Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lesblinda hefur ekki hamlað mér

Lesblinda hefur ekki hamlað mér

Lesblinda hefur ekki hamlað mér

Michael Henborg segir frá

Ég á við námsörðugleika að stríða — ég er lesblindur. Sama er að segja um foreldra mína og þrjá yngri bræður. Vegna lesblindunnar hef ég átt erfitt með að lesa móðurmál mitt, dönskuna. Skólagangan reyndist mér heilmikil barátta. En ég hef fengið mikla hjálp og hvatningu, sérstaklega frá fjölskyldunni.

FJÖLSKYLDA mín hefur verið í söfnuði votta Jehóva í fjóra ættliði. Lestur hefur alltaf verið stór þáttur í lífi okkar, sérstaklega lestur í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Við Flemming, yngri bróðir minn, vorum líka vanir að fara með pabba að boða fagnaðarerindið en þá var mikilvægt að vera vel læs og skrifandi.

Sem barn las ég öll tölublöð af Varðturninn og Vaknið! Það tók mig allt að 15 klukkustundir að lesa eitt blað! Þar að auki réðst ég í það stórvirki að lesa alla Biblíuna. Ég fór einnig í Boðunarskólann sem er haldinn í söfnuðum Votta Jehóva um allan heim. Í skólanum eru nemendur þjálfaðir í lestri og framsögn og að halda ræður frammi fyrir hópi áheyrenda. Allt þetta hefur hjálpað mér ómetanlega í baráttunni sem fylgir lesblindunni. Mig óraði hins vegar ekki fyrir þeim krefjandi verkefnum sem biðu mín. Ég ætla að útskýra nánar hvernig stóð á því.

Enskunám

Árið 1988, þegar ég var 24 ára, gerðist ég brautryðjandi eins og við köllum þá sem boða trúna í fullu starfi. Þar sem margir innflytjendur búa í Danmörku langaði mig til að segja þeim frá sannleika Biblíunnar. En til að geta gert það á árangursríkan hátt þurfti ég að læra ensku. Það var ekkert áhlaupaverk. En með seiglu og einkatímum fór mér smám saman fram. Með tímanum gat ég boðað fagnaðarerindið enskumælandi útlendingum í Kaupmannahöfn þar sem ég bjó. Ég gerði að vísu margar málvillur en ég lét það ekki á mig fá.

Enskukunnátta mín gerði mér kleift að vinna sem sjálfboðaliði við byggingarframkvæmdir hjá Vottum Jehóva í ýmsum löndum. Fyrst var ég sendur til Grikklands og seinna vann ég við að reisa deildarskrifstofuna í Madríd á Spáni.

Mig langaði til að taka meiri þátt í boðunarstarfinu. Ég sótti því um inngöngu í Þjónustuþjálfunarskólann sem Vottar Jehóva reka. Í skólanum er veitt átta vikna sérþjálfun fyrir einhleypa votta sem eru fúsir til að fara á staði þar sem vantar fleiri boðbera fagnaðarerindisins. (Markús 13:10) Mér var boðið að sækja námskeið sem halda átti á ensku í Svíþjóð.

Námskeiðið hófst 1. september 1994. Mig langaði til að vera vel undirbúinn. Ég lærði því ensku í fjórar klukkustundir daglega í um það bil átta mánuði og fór í enskumælandi söfnuð. Þegar ég byrjaði í skólanum var ég staðráðinn í að láta ekki lesblinduna hindra mig í því að taka framförum. Þegar kennarinn varpaði fram spurningum rétti ég oft upp höndina þó að ég væri ekki alltaf viss um hvaða orð ætti að nota. Eftir útskriftina var mér falið að starfa sem brautryðjandi í Kaupmannahöfn. Það hafði verið mjög erfitt fyrir mig að læra ensku en jafnvel enn erfiðari verkefni biðu mín.

Nám í tamíl

Í desember 1995 var ég sendur til tamílmælandi safnaðar í bænum Herning á Jótlandi. Mér fannst að tamíl hlyti að vera erfiðasta tungumál í heimi. Í því er 31 bókstafur og einnig samsett tákn sérhljóða og samhljóða þannig að rittáknin eru næstum 250 þegar allt er talið!

Í byrjun flutti ég ræður mínar í söfnuðinum á dönsku og þær voru túlkaðar á tamíl. Þegar ég fór loksins að flytja þær á tamíl efast ég um að nokkur hafi skilið mig. Áheyrendur hlustuðu samt kurteislega þó að sumum virtist nokkuð skemmt. Til þess að ég gæti lært hraðar ákvað ég að fara til Srí Lanka þar sem milljónir manna tala tamíl.

Þegar ég kom til Srí Lanka í október 1996 voru mikil umbrot í landinu vegna borgarastyrjaldar. Um tíma bjó ég í bænum Vavuniya sem var á átakasvæði milli tveggja stríðandi hópa. Vottarnir á staðnum höfðu lítið handa á milli en kærleikur þeirra og gestrisni var þeim mun meiri. Þeir lögðu mikið á sig til að kenna mér tamíl. Þeim sem ekki voru vottar þótti mikið til koma að ég, eini Vesturlandabúinn á svæðinu, skyldi reyna að ræða við þá á þeirra eigin tungu. Ég átti auðveldara með að tala við þá um Biblíuna vegna þess hve þakklátir og lítillátir þeir voru.

Í janúar 1997 varð ég að snúa aftur heim til Danmerkur. Árið eftir giftist ég Camillu en hún var brautryðjandi. Mig langaði til að fara aftur til Srí Lanka og í desember 1999 varð það úr. Í þetta sinn fór ég auðvitað með eiginkonu minni. Áður en langt um leið héldum við biblíunámskeið með mörgum fjölskyldum og einstaklingum og fórum einnig með öðrum vottum til biblíunemenda þeirra. Við sökktum okkur niður í boðunarstarfið og tungumálanámið.

