Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dæmi um farsælar fjölskyldur — fyrri hluti

Dæmi um farsælar fjölskyldur — fyrri hluti

Dæmi um farsælar fjölskyldur — fyrri hluti

Eins og fram hefur komið í þessari sérútgáfu af blaðinu Vaknið! geta komið upp vandamál hjá fjölskyldum sem farnast að öðru leyti vel. Það kemur varla á óvart þar sem við lifum á tímum sem Biblían kallar „örðugar tíðir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Einhvers konar vandamál eru óhjákvæmileg í hverri einustu fjölskyldu.

Höfum samt í huga að velgengni er ekki háð því að aðstæður séu það sem kalla mætti fullkomnar. Jesús sagði þvert á móti: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, New World Translation) Fjölskyldur, sem fullnægja andlegri þörf sinni með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar, hafa fundið það sem leiðir til farsældar þrátt fyrir óhagstæðar aðstæður. Lítum á nokkur dæmi.

Að annast fatlað barn. Í Biblíunni er lögð mikil áhersla á þá skyldu að annast sína nánustu, þar á meðal þá sem eru með sérþarfir. Þar segir: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:8, Biblían 1981.

Victor, sem er faðir í Suður-Afríku, segir frá því á blaðsíðu 15 hvernig þau hjónin hafa annast fatlaðan son sinn í meira en fjóra áratugi.

Að alast upp sem ættleitt barn. Meginreglur Biblíunnar geta hjálpað manni að tileinka sér hæfilegt sjálfsmat þótt kynforeldrar hafi yfirgefið mann. Jehóva Guð „hjálpar munaðarlausum“ eins og segir í Biblíunni. — Sálmur 10:14.

Kenyatta, ung kona í Bandaríkjunum, lýsir því á blaðsiðu 16 hvernig hún hafi komist yfir tilfinningalegar afleiðingar þess að hafa aldrei hitt kynforeldra sína.

Þegar foreldri deyr. Missir móður eða föður skilur oft eftir djúp sár sem erfitt er að græða. Biblían getur komið til hjálpar. Jehóva, höfundur hennar, er „Guð allrar huggunar“. — 2. Korintubréf 1:3.

Angela, ung kona í Ástralíu, segir frá því á blaðsíðu 17 hvernig samband hennar við Guð hjálpi henni að komast yfir sársaukafullan missi.

Allar fjölskyldur eiga við einhverja erfiðleika að stríða. Eins og frásögurnar á næstu blaðsíðum sýna hafa þeir sem fylgja leiðbeiningum Biblíunnar fundið leið til að ráða við erfiðleika sem upp koma.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 15]

Að annast fatlað barn

Victor Maynes, Suður-Afríku, segir frá.

„Andrew hefur allt frá fæðingu þurft á hjálp okkar að halda við að klæða sig, baða sig og jafnvel að borða. Hann er núna 44 ára.“

OKKUR grunaði að eitthvað væri að þegar Andrew var ekki farinn að ganga á öðru ári. Um það leyti fékk hann flogakast. Við flýttum okkur með hann á spítala. Þar fengum við að vita að hann væri flogaveikur. En þar með var ekki öll sagan sögð. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að Andrew væri með heilaskaða.

Eftir að hafa reynt ýmsar aðferðir tókst okkur að halda flogaköstunum í skefjum. Um tíma varð Andrew að taka inn fjórar tegundir af lyfjum þrisvar á dag. Auðvitað er ekki hægt að lækna greindarskerðingu með lyfjagjöf. Andrew er orðinn 44 ára og hefur greind á við fimm eða sex ára barn.

Læknar ráðlögðu okkur að láta Andrew fara á vistheimili en við vildum það ekki. Við gátum annast hann sjálf svo að við ákváðum að hafa hann heima þrátt fyrir erfiðleikana sem fylgdu því.

Allir í fjölskyldunni hafa tekið þátt í að annast hann. Hin börnin okkar, tvær stúlkur og einn drengur sem bjuggu heima, hjálpuðu okkur mikið og ég er þeim mjög þakklátur. Við erum vottar Jehóva og höfum einnig fengið frábæran stuðning frá trúsystkinum okkar í söfnuðinum. Þau hafa stundum fært okkur mat eða jafnvel annast Andrew þegar við höfum tekið þátt í boðunarstarfinu eða þurft að sinna öðrum málum.

