Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leynileg þýðingarvinna í 30 ár

Leynileg þýðingarvinna í 30 ár

Leynileg þýðingarvinna í 30 ár

ONA MOCKUTĖ SEGIR FRÁ

Í aprílmánuði árið 1962 var ég fyrir rétti í borginni Klaipeda í Litháen, ákærð fyrir glæpi gegn samfélaginu. Réttarsalurinn var yfirfullur. Í október árið áður hafði ég verið handtekin og ákærð fyrir trúarstarfsemi sem talin var glæpur gegn Sovétríkjunum. Ég ætla að segja frá því hvað varð til þess að ég var handtekin og mér síðan varpað í fangelsi fyrir leynilega þýðingarvinnu á ritum Votta Jehóva.

ÉG FÆDDIST 1930 í Vestur-Litháen, ekki langt frá Eystrasalti. Áður en ég fæddist hafði mamma beðið fyrir því að barnið hennar yrði nunna. Hún sagði samt einu sinni við mig: „Ég get ekki með nokkru móti beðið frammi fyrir Sankti Pétri eða öðrum lífvana skurðgoðum.“ Minnug þessa forðaðist ég að krjúpa í kirkju þótt ég gerði það frammi fyrir krossi á leiðinni heim úr skóla.

Seinna, meðan heimsstyrjöldin síðari geisaði á árunum 1939 til 1945, varð ég vitni að ólýsanlegri grimmd sem hafði djúpstæð áhrif á mig. Dag einn meðan landið var hernumið af Þjóðverjum var ég að tína ber í skóginum með móðursystur minni. Við gengum þá fram á tvær stórar grafir og sáum nýlegar blóðslettur. Við vissum að hópur Gyðinga hafði skömmu áður verið myrtur, þar á meðal skólasystur mínar Tese og Sara. Við töldum okkur hafa rekist á fjöldagrafirnar þar sem þær voru grafnar. Ég hrópaði agndofa upp yfir mig: „Guð, þú sem ert svo góður! Hvers vegna leyfirðu slík grimmdarverk?“

Ég lauk framhaldsskóla árið 1949 í Klaipeda, nærri heimili okkar. Síðan hélt ég áfram í tónlistarnámi. Árið 1950 slóst ég í hóp stúdenta sem vildu stjórnarfarslegar breytingar og störfuðu í leyni. En fljótlega var komið upp um mig. Ég var tekin föst ásamt tólf öðrum og sett í fangelsi í Klaipeda. Þar hitti ég í fyrsta skipti vott Jehóva.

Ég kynnist sannleika Biblíunnar

Miðaldra konu var ýtt inn í fangaklefann þar sem við vorum. Hún brosti vingjarnlega til okkar kvennanna sjö. Ég spurði hana: „Kæra frú, fangar eru venjulega daprir þegar þeim er varpað í fangelsi en þú brosir! Hvers vegna ert þú hérna, með leyfi að spyrja?

„Vegna sannleikans,“ svaraði hún.

„En hvað er sannleikur?“ spurði ég.

Konan hét Lydia Peldszus. Hún var þýsk og hafði verið tekin föst vegna trúar sinnar sem vottur Jehóva. Við ræddum oft um biblíuleg málefni. Sannindi Biblíunnar, sem Lydia kenndi okkur, breyttu ekki einungis lífi mínu heldur einnig þriggja annarra kvenna sem voru í klefanum með okkur.

Hvernig ég kynntist Biblíunni betur

Ég var dæmd í 25 ára fangelsi vegna þátttöku minnar í neðanjarðarstarfseminni gegn sovéska hernáminu. Þar að auki var ég dæmd í fimm ára útlegð. Ég kynntist Guði og fyrirætlunum hans betur í samvistum við vottana sem ég hitti á fangelsisárunum og í vinnubúðunum í Síberíu. Þessum vottum hafði verið refsað vegna trúar sinnar, líkt og Lydiu.

Samfara því að þekking mín á Biblíunni fór vaxandi á þessum árum talaði ég við aðra um trúna. Aðrir fangar og starfsmenn fangelsisins litu á mig sem vott Jehóva þótt ég hefði ekki fengið tækifæri til að láta skírast til tákns um að ég hefði vígt mig Guði. Þegar ég hafði afplánað átta ár af refsidóminum var ég látin laus. Ég sneri aftur til Litháen árið 1958, líkamlega veikburða en sterk í trúnni á Jehóva.

Leynilegar þýðingar hefjast

Á þessum tíma voru mjög fáir vottar eftir í Litháen. Flestir voru í fangelsi eða útlegð í Síberíu. Árið 1959 sneru tveir vottar aftur frá Síberíu og stungu upp á að ég þýddi biblíurit okkar á litháísku. Ég gladdist og leit á það sem heiður.

Í mars 1960 byrjaði ég að þýða og í júlí lét ég skírast með leynd í ánni Dubysa. Vegna andstöðu KGB (leyniþjónustu Sovétríkjanna) gat ég ekki fengið vinnu mér til framdráttar. Ég bjó því hjá foreldrum mínum sem virtu trú mína. Ég sá um kýrnar sem pabbi og nágrannarnir áttu. Meðan ég gætti skepnanna vann ég við þýðingar. Skrifstofa mín var yndisleg! Ég sat á trjástubb og grænt grasið var eins og teppi í kringum mig. Heiðblár himinninn var loftið yfir höfði mér og kjaltan var skrifborðið.