Í mars árið 2000 urðum við að fara til Danmerkur. Það var mjög erfitt að skilja við vottana og biblíunemendurna. Okkur var farið að þykja svo vænt um þá. En meiri vinna var fram undan hjá okkur, meðal annars að læra enn eitt tungumálið!

Úr tamíl yfir í lettnesku

Í maí 2002 var okkur Camillu boðið að starfa sem trúboðar í Lettlandi en þá höfðum við verið gift í fjögur ár. Camilla var fljót að læra lettnesku. Hún gat haft tjáskipti við fólk eftir aðeins sex vikur! En mér gekk ekki eins vel. Satt best að segja finnst mér allt fram á þennan dag að mér hafi lítið farið fram þrátt fyrir alla hjálpina sem ég hef fengið. Ég er samt ákveðinn í að halda áfram að læra lettneskuna! *

Camilla er mér stoð og stytta. Við njótum þess bæði að starfa sem trúboðar. Við höfum kennt fjölda fólks sannleika Biblíunnar og hlotið þakklæti fyrir. Þegar ég man ekki orð eða beygi þau ekki rétt reyna vottarnir og biblíunemendurnir með góðum vilja að skilja mig og koma mér til hjálpar. Þetta eykur sjálfstraustið þegar ég er í boðunarstarfinu og líka þegar ég flyt ræður á safnaðarsamkomum.

Hvers vegna hef ég lagt svona mikið á mig við að læra önnur tungumál fyrst mér veitist það býsna erfitt? Í stuttu máli sagt vegna kærleikans. Það er ekki vegna þess að mér þyki sérlega gaman að læra tungumál heldur þykir mér svo vænt um fólk. Það er mikill heiður að hjálpa öðrum að kynnast hinum eina sanna Guði, Jehóva, og nálgast hann. Og eins og margir trúboðar hafa oft upplifað er hægt að ná miklu meiri árangri þegar talað er við aðra á móðurmálinu, málinu sem snertir hjarta þeirra.

Í áranna rás höfum við hjónin getað hjálpað fjölda fólks til að fá nákvæma þekkingu á sannleika Biblíunnar. Við getum samt ekki þakkað sjálfum okkur það. Öllu heldur þökkum við Jehóva fyrir árangurinn sem við höfum orðið vitni að. Þegar allt kemur til alls gerum við ekkert annað en að gróðursetja og vökva fræ sannleikans en það er Guð sem gefur vöxtinn. — 1. Korintubréf 3:6.

Hindrun getur haft sína kosti

Þótt lesblindan hafi verið mér til trafala á sinn hátt hefur hún einnig sína kosti. Þegar ég flyt til dæmis ræður í söfnuðinum styðst ég minna við skrifaðan texta og hef þess vegna betra augnsamband við áheyrendur. Ég nota líka myndir til hins ýtrasta en þær er tiltölulega auðvelt að muna. Að vissu leyti hefur því lesblindan orðið til þess að ég hef orðið hæfari kennari.

Páll postuli skrifaði: „Guð hefur útvalið . . . hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða.“ (1. Korintubréf 1:27) Lesblindan hefur sannarlega gert mig ‚veikan‘ að vissu leyti. En eins og ég og margir aðrir hafa komist að raun um getur Jehóva bætt upp það sem á vantar og meira en það. Við þurfum bara að setja okkur raunhæf markmið, vera hógvær í væntingum okkar, biðja um heilagan anda Guðs og reyna að framkvæma það sem hugur okkar stendur til.

[Neðanmáls]

^ Michael og Camilla störfuðu í Lettlandi í sex ár en voru send til Ghana meðan verið var að búa þessa grein til prentunar.

[Rammagrein á blaðsíðu 22]

UM LESBLINDU

Hvað er lesblinda? Orðið „lesblinda“ er þýðing á erlenda orðinu „dyslexia“ en það er komið úr grísku og felur í sér erfiðleika með orð, mál eða tal. Lesblinda er málfarslegir erfiðleikar, sérstaklega í lestri, og eldist ekki af fólki. Þeir sem eru lesblindir eiga erfitt með að tengja bókstaf hljóði. Tiltekin einkenni geta þó verið mismunandi hjá einstaklingum.

Hvað veldur lesblindu? Orsakir lesblindu eru enn óljósar en vitað er að einn þátturinn er arfgengi. Þrátt fyrir að rannsóknir á lesblindu bendi til frávika í þroska og virkni heila tengist hún hvorki almennri greind né áhugaleysi til náms. Lesblindir eru oft hæfileikaríkir á sviðum sem reyna ekki á færni í málnotkun.

Hvaða aðferðir eru notaðar? Það er mikilvægt að greina lesblindu snemma. Með því að nota nokkrar skynleiðir, sérstaklega heyrn, sjón og snertingu, má ná góðum árangri í að þjálfa málnotkun hjá lesblindum. Margir þeirra þurfa einstaklingskennslu svo að þeir geti tekið framförum á eigin hraða. Þeir gætu einnig þurft hjálp til að takast á við tilfinningaleg mál sem erfiðleikar í skóla geta leitt til. Með góðri handleiðslu og mikilli vinnu geta lesblindir orðið vel læsir og skrifandi. *

[Neðanmáls]

^ Upplýsingarnar hér að ofan eru byggðar á efni frá Alþjóðasamtökum lesblindra. Sjá einnig greinina „Að hjálpa börnum sem eiga í námsörðugleikum“ hér í blaðinu.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Með trúbróður á Srí Lanka.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Með Camillu í Lettlandi.