Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þess vegna létum við ekki eyða fóstri

Þess vegna létum við ekki eyða fóstri

Þess vegna létum við ekki eyða fóstri

VICTORIA, sem nefnd var til sögunnar í fyrstu greininni, sagði Bill, kærastanum sínum, að hún vildi ekki láta eyða fóstri. „Ég fann að ég gekk með lifandi veru,“ segir hún. „Ég vissi að Bill myndi ekki styðja mig á meðgöngunni ef ég byggi með honum áfram svo að ég fór frá honum.“

Seinna skipti Bill um skoðun og bað Victoriu að giftast sér. En tilhugsunin um að annast nýfætt barnið var næstum yfirþyrmandi. „Við vorum bíllaus, peningalaus, fatalítil og áttum ósköp lítið yfirleitt,“ segir Victoria. „Bill var í láglaunavinnu og við bjuggum í félagslegu leiguhúsnæði, en við þraukuðum.“

Margir aðrir hafa lent í erfiðri stöðu vegna þungunar sem ekki var búið að ráðgera en ákváðu samt að láta ekki eyða fóstri. Hvað hjálpaði þeim að vera ákveðin og takast á við álagið sem fylgir því að ala upp barn sem ekki var ætlunin að eignast? Það voru viturleg ráð Biblíunnar.

Flýtið ykkur hægt — gerið raunhæfar áætlanir

„Áform hins iðjusama færa arð en hroðvirkni endar í örbirgð,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 21:5.

Connie átti þrjá drengi og einn þeirra var fatlaður. Tilhugsunin um enn eitt barn var yfirþyrmandi. „Okkur vantaði ekki eitt barn í viðbót til að ala og annast, þannig að við íhuguðum fóstureyðingu,“ segir hún. En í stað þess að ákveða sig í fljótræði trúði hún Kay, vinnufélaga sínum, fyrir vandræðunum sem hún átti í. Kay leiddi henni fyrir sjónir að hún bæri ófædda mannveru undir belti og þá sá hún hlutina í nýju ljósi.

En Connie þurfti aðstoð við að skipuleggja málin. Hún átti móðursystur sem bjó á svæðinu og Kay stakk upp á að hún setti sig í samband við hana. Frænkan var meira en fús til að verða að liði. Eiginmaður Conniear bætti við sig vinnu og þau fluttu í ódýrari íbúð. Þannig tókst þeim að sjá fyrir nýja barninu.

Kay hjálpaði Connie einnig að finna aðila sem hjálpa fólki að bregðast við óráðgerðum barneignum. Víða um lönd eru starfandi samtök og stofnanir sem hjálpa nýjum mæðrum sem eru hjálparþurfi. Hægt er að finna þær með hjálp Netsins eða í símaskrá. Það getur kostað töluverða vinnu að leita sér aðstoðar en það eru „áform hins iðjusama“ sem skila árangri.

Horfist í augu við að nýtt líf er orðið til

Í Biblíunni stendur: „Vitur maður hefur augun hjá sér en heimskinginn gengur í myrkri.“ — Prédikarinn 2:14.

Vitur og skynsöm kona lokar ekki augunum fyrir veruleikanum. Hún gengur ekki í myrkri ef svo má að orði komast. Hún „hefur augun hjá sér“ þannig að þau þjóna vitsmunum hennar. Það gerir henni kleift að vega og meta nákvæmlega afleiðingar gerða sinna. Vitur kona sýnir umhyggju og reynir að vernda fóstrið í kviði sér, ólíkt þeim sem horfast ekki í augu við veruleikann heldur loka augunum fyrir því sem er að gerast.

Stúlka, sem heitir Stephanie, var komin tvo mánuði á leið og var að íhuga að láta eyða fóstri. Þá fékk hún að sjá ómmynd af barninu sem hún bar undir belti. „Ég brast í grát,“ segir hún. „Af hverju ætti ég að deyða lifandi veru, hugsaði ég með mér.“

Denise, önnur ógift ung kona, horfðist líka í augu við að hún bæri lifandi mannveru undir belti. Þegar kærastinn hennar lét hana fá peninga og sagði henni að „afgreiða málið“ svaraði hún: „Meinarðu að ég láti eyða fóstri? Það kemur ekki til greina.“ Hún vildi ekki deyða barnið sem hún gekk með.

