Evrópuvísundinum bjargað frá útrýmingu
Evrópuvísundinum bjargað frá útrýmingu
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í PÓLLANDI
Spennan lá í loftinu. Veiðiþjófarnir höfðu fundið fótsporin sem þeir voru að leita að. Þeir héldu áfram og komu loks auga á bráðina. Feldurinn var dökkbrúnn og skeggið nánast svart. Hornin sveigðust fyrst út og svo inn á við og sátu hátt á höfðinu. Kjötið og feldurinn voru eftirsótt og myndu gefa þjófunum vel í aðra hönd.
Fyrsta skotið særði dýrið. Það hljóp inn í skóginn í leit að skjóli en án árangurs. Seinna skotið hitti í mark og skepnan, sem var hálft tonn að þyngd, féll til jarðar. Veiðiþjófarnir höfðu ekki hugmynd um að þessi atburður myndi komast á spjöld sögunnar. Þetta var í apríl 1919 og þeir höfðu rétt í þessu drepið síðasta villta evrópuvísundinn í Póllandi. Sem betur fer var enn að finna nokkra vísunda í dýragörðum og í einkaeign.
ÁÐUR fyrr var evrópuvísundinn (Bison bonasus) að finna í stórum hjörðum um mestalla Evrópu. Karldýrið getur orðið allt að 900 kg að þyngd og allt að tveir metrar á hæð um herðakambinn. Þetta stóra spendýr hefur stundum verið kallað keisari skógarins.
Eitt sem einkennir vísundinn er mikill stærðarmunur á bóg og lendum. Herðarnar eru breiðar og miklar með áberandi bóg en lendarnar eru fremur litlar í samanburði. Feldurinn er snöggur á lendunum en loðnari að framan. Dýrið er með áberandi skegg sem nær niður á bringu.
Á barmi útrýmingar
Talið er að núna séu aðeins um nokkur þúsund evrópuvísundar eftir af stofninum. Landbúnaður og eyðing skóga rændi þá sínu náttúrulega umhverfi og veiðiþjófar eltu þá miskunnarlaust uppi. Á áttundu öld var búið að útrýma evrópuvísundinum í Gallíu (Frakklandi og Belgíu nútímans).
Á 16. öld gerðu konungar Póllands ráðstafanir til að vernda vísundinn. Einn sá fyrsti til að gera eitthvað í málinu var Sigismund 2. Ágústus sem ákvað að dauðarefsing lægi við því að drepa evrópuvísundinn. Af hverju? Dr. Zbigniew Krasiński í Białowieza-þjóðgarðinum segir: „Hugmyndin var að vernda stofninn svo að valdamenn og hirðmenn gætu veitt vísunda sér til skemmtunar.“ En þrátt fyrir þessa hörðu refsingu gátu lögin ekki verndað villta vísunda og í lok 18. aldar var aðeins hægt að
finna evrópuvísundinn í Białowieza-skóginum í Austur-Póllandi og í Kákasus.Á 19. öldinni breyttist ástandið loks til hins betra. Eftir að Białowieza-skógurinn var innlimaður í Rússland skipaði Alexander 1. fyrir um að vernda skyldi evrópuvísundinn. Og árangurinn lét ekki á sér standa. Vísundunum fjölgaði hægt og bítandi þannig að árið 1857 voru þeir orðnir nærri 1900 talsins. Seinna var komið upp fóðurstöðvum til að sjá dýrunum fyrir fæðu yfir veturinn. Þess var gætt að næg vatnsból væru fyrir dýrin og gerð voru rjóður til að rækta fóðurplöntur.
Því miður var þetta góðæri hjá vísundunum skammlíft. Á næstu 60 árum fækkaði þeim um helming. Og fyrri heimsstyrjöldin gerði útslagið fyrir villta vísundinn í Póllandi. Þrátt fyrir að Þjóðverjar hefðu fyrirskipað að „varðveita vísundana fyrir næstu kynslóðir sem einstakar náttúruminjar“ var hjörðunum útrýmt af þýska hernum, sem var á undanhaldi, rússneskum andspyrnumönnum og vægðarlausum veiðiþjófum. Eins og kom fram í upphafi greinarinnar var síðasti villti vísundurinn í Póllandi drepinn árið 1919.
Tegundin nær sér aftur á strik
Árið 1923 var stofnað alþjóðlegt félag um verndun evrópuvísundarins til að reyna að bjarga tegundinni. Fyrsta markmið þess var að telja hve margir hreinræktaðir vísundar væru í dýragörðum og villidýrasöfnum víðsvegar um heiminn. * Alls fundust 54 láglendisvísundar. En ekki var hægt að nota þá alla til ræktunar. Sumir voru of gamlir og aðrir haldnir sjúkdómum. Að lokum voru 12 dýr valin til að fjölga stofninum. Núlifandi evrópuvísundar af láglendisstofninum eru allir komnir af fimm þessara dýra.
Haustið 1929 var þeim merka áfanga náð að tveim láglendisvísundum var sleppt aftur út í óbyggðir. Þeim var komið fyrir á sérstöku verndarsvæði í Białowieza-skóginum. Tíu árum síðar hafði þeim fjölgað í 16.
Bjargað frá útrýmingu?
Við upphaf 21. aldarinnar voru um það bil 2900 evrópuvísundar á lífi víðsvegar um heim, þar af um 700 í Póllandi. Með árunum hefur líka verið komið á fót hjörðum í Hvíta-Rússlandi, Kirgisistan, Litháen, Rússlandi og Úkraínu.
En það þýðir samt ekki að evrópuvísundurinn sé úr allri hættu. Honum stendur enn þá ógn af sníkjudýrum, sjúkdómum, fóður- og vatnsskorti og veiðiþjófum. Vegna þess hve stofninn er lítill hafa erfðagallar líka skapað vandamál. Þess vegna er evrópski vísundurinn enn þá á rauða listanum, þar sem plöntur og dýr í útrýmingarhættu eru skráð.
Einbeitt viðleitni mannsins til að varðveita þessa tegund hefur gert það að verkum að hún er enn til á okkar dögum. Engu að síður nefnir dr. Krasiński, sem vitnað var í áður, að „örlög evrópuvísundarins sé glöggt dæmi um hvernig tegund getur nánast þurrkast út á örskömmum tíma og hve mikla fyrirhöfn það kosti að koma henni á legg á ný“. Framtíð þessa dýrs og margra annarra er óviss. En sem stendur hefur „keisara skógarins“ verið bjargað frá útrýmingu.
[Neðanmáls]
^ Evrópuvísundurinn skiptist í tvær undirtegundir — láglendisvísundinn og Kákasus- eða fjallavísundinn. Síðasti fjallavísundurinn dó 1927. En áður en það gerðist náðist að para saman fjallavísund og láglendisvísund og það gaf af sér kynblending. Nokkrir afkomendur þessa kynblendings finnast enn.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Evrópuvísundar í Białowieza-þjóðgarðinum.
[Credit line]
Allar myndir: Białowieski Park Narodowy