Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tungumál sem er flautað — snjöll leið til að „tala“

Tungumál sem er flautað — snjöll leið til að „tala“

Tungumál sem er flautað — snjöll leið til að „tala“

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í MEXÍKÓ

Í fjalllendi Oaxaca í Mexíkó hafa innfæddir íbúar, sem tilheyra Mazatec-þjóðflokknum, hvorki heimilis- né farsíma. Samt sem áður geta þeir haft samskipti sín á milli í allt að tveggja kílómetra fjarlægð, til dæmis þegar þeir eru að vinna í aflíðandi brekkum þar sem kaffi er ræktað. Hvert er leyndarmál þeirra? Fyrir löngu þróuðu þeir með sér leið til að flauta eða blístra tungumál sitt. Pedro, ungur maður sem tilheyrir þessum þjóðflokki, segir: „Tungumálið mazatec er tónað. Þegar við flautum hermum við eftir tónum og hrynjanda talmálsins. Og við flautum eingöngu með vörunum, notum ekki fingurna.“ *

Fidencio, vinur Pedro, útskýrir hverjir séu kostir þess að geta flautað tungumálið: „Við notum þessa samskiptaleið þegar langt er á milli okkar og yfirleitt eru samtölin stutt. Faðir gæti til dæmis sent son sinn út í búð að kaupa maískökur en gleymt að biðja hann að kaupa tómata. Ef drengurinn er of langt í burtu til að heyra mælt mál getur faðir hans flautað fyrirmælin“.

Stundum flauta vottar Jehóva til að hafa samskipti sín á milli. Pedro útskýrir: „Þegar ég heimsæki einangrað starfssvæði og mig langar til að bjóða bróður að koma með mér þá þarf ég ekki að fara alla leið heim til hans. Ég flauta bara“.

„Til þess að við vitum hver er að ‚tala‘ “ segir Pedro, „þurfum við að persónugera blístrið á einhvern hátt. Venjulega eru það aðeins karlmenn í Mazatec-þjóðflokknum sem flauta tungumálið. Það getur verið að konur skilji tungumálið og noti það jafnvel innan fjölskyldunnar en þær nota það ekki til að hafa samskipti við hvaða karlmann sem er. Það er ekki talið vera við hæfi.“

Mazatec-þjóðflokkurinn er ekki sá eini sem hefur flautað tungumál. Einnig er „flautað“ á Kanaríeyjum, Papúa Nýju Gíneu og í Kína. Dæmigert er að þetta fólk búi í fjalllendi og þéttum skógum. Talið er að um 70 flautuð tungumál séu til og að minnsta kosti 12 hafa verið rannsökuð.

Við getum ekki annað en dásamað sköpunargáfu mannsins. Þegar þessi hæfileiki fer saman við brennandi löngun til að tjá sig, þá er öruggt að eigið ímyndunarafl er það eina sem takmarkar okkur. Og ímyndunaraflinu er næstum engin takmörk sett.

[Neðanmáls]

^ Í einu uppsláttarriti segir: „Með því að breyta hraða, hljómblæ og krafti þegar þeir flauta geta þeir skipst á margvíslegum upplýsingum“.