Ótti við menn getur haft áhrif

Ef þrýst er á konu að binda enda á þungun og hún íhugar að gera það væri skynsamlegt af henni að hugleiða eftirfarandi spakmæli Biblíunnar: „Ótti við menn leiðir í snöru en þeim er borgið sem treystir Drottni.“ — Orðskviðirnir 29:25.

Monica var 17 ára og í þann mund að hefja nám í verslunarskóla þegar hún varð ófrísk eftir kærastann sinn. Móðir hennar, ekkja með fimm börn, var alveg miður sín. Hún hafði hugsað sér að dóttirin gengi menntaveginn svo að hún þyrfti ekki að búa við fátækt alla ævi. Í örvæntingu krafðist hún þess að Monica léti eyða fóstrinu. „Þegar læknirinn spurði hvort ég vildi fara í fóstureyðingu svaraði ég neitandi,“ segir Monica.

Móðir Monicu vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Bjartar framtíðarhorfur dótturinnar virtust vera að renna út í sandinn og það yrði einu barninu fleira með tilheyrandi álagi. Hún neyddi því Monicu til að flytja að heiman. Monica fékk inni hjá móðursystur sinni en nokkrum vikum síðar dró mamma hennar í land og leyfði henni að koma aftur heim til að eignast barnið. Móðirin hjálpaði henni að annast Leon eftir að hann fæddist og fékk mikla ást á litla drengnum.

Robin, sem var gift kona, varð líka fyrir þrýstingi en úr allt annarri átt. „Þegar ég varð ófrísk þurfti ég að gangast undir meðferð vegna nýrnasýkingar,“ segir hún, „en það var ekki kannað fyrir fram hvort ég væri ófrísk. Mér var sagt að það væru talsverðar líkur á að barnið yrði alvarlega þroskaheft.“ Læknirinn hvatti hana til að láta eyða fóstrinu. „Ég skýrði fyrir honum afstöðu Biblíunnar til lífsins og sagði honum að fóstureyðing kæmi ekki til greina,“ segir hún.

Þó að áhyggjur læknisins væru skiljanlegar var Robin ekki í lífshættu. * „Þegar dóttir mín fæddist og hún var rannsökuð kom í ljós að hún var aðeins lítillega þroskaheft og með væga heilalömun,“ segir Robin. „Hún þroskast ágætlega. Hún er orðin 15 ára og tekur stöðugum framförum í lestri. Hún er mér ákaflega mikils virði og ég þakka Jehóva oft á dag fyrir að hafa eignast hana.“

Vináttusamband við Guð hefur sterk áhrif

Í Biblíunni segir: „Jehóva er vinur þeirra sem óttast hann.“ — Sálmur 25:14, American Standard Version.

Afstaða margra sem vilja ekki láta eyða fóstri mótast af því hvaða augum skaparinn lítur á málið. Þeim er mikið í mun að eiga vináttu Guðs og gera það sem hann hefur þóknun á. Þetta sjónarmið hafði sterk áhrif á Victoriu sem nefnd er í byrjun greinarinnar. „Ég var sannfærð um að lífið væri gjöf frá Guði,“ segir hún, „og ég hafði engan rétt til að taka lífið sem hann hafði gefið.“

Þegar Victoria fór að kynna sér Biblíuna fyrir alvöru styrktust vináttutengslin við Guð. „Sú ákvörðun að eiga barnið hafði þau áhrif að mér fannst ég nátengdari Guði,“ segir hún, „og mig langaði til að þóknast honum á öllum sviðum lífsins. Þegar ég bað um leiðsögn hans gekk allt annað upp.“

Vináttusamband við Guð, sem er uppspretta lífsins, eykur virðingu okkar fyrir lífi sem er kviknað í móðurkviði. (Sálmur 36:10) Auk þess getur Guð gefið verðandi móður og fjölskyldu hennar kraft til að takast á við þá áskorun sem fylgir því að eignast barn sem ekki var búið að ráðgera. (2. Korintubréf 4:7) Hvernig líta þeir sem virtu afstöðu Guðs til lífsins á ákvörðun sína þegar þeir líta um öxl?

