Hvernig líður skjaldkirtlinum?
Hvernig líður skjaldkirtlinum?
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í BRASILÍU
SARA var harmi slegin að missa fóstur snemma á meðgöngunni. Um ári síðar missti hún fóstur á nýjan leik. Hún gekkst undir nokkrar læknisrannsóknir án þess að orsökin fyndist. Árin liðu og Sara fór að þyngjast, þó svo að hún fylgdist vel með mataræðinu og stundaði reglulega líkamsrækt. Hún fór að finna fyrir krampa í fótleggjum og varð kulsæknari. Blóðrannsókn og ómskoðun á skjaldkirtlinum leiddu að lokum í ljós að hún var með sjúkdóm sem kallast skjaldkirtilsbólga Hasimotos. Hugsanlega var það orsökin fyrir því að hún missti fóstur. *
Sara hafði ekki haft áhyggjur af skjaldkirtlinum frekar en flestir. Það sýndi sig hins vegar þegar heilsunni hrakaði hve mikilvægu hlutverki þessi kirtill gegnir.
Skjaldkirtillinn
Skjaldkirtillinn liggur framan í hálsinum rétt fyrir neðan barkakýlið. Hann er gerður úr tveim blöðum sem vefjast utan um barkann. Hann er smár, aðeins um 20 grömm að þyngd, og lögunin minnir á fiðrildi. Hann er hluti af innkirtlakerfi líkamans en þar er átt við safn líffæra og vefja sem framleiða, geyma og seyta hormónum, sem eru efnaboðberar líkamans, beint út í blóðrásina.
Í skjaldkirtlinum er aragrúi af smáum kirtilblöðrum. Í þeim er seigfljótandi vökvi sem inniheldur skjaldkirtilshormónin. Mikið er af joði í þessum hormónum. Næstum 80 prósent af öllu joði líkamans er í skjaldkirtlinum. Vanti joð í fæðuna getur það leitt til þess að skjaldkirtillinn stækki og myndi svokallaðan skjaldkepp. Joðskortur hjá ungum börnum getur valdið því að það dragi úr framleiðslu hormóna, og það hefur síðan í för með sér að líkami, heili og kynfæri þroskast ekki eðlilega. Þá er talað um dverg- eða kyrkivöxt.
Skjaldkirtilshormón að verki
Skjaldkirtilshormónin eru nefnd T3, RT3 og T4. * Bæði T3 og RT3 eru mynduð af T4, og ummyndunin á sér að mestu leyti stað í vefjum utan skjaldkirtilsins. Þegar líkaminn þarfnast meiri skjaldkirtilshormóna seytir kirtillinn T4 út í blóðrásina þannig að það og afleiður þess geta haft áhrif á alla vefi líkamans.
Skjaldkirtilshormónin stjórna því hve hröð efnaskipti líkamans eru, það er að segja efnahvörfin í frumunum sem mynda orku og nýja vefi. Það má líkja þessum hormónum við bensíngjöfina í bíl sem ræður snúningshraða vélarinnar. Skjaldkirtilshormónin stjórna sem sagt hjartslætti, eðlilegum vexti og viðgerðum á vefjum líkamans. Þau halda uppi framleiðslu á orku handa vöðvunum og viðhalda líkamshita.
Skjaldkirtilshormónin hafa önnur mikilvæg hlutverk. Þau hjálpa til dæmis lifrinni að fjarlægja úr blóðinu umframmagn af þríglyseríði og lágþéttnifituprótínum, svokölluðu slæmu kólesteróli. Kólesterólið flyst yfir í gallið og þaðan fer það út í hægðirnar. Ef skjaldkirtillinn framleiðir of lítið hormón getur það hins vegar valdið hækkun á slæmu kólesteróli og lækkun á háþéttnifituprótínum, það er að segja góðu kólesteróli.
Skjaldkirtilshormónin hraða seytingu meltingarvökva í maga og þörmum og einnig taktföstum samdrætti meltingarfæranna (iðrahreyfingum). Of mikið af skjaldkirtilshormónum getur því valdið niðurgangi en of lítið hægðatregðu.
Hvað stjórnar skjaldkirtlinum?
Það er undirstúka heilans sem stjórnar skjaldkirtlinum. Þegar undirstúkan uppgötvar að líkamann vanti skjaldkirtilshormón sendir hún boð til heiladingulsins en hann situr neðan á heilanum ofan við munnholið. Heiladingullinn myndar hormón sem nefnist skjaldvakakveikja og seytir því út í blóðið til að gefa skjaldkirtlinum merki um að hefjast handa.