Orðin í Jesaja 33:24 hafa alltaf verið okkur ofarlega í huga. Þar lofar Guð að sá dagur komi að „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er veikur.‘“ Við erum fullviss um að Guð uppfylli fyrirheitið um nýjan heim og að engir sjúkdómar verði framar til. (2. Pétursbréf 3:13) Við hlökkum því til þess dags þegar Andrew verður heill heilsu. Við trúum orðum Jesú um að ef við höfum fyrst og fremst í huga hag Guðríkis verði séð fyrir þörfum okkar. (Matteus 6:33) Þannig hefur það alltaf verið. Okkur hefur aldrei skort neitt.

Vissulega er ekki öllum fært að annast þann heima sem þarfnast sérstakrar umönnunar. Fyrst og fremst ráðlegg ég þeim sem gera það að biðja einlægra og stöðugra bæna. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Í öðru lagi, veitið barni ykkar ástúðlega umönnun og vanmetið aldrei að það getur lært að elska Guð. (Efesusbréfið 6:4) Í þriðja lagi skuluð þið virkja alla fjölskylduna og leyfa öllum að hjálpa til. Í fjórða lagi, munið að það er á heimilinu ykkar sem barnið nýtur mestrar ástúðar. Auðvitað eru aðstæður breytilegar. En við höfum aldrei séð eftir því að annast Andrew heima. Hann er elskulegasta barnið — elskulegasti maðurinn — sem ég þekki.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 16]

Að alast upp sem ættleitt barn

Kenyatta Young, Bandaríkjunum, segir frá

„Ef maður er stjúpbarn eru til staðar líffræðileg tengsl. En þar sem ég var ættleidd er því ekki til að dreifa. Ég veit ekki einu sinni hverjum ég líkist.“

ÉG HEF ekki hugmynd um hver faðir minn er og ég hef aldrei hitt kynmóður mína. Hún ánetjaðist áfengi og fíkniefnum þegar hún gekk með mig. Ég var látin í fóstur við fæðingu og hafði verið á nokkrum fósturheimilum áður en ég var ættleidd, tæplega tveggja ára gömul.

Fósturpabbi minn segir að þegar félagsráðgjafinn sýndi honum mynd af mér hafi honum samstundis langað til að ættleiða mig. Mér féll strax vel við nýju mömmuna mína. Ég sagði henni að hún væri mamma mín og mig langaði að fara heim með henni.

Ég man samt eftir því sem barn að ég var hrædd um að gera eitthvað rangt og verða send aftur í fóstur. Mér fannst ég ekki mega vera með ólund eða jafnvel verða veik eins og aðrir krakkar. Ég reyndi meira að segja að forðast að fá kvef ! Foreldrar mínir fullvissuðu mig sífellt um að þeim þætti vænt um mig og þau yfirgæfu mig aldrei.

Sem fullorðin manneskja glími ég stundum við þá tilfinningu að ég sé ekki eins mikils virði og þeir sem alast upp hjá kynforeldrum sínum. Þegar ég er rétt búin að jafna mig á því segir kannski einhver við mig: „Þú ættir að vera svo þakklát fyrir að eiga dásamlega foreldra sem vildu ættleiða þig!“ Ég er þakklát en þegar ég heyri svona athugasemdir finnst mér eins og eitthvað sé að mér og að það hafi einhvern veginn þurft að leggja mikið á sig til að þykja vænt um mig.

Ég á erfitt með að sætta mig við það að ég fái sennilega aldrei að vita hver kynfaðir minn er. Stundum særir það mig að kynmóðir mín skuli ekki hafa bætt ráð sitt til þess að geta haldið mér, rétt eins og ég hafi ekki verið þess virði. Stundum vorkenni ég henni. Ég leiði oft hugann að því að ef ég eigi einhvern tíma eftir að hitta hana langi mig til að segja henni að mér hafi farnast vel í lífinu. Að hún ætti ekki að áfellast sjálfa sig fyrir að hafa látið mig frá sér.

