Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Opinbert vefsetur Votta Jehóva (www.watchtower.org) býður upp á efni á 314 tungumálum þegar þetta er skrifað. Árið 2007 voru heimsóknir á vefinn ríflega 22 milljónir eða að meðaltali yfir 60.000 á dag.

„Eitthvert erfiðasta verkefni okkar tíma er að tryggja öllum nóg af hreinu vatni . . . Allt of oft rekumst við á byssur þar sem okkur vantar vatn.“ — BAN KI-MOON, FRAMKVÆMDASTJÓRI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA.

Hamingja og heilsa

Lengi hefur verið talið að fólk, sem er glatt, jákvætt og hamingjusamt, sé að jafnaði heilsubetra en fólk sem er stressað, fjandsamlegt eða svartsýnt. Í nýlegri rannsókn kom fram að glaðlynt fólk mælist með minna af hýdrókortísón en aðrir, en hýdrókortísón er streituhormón sem getur valdið margs konar sjúkdómum hjá fólki sem er að staðaldri með óeðlilega mikið af þessu hormóni. Hinir glaðlyndu mælast sömuleiðis með minna af „tveim prótínum sem benda til útbreiddrar bólgu í líkamanum“. Haft er eftir dr. Andrew Steptoe við University College í Lundúnum að „lundarfar snúist ekki aðeins um erfðir heldur sé það einnig háð lífsfyllingu fólks og samskiptum við aðra“.

Tæknin notuð til að mæla hvenær nýtt tungl hefst

Öldum saman hafa múslimar fylgst vandlega með hvenær sjáist rönd nýs tungls sem markar endi mánaðarins ramadan en þá hefst hátíð föstuslitanna. Samkvæmt hefð hefur sums staðar þurft að sjá rönd nýs tungls með berum augum og síðan hefur trúarleiðtogi tilkynnt að föstunni sé lokið. Á síðustu árum hafa sumir kennimenn hins vegar lagt blessun sína yfir að tæknin sé notuð til þessa. Stjarnfræðingar í Íran eru nú farnir að nota háskerpusjónauka, nætursjónauka og jafnvel flugvélar hlaðnar nákvæmum tæknibúnaði til að mæla hvenær nýtt tungl byrjar. Kennimenn eru viðstaddir til að staðfesta mælinguna. Því fyrr sem nýtt tungl sést, þeim mun fyrr hefst hátíðin.

Félagsfærni ungbarna

Börn allt niður í sex mánaða gömul „læra að mynda sér skoðun á fólki eftir hátterni þess, áður en þau læra að tala“. Þetta er haft eftir vísindamönnum við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Sex til tíu mánaða börn horfðu á kubb með stór augu sem reyndi að klífa upp á hæð en aðrir kubbar annaðhvort hjálpuðu honum eða ýttu honum niður aftur. Síðan „voru börnin látin velja hvaða kubb þau vildu leika sér með“, að því er segir í dagblaðinu Houston Chronicle. „Nær undantekningarlaust völdu börnin hjálpfúsa kubbinn fremur en hinn vonda.“ Smábörn geta því „að einhverju marki greint á milli slæmra og góðra leikfélaga og valið rétt“, að sögn blaðsins.

„Fíkn í flöskuvatn“

„Bandaríkjamenn virðast haldnir óslökkvandi fíkn í flöskuvatn og nemur salan nú næstum 30 milljörðum flaskna á ári.“ Þetta kemur fram í tímaritinu U.S.News & World Report. Margir neytendur gera sér hins vegar ekki grein fyrir því að flöskuvatn er í flestum tilfellum venjulegt kranavatn. „Það er því á misskilningi byggt að velja flöskuvatn fram yfir kranavatn heilsunnar vegna,“ að sögn tímaritsins. Víða um lönd er haft strangt eftirlit með vatni sem kemur frá almenningsveitum. Og í samanburði við „fokdýrt“ flöskuvatn er kranavatnið „næstum ókeypis“!