Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Okinawa með lykilinn að langlífi?

Er Okinawa með lykilinn að langlífi?

Er Okinawa með lykilinn að langlífi?

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í JAPAN

◼ Á Okinawaeyjum við Japan fer fram rannsókn á fólki sem er hundrað ára og eldra. Íbúar eyjanna eru 1,3 milljónir og áætlað var árið 2006 að hátt í 740 þeirra væru tíræðir eða eldri — 90 prósent þeirra voru konur. Það svarar til þess að 50 af hverjum 100.000 íbúum hafi náð tíræðisaldri að sögn Makoto Suzuki, sérfræðings sem stýrir rannsókninni. Í flestum iðnríkjum heims er hlutfallið talið vera 10 til 20 af hverjum 100.000.

Þessi rannsókn er sögð vera „lengsta samfellda rannsókn sem gerð hefur verið á tíræðu fólki“. Í henni kemur fram að „óvenjumargir tíræðir einstaklingar séu við sérlega góða heilsu“. Til að komast að ástæðunni fyrir heilsuhreysti fólksins rannsakaði Suzuki og teymi hans lífshætti og erfðir rúmlega 900 tíræðra einstaklinga auk fjölda annarra íbúa Okinawa sem eru 70 ára og eldri. Rannsakendur komust að raun um að fólkið var gjarnan grannt og vel á sig komið, æðakölkun sjaldgæf og tíðni krabbameins og hjartasjúkdóma óvenjulág. Og færri af þeim sem voru hátt á tíræðisaldri voru með elliglöp en sambærilegir hópar í öðrum iðnríkjum heims. Hver er lykillinn að hreysti þeirra og langlífi?

Erfðir ráða miklu en fleira kemur til, svo sem gott mataræði, að nota ekki tóbak og neyta áfengis í hófi. Fæði Okinawabúa er gjarnan lágt í hitaeiningum og þeir borða mikið af grænmeti, ávöxtum, náttúrulegum trefjum og góðri fitu (omega-3, einómettaðri fitu). Og þeir hafa það til siðs að borða aðeins þar til þeir eru um það bil 80 prósent mettir. „Maður ætti að hætta að borða um leið og maður finnur til fyllingar“, segir Bradley Willcox læknir sem er í rannsóknarteyminu. Hann heldur áfram: „Það líða um það bil 20 mínútur þar til maginn lætur heilann vita.“

Okinawabúar halda sér líkamlega virkum með garðyrkju, daglegum göngutúrum, dansi og fleiru. Gamla fólkið reyndist jákvætt að eðlisfari og það átti auðvelt með að aðlaga sig aðstæðum. Það þoldi álag ágætlega og sýndi „sterk félagstengsl“, sér í lagi konurnar.

„Það er ekki til neitt undralyf“ til að lengja lífið segir Willcox. Eins og rannsóknin hefur leitt í ljós hefur ýmislegt áhrif á langlífi eins og erfðir, mataræði, hreyfing, góðar venjur „og að takast á við álag á heilbrigðan hátt“.