Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

◼ „Rekja má 100 milljón dauðsföll á tuttugustu öldinni til tóbaksnotkunar.“ — ALÞJÓÐAHEILBRIGÐISMÁLASTOFNUNIN, SVISS.

◼ „Gerð var könnun á næstum 9000 sjúklingum sem gengust undir hjartaaðgerð í [Bretlandi] á árunum 1996 til 2003. Hún leiddi í ljós að ef sjúklingum var gefið rauðkornaþykkni voru þrisvar sinnum meiri líkur á að þeir dæju innan árs frá aðgerðinni en þeir sem ekki fengu rauðkornaþykkni og sex sinnum meiri líkur á að þeir dæju innan 30 daga eftir aðgerð.“ — NEW SCIENTIST, BRETLAND.

Hátíð friðar?

„Jólin eru ein stærsta hátíð okkar,“ en þau eru líka „tími átaka,“ segir í Vi Föräldrar, sænsku tímariti fyrir foreldra. Staðreyndin er sú að á jólum „rífast og þrátta [fjölskyldur] meira en á nokkrum öðrum árstíma“. Rætt var við rúmlega 1100 foreldra ungra barna og spurt um reynslu þeirra yfir hátíðarnar. Um 88 prósent sögðu að fjölskyldan hefði þráttað yfir því „hvar og hvernig ætti að halda jólin“. Margir eru líka ósáttir vegna þess að afar og ömmur spilla barnabörnunum með sælgæti og óþarfa gjöfum.

Sælla er að gefa

„Peningar gera mann hamingjusaman — ef maður gefur þá.“ Þannig hljóðaði fyrirsögn í kanadíska dagblaðinu The Globe and Mail. Flestir sem rætt var við töldu að það gæfi þeim meiri gleði að eyða peningum í sjálfan sig. Hins vegar kom í ljós að þeir sem notuðu peninga til að hjálpa öðrum urðu í raun hamingjusamari — óháð upphæðinni. „Hver rannsóknin á fætur annarri hefur sýnt að auðlegð er ekki mælikvarði á hamingju,“ segir dagblaðið. „Um leið og fólk hefur næga peninga til að fullnægja brýnustu þörfum fær það ekki mikið út úr því að eignast meira.“

Hægt er að kaupa það á Netinu

Í tímaritinu New Scientist segir að bandarísk stjórnvöld hafi ákveðið að athuga hvort hugsanlegir óvinir gætu notað Netið til að „komast yfir búnað sem einungis [bandaríski] herinn má hafa aðgang að“. „Menn undruðust hve auðvelt það var.“ Hægt var að nota þekkta sölu- og uppboðsvefi til að kaupa „brynvörn frá bandaríska hernum, . . . notaðan hlífðargalla gegn kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum“, varahluti í herþotur og „ýmislegt fleira sem einungis herinn má hafa aðgang að“. Ekki er vitað hvernig seljendurnir komust yfir þennan búnað en margir þeirra „sæta nú lögreglurannsókn“, segir í tímaritinu.

Fornt ofurlím

Til forna voru skrúðgönguhjálmar rómverskra embættismanna skreyttir með lárviðarlaufi úr silfri. Til þess var notað límkennt efni sem hefur sömu eiginleika og nútíma ofurlím. Frank Willer, yfirforvörður við Rhineland-safnið í Bonn í Þýskalandi, gerði þessa uppgötvun fyrir slysni. Hann var að nota fíngerða sög til að taka sýnishorn af járnhjálmi frá fyrstu öld f.Kr., en hjálmurinn hafði legið á botni Rínar í að minnsta kosti 1500 ár. „Silfurskreytingin flagnaði af hjálminum vegna hitans af söginni og eftir sat ögn af lími sem myndaði eins konar þræði,“ segir hann. Eftir greiningu kom í ljós að þetta haldgóða lím var gert úr jarðbiki, hrátjöru og nautafitu.