Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Maðurinn sem kortlagði heiminn

Maðurinn sem kortlagði heiminn

Maðurinn sem kortlagði heiminn

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í BELGÍU

Gerardus Mercator taldi víst að hann ætti ekki afturkvæmt úr köldum og dimmum fangaklefanum þar sem hann sat snemma árs 1544. Af hverju var svona komið fyrir mesta kortagerðarmanni 16. aldar? Til að fá svar við því skulum við byrja á að kynna okkur ævi hans og samtíð.

MERCATOR fæddist árið 1512 í Rupelmonde, smáum hafnarbæ nálægt Antwerpen í Belgíu. Hann nam heimspeki og guðfræði við háskólann í Leuven. Að loknu grunnnámi tók hann að kynna sér kenningar Aristótelesar en komst fljótt að raun um að þær samræmdust hvergi nærri kenningum Biblíunnar. Mercator skrifaði: „Þegar mér varð ljóst að útgáfa Móse af uppruna heimsins fór ekki nægilega vel saman við hugmyndir Aristótelesar og annarra heimspekinga vöknuðu með mér efasemdir um að heimspekingar yfirleitt færu með rétt mál, og tók ég þá að kynna mér leyndardóma náttúrunnar.“

Mercator hugnaðist ekki að leggja fyrir sig heimspeki og hætti því við frekara háskólanám. En það sem eftir var ævinnar var honum hugstætt að finna sannanir fyrir því að sköpunarsaga Biblíunnar stæðist.

Snýr sér að landafræði

Árið 1534 hóf Mercator nám í stærðfræði, stjörnufræði og landafræði undir handleiðslu stærðfræðings sem hét Gemma Frisius. Mercator lærði einnig leturgröft, hugsanlega af Gaspar van der Heyden sem var leturgrafari og smíðaði hnattlíkön. Í upphafi 16. aldar notuðu kortagerðarmenn fremur stórgert gotneskt letur og það takmarkaði verulega hve miklar upplýsingar var hægt að setja inn á landakort. Mercator tók upp nýjan stíl og notaði ítalskt skáletur sem hentaði vel á hnattlíkönin.

Árið 1536 vann Mercator sem leturgrafari með þeim Frisiusi og van der Heyden við gerð hnattlíkans. Falleg rithönd Mercators átti sinn þátt í því að verkefnið heppnaðist vel. Nicholas Crane hefur skrifað ævisögu Mercators. Hann segir að öðrum kortagerðarmanni hafi „tekist að koma fimmtíu amerískum staðarnöfnum fyrir á veggkorti sem var um ein mannhæð á breiddina en Mercator hafi komið sextíu nöfnum fyrir á hnetti sem var ekki nema tvær spannir í þvermál“.

Kortagerðarmaðurinn

Árið 1537 gerði Mercator fyrsta kortið einn síns liðs. Þetta var kort af landinu helga og það stuðlaði að „betri skilningi á báðum testamentunum“. Þau kort, sem til voru af landinu helga á 16. öld, voru skelfilega ónákvæm. Á sumum voru innan við 30 staðarnöfn og mörg þar að auki á röngum stað. Á korti Mercators voru hins vegar rúmlega 400 staðarnöfn. Og á kortinu var sýnd leið Ísraelsmanna um eyðimörkina eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. Svo nákvæmt þótti kortið að Mercator hlaut lof margra af samtíðarmönnum sínum.

Velgengni Mercators var honum hvatning til að gefa út heimskort árið 1538. Fyrir þann tíma vissu kortagerðarmenn fátt um Norður-Ameríku og höfðu kallað hana óþekkta landið í fjarska. Enda þótt landaheitið „Ameríka“ hafi verið þekkt var Mercator fyrstur manna til að nota það bæði um Norður- og Suður-Ameríku.

Á dögum Mercators voru menn að kanna heimshöfin og finna ný lönd. Sæfarar létu gjarnan í té mótsagnakenndar upplýsingar þannig að kortagerðarmenn urðu að fylla í eyðurnar og þeim var nánast ókleift að búa til nákvæm kort. En árið 1541 náði Mercator því markmiði sínu að búa til „betra hnattlíkan en tekist hafði fram til þess tíma“.

Sakaður um trúvillu

Margir lúterstrúarmenn bjuggu í Leuven, heimbæ Mercators. Árið 1536 var hann farinn að hallast á sveif með lúterstrúnni og eiginkona hans virðist síðar meir hafa snúist til lúterstrúar. Í febrúar árið 1544 var Mercator handtekinn ásamt 42 öðrum íbúum Leuven. Þeim var gefið að sök að hafa skrifað „grunsamleg bréf“. Vel má þó vera að það hafi verið kortið af landinu helga sem vakti grunsemdir Tappers og Latomusar en þeir voru guðfræðingar við háskólann í Leuven. Báðir höfðu þeir stjórnað réttarhöldunum yfir biblíuþýðandanum William Tyndale sem hafði verið tekinn af lífi í Belgíu árið 1536. Kannski óttuðust Tapper og Latomus að kort Mercators af landinu helga myndi hvetja fólk til biblíulestrar, líkt og biblíuþýðing Tyndales hafði gert. En hver sem ástæðan var var Mercator settur í varðhald í kastalanum í Rupelmonde, bænum þar sem hann var fæddur og uppalinn.

Antoinette van Roesmaels, ein þeirra sem sökuð var um trúvillu, vottaði fyrir rétti að Mercator hefði aldrei sótt fundi þar sem mótmælendur lásu saman í Biblíunni. Sjálf hafði hún hins vegar tekið þátt í slíkum biblíulestri og var því grafin lifandi og dó úr hægfara köfnun. Mercator var látinn laus eftir sjö mánaða fangavist en allar eigur hans gerðar upptækar. Árið 1552 fluttist hann til Duisburg í Þýskalandi þar sem var meira umburðarlyndi í trúmálum.