En ég áttaði mig fljótlega á því að ekki væri öruggt að þýða úti í haga. KGB-menn og uppljóstrarar þeirra gætu auðveldlega hankað mig. Þegar mér stóð til boða felustaður til þýðingastarfanna flutti ég þess vegna úr föðurhúsum. Stundum var vinnustaðurinn í hlöðu þar sem búpeningurinn var stíaður af í öðrum endanum og ég hafði aðstöðu í hinum endanum til að hamra á ritvélina.

Það var ekkert rafmagn svo að ég vann meðan dagsbirtan entist. Til að kæfa smellina í ritvélinni hvein í sérstaklega útbúinni vindrellu fyrir utan hlöðuna. Þegar dimma tók fór ég inn í húsið og borðaði kvöldmat. Síðan fór ég aftur út í hlöðu og svaf í heyinu.

Þegar upp komst að ég tæki þátt í trúarlegri starfsemi var ég tekin föst í október 1961 ásamt tveimur öðrum vottum. Þetta leiddi til réttarhaldanna árið 1962 sem ég minntist á í byrjun þessarar frásögu. Yfirvöldin heimiluðu okkur að réttarhöldin yrðu opinber og við glöddumst yfir því að geta borið vitni frammi fyrir mörgum áheyrendum. (Markús 13:9) Ég hlaut þriggja ára dóm og var send í fangelsi til Tallinn í Eistlandi. Eftir því sem ég best veit var ég eina manneskjan þar á þeim tíma sem var sett í fangelsi vegna trúarskoðana. Stjórnendur frá borginni heimsóttu mig og ég sagði þeim frá trú minni.

Byrja aftur að þýða

Þegar mér var sleppt úr fangelsinu í Eistlandi 1964 fór ég aftur til Litháen. Þar hélt ég áfram að vinna við þýðingar á ritum okkar. Ég þýddi aðallega af rússnesku yfir á litháísku. Vinnuálagið var töluvert. Þótt aðrir hjálpuðu til var ég eini þýðandinn á litháísku í fullu starfi. Ég vann oft alla daga vikunnar frá sólarupprás til sólarlags. Án hjálpar Jehóva hefði ég aldrei haft kraft til að gera það.

Ég gerði mér fulla grein fyrir hve vinnan væri mikilvæg og reyndi alltaf að vera gætin. Trúsystkini stofnuðu oft eigin öryggi og fjölskyldu sinnar í hættu með því að fela mig, sjá mér fyrir viðurværi og vernda mig. Með slíkri samvinnu urðum við mjög náin. Meðan ég var að vinna var fjölskyldan, sem ég dvaldi hjá, á verði gagnvart þeim sem gætu komið upp um mig. Sem viðvörunarmerki sló einhver tvisvar sinnum með járni í hitarörin. Þegar ég heyrði merkið faldi ég allt sem gæti komið upp um störf mín.

Ef við urðum vör við að fylgst væri með húsinu þar sem ég var að vinna flutti ég mig sem snarast annað. Á þessum tíma var litið á það sem alvarlegan glæp að hafa í fórum sínum ritvél án opinbers leyfis. Einhver annar fór því með ritvélina á nýja vinnustaðinn. Síðan fylgdi ég á eftir, venjulega í skjóli nætur.

Jehóva verndaði mig sannarlega. Yfirvöld vissu hvað ég hafðist að en gátu ekki komið með neinar sannanir. Sem dæmi má nefna að saksóknarinn kallaði mig til yfirheyrslu þegar átta vottar Jehóva voru fyrir rétti árið 1973. Hann spurði mig umbúðalaust: „Mockutė, hve mörg rit hefurðu vélritað öll undanfarin ár?“

Ég sagðist ekki geta svarað spurningunni. Þá spurði hann hvers konar spurningu ég gæti eiginlega svarað.

„Spurningu sem tengist ekki þessu starfi,“ svaraði ég.

Ástandið breytist

Þegar leið að lokum níunda áratugarins fór ástandið í Litháen að taka breytingum. Það var ekki lengur nauðsynlegt að fela sig fyrir yfirvöldum. Aðrir fóru því að sjá um þýðingarnar um 1990. Lítil þýðingarskrifstofa var opnuð 1. september 1992 í Klaipeda, en þar settist ég að lokum að.

Ég vann við þýðingar samanlagt í 30 ár á 16 stöðum. Ég átti ekki fastan samastað. En það gleður mig að sjá árangurinn af starfi okkar. Nú eru um 3.000 vottar Jehóva í Litháen. Og þýðingarnar, sem ég sá einu sinni um þegar ég varð að fela mig í hlöðum og á háaloftum, fara nú fram á notalegri deildarskrifstofu nálægt borginni Kaunas í Litháen.

Ég man enn þá eftir hinum markverðu kynnum í köldum fangaklefanum í Klaipeda fyrir næstum 60 árum. Þessi kynni breyttu lífi mínu! Ég verð ævinlega þakklát Jehóva, skapara okkar, fyrir að hafa fundið sannleikann um hann og fyrirætlanir hans, og fyrir að hafa helgað honum líf mitt til að gera vilja hans.

[Innskot á blaðsíðu 13]

Sannindi Biblíunnar, sem Lydia kenndi okkur fjórum meðan við vorum í fangelsi, breytti lífi okkar.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Grein um réttarhöldin yfir mér birtist í sovésku dagblaði árið 1962.

[Mynd á blaðsíðu 14, 15]

Ég stofnaði frelsi mínu í hættu með því að þýða ýmis biblíutengd rit.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Lydia kom mér í kynni við sannleika Biblíunnar þegar ég var í fangelsi.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Tveir vottar (til vinstri) fræddu mig nánar um Guð meðan ég var í fangabúðum í Khabarovsk-héraði í Rússlandi árið 1956.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Ritvél sem ég notaði meðan starfið var bannað.