Með því að mæla hve mikið er af skjaldvakakveikju og skjaldkirtilshormónum í blóðinu er hægt að kanna hvernig skjaldkirtillinn starfar og hvernig hann er á sig kominn. Það er mikilvægt því að annars getur margt farið úrskeiðis.
Þegar skjaldkirtillinn er ekki í lagi
Ýmislegt getur orðið til þess að skjaldkirtillinn virki ekki sem skyldi. Má þar nefna of lítið joð í fæðunni, líkamlegt eða andlegt álag, erfðagalla, sýkingar, sjúkdóma (oftast sjálfsofnæmissjúkdóma) eða aukaverkanir af lyfjum sem gefin eru við ýmsum sjúkdómum. * Stækki skjaldkirtilinn og myndi skjaldkepp getur það bent til sjúkdóms. Stækkunin getur verið í kirtlinum öllum eða það myndast hnúðar í honum. Slík stækkun er yfirleitt góðkynja en engu að síður ætti að leita læknis því að stækkunin getur verið vísbending um alvarlegri kvilla, svo sem krabbamein. *
Ef skjaldkirtillinn starfar ekki eðlilega er oftast um það að ræða að hann framleiði of mikið hormón eða of lítið. Offramleiðsla er nefnd skjaldvakaeitrun en of lítil framleiðsla er kölluð skjaldvakabrestur. Oft er þó einfaldlega talað um ofvirkan eða vanvirkan skjaldkirtil. Skjaldkirtilssjúkdómar geta komið fram smám saman án þess að fólk taki eftir því. Hægt er að vera með slíkan sjúkdóm árum saman án þess að vita af því. En eins og raunin er með flesta sjúkdóma má búast við að meðferð skili betri árangri ef sjúkdómurinn er greindur snemma.
Algengustu kvillarnir eru skjaldkirtilsbólga Hasimotos og Graves-sjúkdómur, einnig nefndur skjaldkeppseitrun. Báðir sjúkdómarnir eru sjálfsofnæmissjúkdómar, en þeir eru nefndir svo vegna þess að ónæmiskerfi líkamans skynjar
eðlilegar líkamsfrumur sem aðskotaefni og ræðst gegn þeim. Skjaldkirtilsbólga Hasimotos er sexfalt algengari hjá konum en körlum og leiðir venjulega til þess að kirtillinn framleiðir of lítið af hormónum. Graves-sjúkdómur er áttfalt algengari hjá konum en körlum og veldur yfirleitt offramleiðslu á hormónum.Skoðanir eru skiptar á því með hve löngu millibili fólk eigi að gangast undir rannsókn til að kanna starfsemi skjaldkirtilsins en yfirleitt er talið mikilvægt að kanna ástandið hjá nýburum. (Sjá rammagreinina „Mikilvæg rannsókn fyrir nýbura“.) Ef rannsókn sýnir að kirtillinn er vanvirkur er yfirleitt kannað hvort finnist mótefni sem ráðast gegn honum. Ef hins vegar kemur í ljós að skjaldkirtillinn er ofvirkur er yfirleitt gerð myndgreiningarrannsókn, svo framarlega sem sjúklingurinn er ekki barnshafandi eða með barn á brjósti. Ef hnúðar finnast er stundum tekið vefsýni til að ganga úr skugga um að sjúkdómurinn sé ekki illkynja.
Þegar meðferð er nauðsynleg
Ef skjaldkirtill er ofvirkur er hægt með lyfjum að draga úr einkennum, svo sem hröðum hjartslætti, vöðvaskjálfta og kvíða. Önnur meðferð er fólgin í því að eyða frumum í skjaldkirtlinum til að hann framleiði minna af hormónum. Og stundum er kirtillinn fjarlægður með skurðaðgerð.
Ef skjaldkirtill er vanvirkur eða hefur verið fjarlægður ávísar læknir að jafnaði T4 sem taka þarf daglega. Fylgst er vel með sjúklingnum til að ákvarða rétta skammtastærð. Krabbamein í skjaldkirtli er hægt að meðhöndla á ýmsa vegu, til dæmis með lyfjum, skurðaðgerð, lyfjameðferð og geislavirku joði.
Sara tekur nú inn T4, og næringarfræðingur hefur hjálpað henni að skipuleggja mataræðið. Það hefur skilað góðum árangri. Þeir sem eru í sömu sporum og Sara vita að skjaldkirtillinn gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki þótt smár sé. Hugsaðu því vel um skjaldkirtilinn með því að borða hollan mat sem inniheldur nóg af joði. Reyndu að forðast langvinna streitu og gerðu þitt besta til að hugsa vel um heilsuna.
