allir menn að lokum og ekki er enn búið að gera alla jörðina að paradís. Getur þá verið að fyrirætlun Guðs með jörðina hafi breyst?

Nei, mundu að Guð sagði: „Orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur . . . framkvæmir það sem ég fel því.“ Auk þess hefur Guð lofað: „Ég geri allt sem mér þóknast.“ (Jesaja 45:18; 46:10; 55:11) Og fyrirætlun Guðs — það sem honum þóknast — er að öll jörðin verði paradís byggð fólki sem er hamingjusamt og þjónar honum að eilífu eins og hann ætlaðist til í upphafi. — Sálmur 37:29; Jesaja 35:5, 6; 65:21-24; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Hvernig nær fyrirætlun Guðs fram að ganga?

Jehóva sýndi kærleika sinn og visku með því að gera ráðstafanir til að mannkynið gæti losnað undan erfðasyndinni og afleiðingum hennar — ófullkomleika og dauða. Hann sá til þess að sonur myndi fæðast sem væri laus við syndina sem allir aðrir erfðu frá fyrsta manninum Adam. Þessi ráðstöfun er kölluð lausnargjald og Jehóva sá fyrir þessu lausnargjaldi til þess að verðugir menn gætu hlotið eilíft líf. (Matteus 20:28; Efesusbréfið 1:7; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Hvernig var lausnargjaldið greitt?

Gabríel, engill Jehóva, tilkynnti meynni Maríu að hún yrði barnshafandi fyrir kraftaverk jafnvel þótt hún hefði „ekki karlmanns kennt“. Kraftaverkið, sem Guð vann, var að flytja líf einkasonar síns frá himnum yfir í eggfrumu í móðurlífi Maríu. Hún varð því þunguð fyrir tilstilli heilags anda. — Lúkas 1:26-35.

Jesús fæddist um níu mánuðum síðar sem fullkomin mannvera eins og fyrsti maðurinn Adam. Seinna gat hann gefið fullkomið mannslíf sitt með því að deyja fórnardauða. Þannig var Jesús „hinn síðari Adam“ og lagði grundvöllinn að því að hægt væri að leysa alla sem reynast Guði trúir undan synd og dauða. — 1. Korintubréf 15:45, 47.

Þessi mikli kærleikur, sem Guð hefur sýnt okkur, snertir okkur djúpt. Í Biblíunni segir: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) En spurningin er: Hvernig munum við bregðast við kærleika Guðs? Ættum við ekki að vera honum innilega þakklát fyrir þessa gjöf? Heyrum frá nokkrum sem bera slíkt þakklæti í brjósti.

Að lifa tilgangsríku lífi

Denise, sem nefnd var í greininni á undan, komst að raun um að þegar hún notaði líf sitt til að heiðra Guð og fylgja lögum hans og meginreglum gaf það lífi hennar tilgang og stefnu. Hún segir: „Í Biblíunni lærði ég að Guð hefur ekki bara langtímafyrirætlun með mennina heldur gefur hann þeim, sem tilbiðja hann, sérstakt verk að vinna. Ég get ekki ímyndað mér tilgangsríkara líf en að nota frjálsa viljann sem Guð hefur gefið mér til að lofa hann og lifa í samræmi við vilja hans og fyrirætlun.“

Við getum gert hið sama með því að kynna okkur hver vilji Guðs er og fylgja honum síðan. Að vísu höfum við ekki fullt gagn af lausnargjaldinu enn sem komið er. Að lokum mun það hins vegar gera mannkyninu kleift að njóta fullkomleika í nýjum réttlátum heimi. En þangað til er mikilvægt fyrir okkur að fullnægja þeirri andlegu þörf sem Guð hefur gefið hverju og einu okkar.

Dave, sem nefndur var í fyrstu greininni, hefur fengið andlegu hungri sínu svalað. Hann fékk svör við spurningum sínum um tilgang lífsins. Hann segir: „Þegar ég horfi til baka sé ég að áður en ég kynntist fyrirætlun Guðs notaði ég líf mitt til að keppa að tilgangslausum markmiðum. Ég vissi ekki á þeim tíma að tómleikatilfinningin, sem ég upplifði, var í rauninni óuppfyllt andleg þörf. Núna fæ ég aldrei þessa tilfinningu. Ég skil af hverju ég er hér og hvað ég á að gera við líf mitt.“

Í Biblíunni sjáum við hvern Guð álítur vera tilgang lífsins. Og það sem hann segir veitir okkur miklu meiri hugarró en hugmyndir ófullkominna manna. Við erum hér af því að Jehóva skapaði okkur í ákveðnum tilgangi — að við mættum lofa nafn hans, eiga gott samband við hann og svala þannig andlegri þörf okkar. Bæði núna og um alla eilífð getum við notið uppfyllingar innblásnu orðanna: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.“ — Sálmur 144:15.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 8]

AF HVERJU ÞJÁST MENNIRNIR?

Sagt hefur verið að þjáningar mannanna geri þeim hvað erfiðast fyrir að skilja tilgang lífsins. Viktor Frankl sagði: „Ef það er einhver tilgangur með lífinu hlýtur að vera tilgangur með þjáningum. Þjáningar eru óaðskiljanlegur hluti lífsins rétt eins og örlögin og dauðinn.“

Í Biblíunni er útskýrt af hverju við þjáumst og deyjum. Guð er ekki ábyrgur heldur eru þetta afleiðingar af hræðilegri ákvörðun fyrstu hjónanna sem völdu að vera óháð skapara sínum. Allir afkomendur þeirra hafa erft þessa syndugu tilhneigingu og hún er aðalorsökin fyrir þjáningum mannanna.

Þótt við skiljum af hverju við erum hér leysir það ekki öll vandamál lífsins en það hjálpar okkur samt að takast á við þau. Okkur er líka gefin von um að Guð muni í framtíðinni losa okkur við þjáningar og dauða í eitt skipti fyrir öll.

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 7]

Í Biblíunni er sagt að loforð Guðs séu jafn áreiðanleg og hin stórkostlega hringrás vatnsins.

[Skýringarmynd]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Rigning

Uppgufun

Uppgufun

Vötn, ár

Höf

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Af hverju getum við verið viss um að í framtíðinni verði jörðin paradís byggð hamingjusömu og heilbrigðu fólki?

[Mynd á blaðsíðu 9]

‚Ég get ekki ímyndað mér tilgangsríkara líf en að nota frjálsa viljann, sem Guð gaf mér, til að þjóna honum.‘ — Denise.