Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar geturðu fundið svör?

Hvar geturðu fundið svör?

Hvar geturðu fundið svör?

EITT hlutverk trúarbragðanna er að fræða fólk um tilgang lífsins. En mörgum finnst kenningar trúarbragðanna ekki svala andlegum þörfum sínum. Denise var alin upp sem kaþólikki en hún segir: „Í Baltimore-kverinu * er að finna spurninguna: ‚Af hverju skapaði Guð okkur?‘ og svarið: ‚Guð skapaði okkur til að auðsýna gæsku sína og deila með okkur eilífri hamingju sinni á himnum.‘“

„Þetta útskýrði ekki nógu vel fyrir mér hvers vegna ég er hér,“ segir Denise í framhaldinu. „Ef ég er aðeins að bíða eftir því að fara til himna hvað á ég þá að gera þangað til?“ Það er ekki óalgengt að fólk hugsi eins og Denise. Í könnun nokkurri kom í ljós að tveir þriðju þeirra sem rætt var við fannst kirkjur og söfnuðir ekki hjálpa fólki að finna tilgang í lífinu.

Þess vegna snúa margir sér annað í leit að svörum — til vísindanna eða heimspeki á borð við húmanisma, níhílisma eða tilvistarstefnu. En af hverju heldur fólk áfram að leita að svörum þótt fáir virðist finna þau?

Meðfæddar andlegar þarfir

Dr. Kevin S. Seybold kallar þetta „almenna tilhneigingu fólks til að tilbiðja eitthvað“. Á undanförnum árum hefur fjöldi vísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að mönnum sé eðlislægt að leita að göfugum tilgangi í lífinu. Sumir trúa því jafnvel að erfðafræðilegir og aðrir lífeðlisfræðilegir þættir bendi til þess að menn hafi meðfædda þörf til að tengjast æðri máttarvöldum.

Þótt það sé umdeilt meðal menntamanna hvort menn hafi andlegar þarfir þurfa fæstir að bíða eftir samhljóða niðurstöðu vísindamanna til að gera sér grein fyrir því að menn hafa ekki aðeins líkamlegar þarfir. Það er þessi innri andlega þörf sem vekur með okkur það sem sumir kalla stóru spurningarnar í lífinu, eins og: Hvers vegna erum við hér? Hvað eigum við að gera við líf okkar? Og erum við ábyrg frammi fyrir almáttugum skapara?

Ef þú gefur þér tíma til að skoða náttúruna í kringum þig geturðu fundið sum af svörunum við þessum spurningum. Tökum sem dæmi margbreytileikann í náttúrunni — allt frá einfrumungum til vetrarbrautaþyrpinga sem eru milljónir ljósára í burtu. Segir þetta okkur ekki að til sé vitiborinn hönnuður eða skapari? Í Biblíunni segir: „Ósýnilega veru [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins. Því eru mennirnir án afsökunar.“ — Rómverjabréfið 1:20.

Svalaðu andlegum þörfum þínum

Í Biblíunni er talað um það hvernig Guð hefur gert mennina úr garði. Þar segir: „Jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra.“ (Prédikarinn 3:11) Við höfum meðfædda löngum til að lifa, ekki deyja. Það er okkur eðlislægt að vilja vita hver sé tilgangur lífsins og finna svör við spurningum.

Það að leita svara er í rauninni hluti af því að vera mannlegur. Eftir að hafa rætt um vísinda- og tækniafrek mannanna skrifaði ritstjóri The Wall Street Journal: „Við sitjum samt uppi með spurningarnar hver við erum, af hverju við erum hér og hvert leið okkar liggur.“ Það er skynsamlegt af okkur að leita svara hjá bestu heimildinni. Biblían bendir á hver þessi heimild sé og segir: „Guð, hann hefur skapað oss og hans erum vér.“ — Sálmur 100:3.

Er ekki rökrétt að svala andlegum þörfum sínum með því að leita til hans sem er höfundur hins mikilfenglega sköpunarverks? Jesús Kristur mælti með að við gerðum það. Hann benti á að aðeins skapari okkar — uppspretta lífsins — geti svalað andlegum þörfum manna. — Sálmur 36:6, 10; Matteus 4:4.

Það að fá fullnægjandi svar við spurningunni: Hvers vegna erum við hér? er nauðsynlegur þáttur í því að svala andlegum þörfum sínum. Skoðum nánar afstöðu skaparans til þessara mála.

[Neðanmáls]

^ Baltimore-kverið er trúarlærdómsbók sem notuð var í öllum kaþólskum skólum í Bandaríkjunum frá árinu 1885 og fram yfir miðja síðustu öld.