Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tryggð í hjónabandi — hvað felur hún í sér?

Tryggð í hjónabandi — hvað felur hún í sér?

Sjónarmið Biblíunnar

Tryggð í hjónabandi — hvað felur hún í sér?

Flestir vænta þess að hjón hafi ekki kynmök við aðra en maka sinn. Þessi skilningur á því hvað sé tryggð í hjónabandi kemur heim og saman við orð Biblíunnar. Þar stendur: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð.“ — Hebreabréfið 13:4.

ER TRYGGÐ í hjónabandi einfaldlega fólgin í því að hafa ekki kynmök við neinn annan en maka sinn? Hvað um það að láta sig dreyma um kynferðissamband við einhvern annan en makann? Getur það verið viss ótryggð í sjálfu sér að eiga náið vináttusamband við einhvern af hinu kyninu?

Eru kynferðislegir draumórar skaðlausir?

Biblían lýsir kynlífi þannig að það sé eðlilegur og heilnæmur þáttur hjónabands og eigi að veita hjónum gagnkvæma gleði og ánægju. (Orðskviðirnir 5:18, 19) Margir sérfræðingar telja það hins vegar eðlilegt og jafnvel heilbrigt fyrir hjón að láta sig dreyma um kynlíf með öðrum en maka sínum. Eru þess konar draumórar skaðlausir svo framarlega sem þeim er ekki hrint í framkvæmd?

Kynferðislegir draumórar snúast að jafnaði um það að fullnægja löngunum sjálfs sín. Það er eigingjörn hugsun og hún stingur í stúf við þau ráð sem hjón fá í Biblíunni. Þar segir um kynlíf: „Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama heldur karlmaðurinn. Sömuleiðis hefur og karlmaðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama heldur konan.“ (1. Korintubréf 7:4) Ef hjón fylgja þessum ráðleggingum kemur það í veg fyrir að kynlífið verði lostafengið, eigingjarnt og drifið áfram af draumórum. Og bæði hjónin verða hamingjusamari fyrir vikið. — Postulasagan 20:35; Filippíbréfið 2:4.

Draumórar um kynlíf utan hjónabands eru fólgnir í því að æfa sig í huganum að gera eitthvað sem myndi særa makann ákaflega ef því væri hrint í framkvæmd. Geta slíkir draumórar aukið líkurnar á hjúskaparbroti? Svarið er ósköp einfaldlega já. Í Biblíunni er bent á tengslin milli hugsana og athafna: „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd.“ — Jakobsbréfið 1:14, 15.

Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Með því að leyfa okkur ekki að gæla við siðlausa draumóra getum við ‚varðveitt hjarta okkar‘ og þar með hjónabandið. — Orðskviðirnir 4:23.

Af hverju er mikilvægt að vera tilfinningalega trúr?

Til að hjónaband sé farsælt er nauðsynlegt að sýna maka sínum óskipta hollustu. (Ljóðaljóðin 8:6; Orðskviðirnir 5:15-18) Hvað merkir það? Enda þótt það sé eðlilegt að eiga vini af báðum kynjum á makinn öllum öðrum fremur tilkall til tíma manns, athygli og tilfinninga. Ef samband manns við einhvern annan dregur til sín það sem makinn á réttilega tilkall til er fólgin í því ákveðin „ótryggð“ jafnvel þó að ekkert kynferðislegt eigi sér stað. *

Hvernig gæti slíkt samband myndast? Segjum sem svo að einhver af hinu kyninu virðist meira aðlaðandi eða skilningsríkari en maki þinn. Ef þú leyfir þér að verja tíma með þessum einstaklingi í vinnunni eða í frístundum gæti það leitt til þess að þú færir að ræða við hann persónuleg mál, þar á meðal erfiðleika eða vonbrigði í hjónabandinu. Þú gætir orðið tilfinningalega háður honum. Ef þú spjallar við þennan einstakling augliti til auglitis, í síma eða á spjallrás gæti það orðið til þess að þú bregðir trúnaði við maka þinn. Hjón ætlast eðlilega til þess að makinn ræði viss mál ekki við aðra og að sameiginleg ‚leyndarmál‘ þeirra séu meðhöndluð sem trúnaðarmál. — Orðskviðirnir 25:9.

Gættu þess að telja þér ekki trú um að engin hrifning sé til staðar ef sú er þó raunin. „Svikult er hjartað,“ segir í Jeremía 17:9. Ef þú átt náin vináttutengsl við einhvern af hinu kyninu skaltu spyrja þig hvort þú reynir að halda sambandinu leyndu eða reynir að réttlæta sjálfan þig ef þú ert spurður út í sambandið. Væri þér sama þótt maki þinn heyrði á tal ykkar? Hvernig myndi þér vera innanbrjósts ef maki þinn myndaði sams konar tengsl við einhvern annan? — Matteus 7:12.

Óviðeigandi tengsl við einhvern af hinu kyninu geta gert út af við hjónabandið vegna þess að náin tilfinningatengsl eru gjarnan undanfari kynferðislegra tengsla. Jesú sagði að „hórdómur“ kæmi „frá hjartanu“. (Matteus 15:19) En jafnvel þó að það gangi ekki svo langt getur verið óhemjuerfitt að endurheimta traustið ef það hefur glatast. Karen * segir um reynslu sína: „Ég var mjög særð þegar ég uppgötvaði að Mark, maðurinn minn, talaði í síma við aðra konu nokkrum sinnum á dag án þess að ég vissi. Ég á ákaflega erfitt með að trúa að þau hafi ekki átt í kynferðissambandi. Ég veit ekki hvort ég get nokkurn tíma treyst honum eftir þetta.“

Gættu þess að vináttutengsl við einstaklinga af hinu kyninu séu innan viðeigandi marka. Ef óviðeigandi tilfinningar gera vart við sig skaltu ekki loka augunum fyrir þeim og reyndu ekki að réttlæta óhreinar hvatir. Ef þú finnur að hjónabandi þínu stafar hætta af þessu sambandi skaltu vera fljótur að takmarka samskiptin eða binda enda á þau. „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 22:3.

Stattu vörð um hjónabandið

Það var ætlun skaparans að hjónaband væri nánasta samband sem til væri milli tveggja einstaklinga. Hann sagði að hjón ættu að „verða eitt“. (1. Mósebók 2:24) Með þessum orðum er átt við fleira en kynlíf. Þau ná líka yfir náin tilfinningabönd sem styrkjast af óeigingirni, trausti og gagnkvæmri virðingu. (Orðskviðirnir 31:11; Malakí 2:14, 15; Efesusbréfið 5:28, 33) Ef þú fylgir þessum meginreglum hjálpar það þér að vernda hjónabandið fyrir tilfinningalegri ótryggð eða ótryggð í hugsun.

[Neðanmáls]

^ Rétt er þó að nefna að kynmök utan hjónabands er eina leyfilega skilnaðarástæðan samkvæmt Biblíunni. — Matteus 19:9.

^ Nöfnum er breytt.

HEFURÐU VELT FYRIR ÞÉR?

◼ Geta kynferðislegir draumórar leitt til hjúskaparbrots? — Jakobsbréfið 1:14, 15.

◼ Getur hjónabandi þínu stafað hætta af náinni vináttu við einhvern af hinu kyninu? — Jeremía 17:9; Matteus 15:19.

◼ Hvernig er hægt að styrkja hjónabandið? — 1. Korintubréf 7:4; 13:8; Efesusbréfið 5:28, 33.

[Innskot á blaðsíðu 25]

„Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ — Matteus 5:28.