Fyrsti atlasinn

Mercator hélt áfram að verja sköpunarsögu Biblíunnar. Hann helgaði sig aðallega því verkefni að semja yfirlit yfir allt sköpunarverkið „á himni og jörð, allt frá upphafi sögunnar til nútímans“, eins og hann orðaði það. Í þessari ritsmíð er bæði að finna upplýsingar tengdar landafræði og tímatalsfræði.

Árið 1569 gaf Mercator út skrá um mikilvægustu atburði sögunnar allt frá sköpuninni. Þetta var fyrsti hluti verks sem hann nefndi Chronologia. Það var ætlun hans að hjálpa lesendum að skilja hvar þeir væru staddir í rás tímans og sögunnar. En þar eð Mercator birti einnig í bókinni mótmæli Lúters frá 1517 gegn sölu aflátsbréfa var Chronologia sett á lista kaþólsku kirkjunnar yfir bannaðar bækur.

Á næstu árum notaði Mercator drjúgan tíma til að teikna og rista prentplötur fyrir kortin í nýju landafræðibókinni. Árið 1590 fékk hann heilablóðfall með þeim afleiðingum að hann missti málið og lamaðist vinstra megin. Honum reyndist því ákaflega örðugt að halda áfram starfi sínu. Hann var hins vegar staðráðinn í að ljúka ævistarfinu og hélt því áfram allt til dauðadags árið 1594. Hann var þá 82 ára að aldri. Fimm kortum var þá ólokið og Rumold, sonur hans, lauk gerð þeirra. Kort Mercators voru gefin út í heild árið 1595, fyrsta kortasafnið sem kallað var atlas.

Í Atlasi sínum fjallar Mercator meðal annars um fyrstu kafla 1. Mósebókar og ver þar Biblíuna fyrir gagnrýni heimspekinga. Hann kallar þessa umfjöllun „markmiðið með öllu erfiði [sínu]“.

„Mesti landfræðingur okkar daga“

Jodocus Hondius gaf út endurbætta og aukna útgáfu af Atlasi Mercators árið 1606. Sú útgáfa var prentuð á fjölda tungumála og seldist í stóru upplagi. Abraham Ortelius, kortagerðarmaður á 16. öld, sagði að Mercator hefði verið „mesti landfræðingur okkar daga“. Og rithöfundurinn Nicholas Crane kallaði Mercator „manninn sem kortlagði jörðina“.

Arfleifð Mercators lifir enn. Í hvert sinn sem við flettum upp í landakortabók eða kveikjum á GPS-staðsetningartæki njótum við góðs af erfiði þessa merka manns sem eyddi ævinni í að kanna hvar hann væri staddur í rás tímans og hvar hann ætti heima í sköpunarverki Guðs.

[Rammigrein á blaðsíðu 19]

MERCATOR — ÖTULL BIBLÍUNEMANDI

Mercator áleit að einhvern tíma í framtíðinni kæmist á réttlæti, friður og velsæld á jörð. Hann skrifaði skýringarit við fyrsta til ellefta kafla Rómverjabréfsins og hrakti kenningu kalvínista um forlög. Ritið var þó aldrei gefið út. Athygli vekur að hann var einnig ósammála Marteini Lúter og benti á að trúin ein nægði ekki til að hljóta hjálpræði heldur þyrfti einnig verk. Mercator sagði í bréfi að syndin „kæmi ekki frá reikistjörnunum [vísun til stjörnuspeki] eða einhverri náttúruhneigð sem Guð hefði skapað heldur væri eingöngu sprottin af frjálsum vilja mannsins“. Í bréfum sínum hafnaði hann þeirri kennisetningu rómversk-kaþólsku kirkjunnar að brauðið og vínið breytist í hold og blóð Krists. Hann hélt því fram að ekki bæri að túlka bókstaflega orð Jesú, „þetta er líkami minn“ heldur væru þau táknræn.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 20]

MERCATORVÖRPUN

Hefurðu einhvern tíma reynt að fletja út börk af appelsínu? Það er auðvitað ekki hægt án þess að afskræma hann. Kortagerðarmenn eiga við áþekkan vanda að stríða. Hvernig á að varpa teikningu af jörðinni, sem er hnattlaga, á kort sem er sléttur flötur? Mercator leysti vandann með því að nota kortvörpun sem kennd er við hann. Á kortum með þessari vörpun lengist bilið milli breiddarbauganna eftir því sem fjær dregur miðbaug. Þó svo að þessi kortvörpun brengli stærðir og vegalengdir (sérstaklega norðarlega og sunnarlega á hnettinum) var hún þó mikil framför í kortagerð. Heimskort, sem Mercator gerði árið 1569, var meistaraverk og átti drjúgan þátt í að skapa honum nafn sem kortagerðarmanni. Reyndar er kortvörpun Mercators notuð enn þann dag í dag á sjókortum, og GPS-kerfið styðst einnig við hana.

[Mynd]

Líkja má Mercatorvörpun við útflattan hólk með mynd af heiminum.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Meira en 400 staðarnöfn voru á korti sem Mercator gerði af landinu helga árið 1537.

[Mynd á blaðsíðu 18, 19]

Heimskort Mercators, 1538.

Bæði Norður- og Suður-Ameríka er merkt „AMERI CAE“.

[Mynd credit line á blaðsíðu 17]

Antwerpen, Stedelijk Prentenkabinet.

[Mynd credit line á blaðsíðu 18]

Bæði kortin: American Geographical Society Library, University of Wisconsin-Milwaukee Libraries.