Fósturforeldrar mínir eru vottar Jehóva og ein af bestu gjöfunum, sem þau hafa gefið mér, er þekkingin á Biblíunni. Orðin í Sálmi 27:10 hafa ætíð verið mér til huggunar: „Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig tekur Drottinn mig að sér.“ Það á svo sannarlega við um mig. Og það eru nokkrar jákvæðar hliðar á því að vera ættleidd. Til dæmis er ég heilluð af fólki, uppruna þess og lífi, líklega af því að ég veit ekkert um ætterni mitt. Mér þykir vænt um fólk og það er mjög mikilvægt í boðunarstarfinu. Það veitir mér sjálfsvirðingu og tilgang í lífinu að vera vottur Jehóva og tala um Biblíuna við fólk. Þegar ég er niðurdregin fer ég út og hjálpa öðrum. Þegar ég segi frá sannleika Biblíunnar finn ég að ég get náð sambandi við þá. Allir hafa sína sögu að segja.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 17]

Þegar foreldri deyr

„Þegar pabbi dó leið mér eins og einhver hefði gert stærðarinnar gat á öryggisnetið mitt. Eina manneskjan, sem vissi allt og gat ráðið bót á öllu í lífi mínu, var ekki lengur til staðar.“

Angela Rutgers, Ástralíu, segir frá

FAÐIR minn lést fyrir tíu árum. Ég var þá á unglingsaldri. Sex mánuðum áður hafði hann gengist undir uppskurð og meðan hann var enn á vöknunarstofunni tjáði læknirinn okkur að ekkert meira væri hægt að gera. Mömmu sárvantaði meiri upplýsingar, bróðir minn féll í yfirlið og ég komst í mikla geðshræringu sem ég losnaði ekki við. Pabbi dó hálfu ári síðar.

Mikið tilfinningarót fylgdi í kjölfarið. Mig langaði til að vinir mínir skildu hvernig mér liði en ég vildi ekki láta koma fram við mig sem fórnarlamb. Ég reyndi því að láta þá ekki sjá hvernig mér var innanbrjósts. Mér fannst hins vegar að ef ég skemmti mér með þeim væri ég að gefa í skyn að líf mitt gengi sinn vanagang sem það gerði engan veginn. Ég geri mér grein fyrir því núna hvað vinir mínir máttu þola.

Finn ég til sektarkenndar vegna dauða föður míns? Já, það geri ég! Ég vildi óska að ég hefði sagt honum oftar að mér þætti svo vænt um hann. Ég vildi óska að ég hefði faðmað hann oftar eða verið meira með honum. Það skiptir engu máli hve oft ég segi við sjálfa mig: „Hann myndi ekki vilja að þú hugsaðir svona.“ Það angrar mig samt.

Ég er vottur Jehóva og mér finnst mikil huggun i upprisuvoninni sem talað er um í Biblíunni. (Jóhannes 5:28, 29) Ég reyni að ímynda mér að pabbi hafi farið til útlanda og komi heim einhvern daginn þó að ég viti ekki nákvæmlega hvenær. Þótt undarlegt megi virðast fannst mér ekki uppörvandi fyrst í stað að heyra fólk segja: „Pabbi þinn kemur fram í upprisunni.“ Ég vildi bara að pabbi kæmi strax aftur! En samlíkingin við utanlandsferð hjálpaði mér. Hún vísaði óbeint til upprisunnar og ég átti auðveldara með að takast á við missinn.

Trúsystkini hafa styrkt mig mjög mikið. Ég man sérstaklega eftir einum trúbróður sem sagðist eiga erfitt með að tala um fráfall föður míns en hann sagðist hugsa til mín og fjölskyldunnar öllum stundum. Þessi orð festust mér í huga. Þau hjálpuðu mér þegar enginn sagði neitt. Mér varð ljóst að jafnvel þótt enginn talaði um atburðinn við mig væri hugsað til mín og fjölskyldunnar. Það var mér ákaflega mikils virði!

Fjórum mánuðum eftir að pabbi dó byrjaði mamma að taka meiri þátt í boðunarstarfinu og ég sá að það veitti henni mikla ánægju. Ég fór því að dæmi hennar. Það er stórkostlegt hvað hægt er að hjálpa sjálfum sér með því að hjálpa öðrum. Það hefur styrkt trú mína á orð Jehóva og loforð hans. Núna á ég auðveldara með að beina athyglinni að því sem mestu máli skiptir.