Engin eftirsjá

Foreldrar, sem hafa virt afstöðu Guðs, þjást ekki af sektarkennd, sorg eða söknuði sem þeir geta ekki losnað við. Þeir gerðu sér að lokum grein fyrir því að „ávöxtur móðurlífsins“ var blessun en ekki bölvun. (Sálm. 127:3) Connie, sem áður er nefnd, viðurkenndi það aðeins tveim klukkustundum eftir að hún fæddi. Hún hringdi í Kay, vinnufélaga sinn, til að segja henni hve spennt hún væri að ala upp litlu stúlkuna sína. Hún bætti við, yfir sig glöð: „Það er hverju orði sannara að Guð blessar þá sem gera það sem hann hefur velþóknun á.“

Það er í alla staði til góðs að virða sjónarmið Guðs til lífsins. Hann er uppspretta lífsins og lög hans og reglur, sem er að finna í Biblíunni, eru sett til þess að okkur „vegni vel“. — 5. Móserbók 10:13.

Victoria og Bill, sem sagt er frá í upphafi þessarar greinar og þeirrar fyrstu í blaðinu, segja að það hafi orðið þáttaskil í lífi þeirra þegar þau ákváðu að láta ekki eyða fóstri. „Við vorum á kafi í fíkniefnum og hefðum sennilega dáið ef við hefðum haldið neyslunni áfram,“ segja þau. „En virðingin fyrir lífi ófædda barnsins varð til þess að við fórum að hugsa okkar gang. Við breyttum okkur með hjálp votta Jehóva.“

Sonur þeirra, sem heitir Lance, er 34 ára og hefur verið giftur í 12 ár. „Foreldrar mínir kenndu mér allt frá bernsku að byggja ákvarðanir mínar á Biblíunni,“ segir hann. „Þetta hefur verið til góðs fyrir mig, konuna mína og barnið okkar, og við gætum ekki verið hamingjusamari.“ Pabbi hans, sem vildi í fyrstu að Victoria léti eyða fóstri, segir: „Okkur hryllir við þegar við hugsum til þess hve litlu munaði að við eignuðumst ekki þennan ástkæra son.“

Víkjum aftur að Monicu sem ákvað að láta ekki eyða fóstri þrátt fyrir þrýsting frá mömmu sinni. Hún segir: „Hálfum mánuði eftir að drengurinn fæddist komst ég í samband við votta Jehóva og þeir kenndu mér að lifa í samræmi við lög Guðs. Ég byrjaði fljótlega að kenna Leon gildi þess að hlýða Guði, og hann lærði smám saman að elska Guð. Núna er hann farandumsjónarmaður hjá Vottum Jehóva.“

Leon hugsar til þeirrar ákvörðunar sem móðir hans tók og segir: „Ég vissi að henni þótti svo vænt um mig að hún leyfði mér að lifa þrátt fyrir að þrýst væri á hana. Þess vegna langaði mig til að nota líf mitt eins vel og ég gæti til að sýna hve þakklátur ég væri Guði fyrir þessa stórkostlegu gjöf.“

Margir hafa tileinkað sér sjónarmið Guðs til lífsins og sjá ekki eftir því að hafa átt barnið sem þeim þykir svo innilega vænt um núna. Þeir geta sagt fullir þakklætis: „Við létum ekki eyða fóstrinu!“

[Neðanmáls]

^ Ef velja þarf milli lífs móður og barns í fæðingu er það í verkahring þeirra sem eiga hlut að máli að taka ákvörðun um það. Sú staða er hins vegar afar sjaldgæf sökum þeirra framfara sem orðið hafa í læknisfræði víða um lönd.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Stephanie sá ómmynd af barni sínu þegar hún var komin tvo mánuði á leið. Það hjálpaði henni að ákveða sig.

(Útlínur teiknaðar inn á)

[Mynd á blaðsíðu 8]

Victoria og Lance.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Victoria og Bill ásamt Lance og fjölskyldu.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Monica og Leon, sonur hennar, eru innilega þakklát fyrir að hún skyldi ekki láta undan þrýstingi og eyða fóstri fyrir 36 árum.