Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hjálpa börnum sem eiga í námsörðugleikum

Að hjálpa börnum sem eiga í námsörðugleikum

Að hjálpa börnum sem eiga í námsörðugleikum

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í MEXÍKÓ

Steven á í erfiðleikum með að lesa. Í hvert sinn sem hann veit að hann verður beðinn um að lesa upphátt fyrir bekkinn fær hann hnút í magann.

Þrátt fyrir hjálp frá kennaranum á María erfitt með að skrifa læsilega. Það tekur hana langan tíma að klára heimalærdóminn.

Noah les námsefnið oft og mörgum sinnum. Samt á hann erfitt með að muna það og á í basli í prófum.

STEVEN, María og Noah eiga við námsörðugleika að stríða. Algengasta orsök þess eru erfiðleikar með lestur. Þeir sem eru lesblindir rugla oft saman bókstöfum sem eru líkir. Aðrir námsörðugleikar geta stafað af skrifblindu (röskun sem hefur áhrif á handskrift) og reikniblindu (erfiðleikar með stærðfræði). En þrátt fyrir það eru flestir þeirra sem eiga við námsörðugleika að stríða meðalgreindir eða hafa greind yfir meðallagi.

Algeng einkenni barna, sem eiga við námsörðugleika að stríða, er að þau byrja seint að tala og halda lengi í smábarnatal, eiga erfitt með að finna orð sem ríma og að bera orð rétt fram. Þau eiga í vandkvæðum með að læra bókstafi og tölur og geta ekki hljóðað sig í gegnum einföld orð, rugla saman orðum sem hljóma líkt og eiga í erfiðleikum með að fylgja leiðbeiningum. *

Hjálpaðu barninu í glímunni

Hvað geturðu gert ef barnið þitt virðist eiga í námsörðugleikum? Láttu fyrst athuga heyrnina og sjónina hjá barninu til þess að útiloka þá möguleika. Farðu síðan með barnið í greiningu hjá sérfræðingi. * Ef barnið þitt á við námsörðugleika að stríða þarf það á stuðningi þínum að halda. Mundu að þó að barn eigi í námsörðugleikum hefur það ekkert með greind þess að gera.

Nýttu þér alla þá hjálp og aðstoð sem skóli barnsins veitir, eins og sérkennslu. Tryggðu þér samvinnu kennarans. Ef til vill gæti barnið fengið leyfi til þess að sitja fremst í kennslustofunni og fengið lengri tíma til þess að klára verkefnin sín. Kennarinn gæti gefið barninu bæði skriflegar og munnlegar leiðbeiningar og leyft því að taka munnleg próf. Börn, sem eiga í námsörðugleikum, eru oft gleymin og óskipulögð, svo að það gæti verið gott fyrir þau að hafa aukaeintök af námsbókum heima fyrir. Hægt væri að fá aðgang að tölvu með ritvilluvörn til að nota í kennslustofunni eða fyrir heimaverkefni.

Hafið stuttar daglegar lestrarstundir. Best er fyrir lesblinda að æfa sig upphátt þannig að foreldrar geti komið með ábendingar og leiðréttingar. Lestu fyrst upphátt fyrir barnið og láttu það fylgjast með. Lesið svo textann upphátt saman. Láttu síðan barnið lesa. Notaðu reglustiku undir hverja línu sem lesin er og merktu við erfið orð með áherslupenna. Þessi æfing þarf ekki að taka meira en 15 mínútur á dag.

Stærðfræði er hægt að kenna við dagleg störf, eins og þegar verið er að mæla í uppskriftir, nota málband við trésmíðar eða þegar farið er að versla. Rúðustrikuð blöð og skýringarmyndir gætu komið að gagni þegar verið er að leysa stærðfræðiverkefni. Til að æfa skrift er gott að nota breiða blýanta og bækur með stóru línubili. Hægt er að nota segulstafi á málmplötu til að hjálpa barninu að stafa.

Það eru einnig til gagnlegar aðferðir til að takast á við athyglisbrest og ofvirkni hjá börnum. Náðu augnsambandi við barnið áður en þú byrjar að tala við það. Sjáðu til þess að barnið hafi frið á meðan það er að læra heima, og leyfðu því að taka hlé þegar þess þarf. Virkjaðu hreyfiþörf barnsins með því að fela því ýmis verkefni sem útheimta hreyfingu.

Barnið getur lært

Hjálpaðu barninu að byggja upp sínar sterku hliðar með því að hvetja það og örva til nota þá hæfileika sem það hefur. Fyrir hvert vel unnið verk, hversu lítið sem það kann að vera, skaltu hrósa og umbuna. Skiptu stærri verkefnum niður í smærri og viðráðanlegri einingar svo að barnið upplifi þá ánægju að hafa náð árangri. Notaðu myndir eða skýringarteikningar til að sýna fram á hvernig barnið geti leyst verkefni og lokið við þau.

Það skiptir miklu máli fyrir barn að ná tökum á lestri, skrift og reikningi. Þú getur verið viss um að með hjálp þinni og hvatningu getur barnið lært — það gæti bara þurft örlítið lengri tíma og aðrar aðferðir en flestir nota.

[Neðanmáls]

^ Oft eru börn, sem eiga við námsörðugleika að stríða, einnig með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) sem lýsir sér í skertri einbeitingu, hvatvísi og mikilli hreyfiþörf. Sjá Vaknið! á ensku, 22. febrúar 1997, bls. 5-10.

^ Það er þrisvar sinnum algengara að strákar séu greindir með lesblindu og ofvirkni en stelpur.

[Rammagrein á blaðsíðu 11]

NÁMSÖRÐUGLEIKAR NÝTTIR TIL GÓÐRA VERKA

Peter er vottur Jehóva. Hann er lesblindur en boðar fagnaðarerindið í fullu starfi. Hann segir: „Þegar ég horfði á orð á blaði virtust þau renna saman í einn ruglingslegan hrærigraut. Þetta gat allt eins verið skrifað á framandi tungumáli. Orðin sögðu mér ekkert þar til einhver las þau upphátt fyrir mig. Kennurunum fannst ég latur eða sýna virðingarleysi og þeir héldu að ég væri ekki einu sinni að reyna að hlusta í kennslustundum. Það var fjarri sannleikanum. Ég var að hlusta og lagði mig allan fram, en ég gat bara ekki tileinkað mér aðferðirnar við að lesa og skrifa. Aðrar námsgreinar, eins og stærðfræði, lágu vel fyrir mér. Sem krakki lærði ég fljótlega að einbeita mér að íþróttum, iðngreinum, listgreinum og hverju öðru sem fól í sér að ég gat notað hendurnar, bara ef það hafði ekkert með lestur og skrift að gera.

Síðar ákvað ég að vinna með höndunum, svo að ég gerðist iðnaðarmaður. Það hefur orðið til þess að ég hef fimm sinnum fengið að vinna við alþjóðlegar byggingarframkvæmdir á vegum Votta Jehóva. Vegna þess að ég þarf að leggja mikið á mig við að lesa man ég yfirleitt það sem ég les. Þetta kemur mér að miklu gagni sem biblíunemanda, sérstaklega í boðunarstarfinu. Þannig að í staðinn fyrir að láta námsörðugleikana hindra mig nýti ég þá til góðra verka“.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Börn geta verið mjög leikin í að „teikna minnispunkta“ um leið og þau hlusta gaumgæfilega.