[Neðanmáls]
^ Vanvirkur skjaldkirtill getur valdið vandamálum á meðgöngu. Flestar konur fæða þó heilbrigð börn þrátt fyrir skjaldkirtilssjúkdóm. Hins vegar er afar mikilvægt að móðirin fái hormónagjöf því að fyrst um sinn þarf ófætt barn hennar að fá skjaldkirtilshormón frá henni.
^ T3 stendur fyrir þríjoðþýrónín og T4 fyrir þýroxín. Tölurnar 3 og 4 vísa til þess hver mörg joðatóm eru í hverri sameind hormónsins. Skjaldkirtillinn myndar einnig hormónið kalsítónín sem á þátt í að stjórna magni kalsíums í blóðinu.
^ Vaknið! mælir ekki með ákveðinni læknismeðferð umfram aðra. Ef þig grunar að eitthvað sé að skjaldkirtlinum ættirðu að leita læknis sem er sérhæfður í því að koma í veg fyrir skjaldkirtilssjúkdóma og meðhöndla þá.
^ Hættan á krabbameini er meiri hjá þeim sem hafa gengist undir geislameðferð á höfði eða hálsi, hafa áður fengið krabbamein eða eiga ættingja sem hafa fengið krabbamein í skjaldkirtli.
[Innskot á blasíðu 27]
Skjaldkirtilshormónin stjórna því hve hröð efnaskipti líkamans eru. Það má líkja þeim við bensíngjöfina í bíl sem ræður snúningshraða vélarinnar.
[Innskot á blaðsíðu 29]
Skjaldkirtilssjúkdómar geta komið fram smám saman án þess að fólk taki eftir því. Hægt er að vera með slíkan sjúkdóm árum saman án þess að vita af því.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 28]
ALGENG SJÚKDÓMSEINKENNI
Ofvirkur skjaldkirtill: Óróleiki, ör hjartsláttur, tíðar hægðir, óreglulegar tíðablæðingar, skapstyggð, kvíði, skapsveiflur, útstæð augu, máttleysi í vöðvum, svefnleysi, hárið verður fíngert og stökkt og sjúklingur léttist án sýnilegra orsaka. *
Vanvirkur skjaldkirtill: Líkamlegt og andlegt þróttleysi, hármissir, hægðatregða, kulsækni, óreglulegar tíðablæðingar, þunglyndi, minnisleysi, þreyta, röddin breytist (verður hás eða dýpkar) og sjúklingur þyngist án sýnilegra orsaka.
[Neðanmáls]
^ Sum af þessum einkennum geta átt sér aðrar orsakir. Leitaðu því læknis ef þau gera vart við sig.
[Rammi á blaðsíðu 28]
MIKILVÆG RANNSÓKN FYRIR NÝBURA
Örfáir blóðdropar, sem teknir eru úr nýfæddu barni, geta leitt í ljós hvort skjaldkirtill þess starfar óeðlilega. Ef blóðrannsókn sýnir að eitthvað er að geta læknar gripið til fyrirbyggjandi aðgerða. Skortur á skjaldkirtilshormónum getur heft líkamsvöxt og andlegan þroska barnsins. Þetta er nefnt dverg- eða kyrkivöxtur. Börn fara því yfirleitt í blóðrannsókn fáeinum dögum eftir fæðingu.
[Rammi/mynd á blaðsíðu29]
ER MATARÆÐIÐ Í LAGI?
Rétt mataræði getur dregið úr hættunni á skjaldkirtilssjúkdómum. Líkaminn þarf joð til að framleiða skjaldkirtilshormón. Er nóg af joði í matnum sem þú borðar? Sjávarfiskur og aðrar sjávarafurðir innihalda mikið af þessu þýðingarmikla frumefni. Misjafnt er hve mikið er af því í grænmeti og kjöti. Það fer eftir því hvernig jarðvegurinn er samsettur. Í sumum löndum láta yfirvöld bæta joði í matarsalt ef það skortir í almennri fæðu fólks.
Seleníum er einnig mikilvægt fyrir skjaldkirtilinn. Þetta snefilefni er hluti af ensími sem breytir hormóninu þýroxíni (T4) í þríjoðþýrónín (T3). Það er einnig undir jarðveginum komið hve mikið er af seleníum í grænmeti, kjöti og mjólk. Sjávarafurðir og brasilíuhnetur innihalda mikið af því. Ef þig grunar að eitthvað sé að skjaldkirtlinum skaltu hins vegar leita læknis en ekki reyna að leysa vandann upp á eigin spýtur.
Skýringarmynd á blaðsíðu 28]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
barki
barkakýli
skjaldkirtill
barki