Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvert er eðli Guðs?

Hvert er eðli Guðs?

Sjónarmið Bíblíunnar

Hvert er eðli Guðs?

„GUÐ er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika,“ segir í Biblíunni. Þessi staðhæfing leiðir í ljós grundvallarsannleika um eðli Guðs — hann er andi. (Jóhannes 4:19-24) Í Biblíunni er honum eigi að síður lýst sem persónu, einstaklingi. Hann ber nafnið Jahve eða Jehóva. — 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.

Sumir biblíulesendur hafa látið í ljós að þeim finnist lýsing Biblíunnar á eðli Guðs ruglandi. Nú er Guð ósýnilegur andi en ekki áþreifanleg vera. Hvers vegna er þá víða í Biblíunni talað um að Guð hafi augu, eyru, nef, hjarta, handleggi, hendur, fingur og fætur? * Sumir gætu ályktað að Guð líti út eins og maður af því að í Biblíunni segir að maðurinn hafi verið skapaður í hans mynd. Hægt er að útiloka slíkan misskilning með því að rýna nánar í Biblíuna. — 1. Mósebók 1:26.

Hvers vegna er Guði lýst með einkennum manna?

Biblíuriturunum var innblásið að nota mennsk einkenni þegar þeir vísuðu til hins almáttuga Guðs. Þetta var gert til að fólk ætti auðveldara með að skilja eðli hans. Fræðimenn kalla það manngervingu þegar ómannlegum fyrirbærum er ætluð mannleg mynd eða mannlegir eiginleikar. Þessi málnotkun endurspeglar hve tungumál manna eru takmörkuð þegar lýsa á Jehóva, hinum sanna Guði. Tilgangurinn var að komast sem næst því að lýsa eðli og persónuleika Guðs og miðla því á þann hátt að menn skildu það. Það merkir ekki að við ættum að taka þetta bókstaflega, ekki frekar en við tækjum það bókstaflega þegar talað er í Biblíunni um Guð sem „bjargið“, „sól“ eða ‚skjöld‘. — 5. Mósebók 32:4; Sálmur 84:12.

Á svipaðan hátt segir í Biblíunni að maðurinn hafi verið skapaður í Guðs mynd. Það er gert til að koma þeirri hugsun til skila að maðurinn hafi að vissu marki sömu eiginleika og Jehóva býr yfir í fullkomnum mæli. Augljóst er að það merkir ekki að mennirnir séu andaverur né að Guð sé í mannsmynd.

Er Guð karlkyns eða kvenkyns?

Þegar talað er um Guð í karlkyni ætti ekki að taka það bókstaflega frekar en okkur ber að skilja það bókstaflega þegar Guði eru eignuð mannleg einkenni. Líffræðilegt kyn er bundið við lifandi verur af holdi og blóði en málfræðilegt kyn tekur til málfræðilegrar hegðunar orða. Það endurspeglar einfaldlega að tungumálum manna eru takmörk sett þegar lýsa á Jehóva, hinum almáttuga Guði.

Í Biblíunni er notað orðið „faðir“ um skaparann. Það er gert til að sýna fram á að það má líkja honum við ástríkan mennskan föður sem er umhyggjusamur og verndar börn sín. (Matteus 6:9) Þetta merkir ekki að við eigum að líta á Guð eða nokkra aðra andaveru á himnum sem annaðhvort karlkyns eða kvenkyns. Þegar notað er málfræðilegt kyn um andaverur er ekki átt við líffræðilegt kyn. Það er athyglisvert að í Biblíunni er bent á að þeir sem eru útvaldir til að vera samerfingjar Krists í himneskri stjórn hans búast ekki við að halda líffræðilegu kyni sínu þegar þeir verða andasynir Guðs á himnum. Páll postuli minnti þá á að þar væri hvorki „karl né kona“. Þeim er einnig lýst táknrænt sem ‚brúði‘ Jesú Krists. Allt þetta útskýrir að það ber ekki að skilja það bókstaflega þegar Guði, einkasyni hans Jesú og öðrum andaverum eru eignaðir mannlegir eiginleikar. — Galatabréfið 3:26, 28; Opinberunarbókin 21:9; 1. Jóhannesarbréf 3:1, 2.

Biblíuritararnir skildu réttilega karlmannshlutverkið og notuðu karlkyn þegar þeir töluðu um Guð. Þeir sáu að færi maðurinn algerlega eftir meginreglum Guðs myndi hann endurspegla kærleiksríkan og föðurlegan áhuga Jehóva á jarðneskum börnum sínum. — Malakí 3:17; Matteus 5:45; Lúkas 11:11-13.

Mikilvægasti eiginleiki Guðs

Drottinn alheims er aldrei fálátur, leyndardómsfullur né þögull þótt hann sé andavera. Eðli hans sem andi er ekki óyfirstíganleg hindrun fyrir einlægt fólk til að kynnast honum og meta kærleika hans, mátt, visku og réttlæti. Þessir eiginleikar lýsa einnig persónuleika hans og eru augljósir af sköpunarverkinu. — Rómverjabréfið 1:19-21.

Eðli Guðs kemur hvað skýrast fram í mikilvægasta eiginleika hans, kærleika. Kærleikur hans skarar svo fram úr að sagt er að Guð sé persónugervingur kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þessi eiginleiki innifelur önnur eðliseinkenni hans eins og miskunnsemi, fyrirgefningu og langlyndi. (2. Mósebók 34:6; Sálmur 103:8-14; Jesaja 55:7; Rómverjabréfið 5:8) Jehóva er vissulega Guð kærleikans og býður okkur mönnunum að nálgast sig. — Jóhannes 4:23.

[Neðanmáls]

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hvað heitir Guð? — 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.

◼ Hvar getum við fengið að vita um eiginleika Guðs? — Rómverjabréfið 1:19-21.

◼ Hver er mikilvægasti eiginleiki Guðs? — 1. Jóhannesarbréf 4:8.