Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dæmi um farsælar fjölskyldur — síðari hluti

Dæmi um farsælar fjölskyldur — síðari hluti

Dæmi um farsælar fjölskyldur — síðari hluti

Eins og fram kom í greininni „Dæmi um farsælar fjölskyldur — fyrri hluti“ geta meginreglur Biblíunnar verið sem akkeri fyrir fjölskyldur á neyðartímum. * Jehóva lofar þeim sem lifa eftir meginreglum hans: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ — Sálmur 32:8.

Að takast á við fjárhagserfiðleika. Peningavandamál valda oft miklum deilum milli hjóna. En meginreglur Biblíunnar geta hjálpað fjölskyldum að hafa rétt viðhorf þegar fjármál eru annars vegar. Jesús sagði: „Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast . . . Yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa.“ — Matteus 6:25, 32.

Issachar, sem býr í Bandaríkjunum, segir frá því á blaðsíðu 23 hvernig hann og fjölskylda hans tókust á við fjárhagserfiðleika eftir að heimili þeirra eyðilagðist í fellibylnum Katrinu.

Veikindi í fjölskyldunni. Nánast allir verða einhvern tíma veikir. Oftast er ástandið tímabundið og batinn skjótur. En hvað ef einhver í fjölskyldunni á við langvinnan sjúkdóm að stríða? Í Biblíunni segir að Jehóva geti stutt þá sem liggi á sóttarsæng. (Sálmur 41:2-4) Hvernig getur Jehóva veitt stuðning fyrir atbeina fjölskyldunnar?

Hajime, eiginmaður í Japan, segir frá því á blaðsíðu 24 hvernig hann og dætur hans hafi unnið saman að því að annast Noriko, eiginkonu hans, eftir að hún var greind með illvígan sjúkdóm.

Þegar barn deyr. Að missa barn er eitt það erfiðasta sem nokkur fjölskylda getur orðið fyrir. Jehóva lofar að þerra sorgartár þeirra sem verða fyrir hræðilegum missi sem þessum. (Opinberunarbókin 21:1-4) Hann veitir syrgjendum jafnvel huggun nú þegar. — Sálmur 147:3.

Fernando og Dilma í Bandaríkjunum segja frá því á blaðsíðu 25 hvernig Biblían styrkti þau þegar þau misstu nýfædda dóttur sína.

Biblían hefur að geyma áreiðanlegar leiðbeiningar fyrir fjölskyldur sem lenda í erfiðleikum, eins og frásögurnar á næstu blaðsíðum sýna.

[Neðanmáls]

^ Sjá blaðsíðu 14-17 í þessu blaði.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 23]

Að takast á við fjárhagserfiðleika

Issachar Nichols, Bandaríkjunum, segir frá

„Fellibylurinn Katrina lagði heimili okkar í rúst, það eina sem stóð eftir var steyptur grunnurinn. Í einn og hálfan mánuð var allt á floti í skólanum þar sem ég kenndi.“

SUMARIÐ 2005 bjó ég ásamt Michelle, konunni minni, og tveggja ára dóttur okkar, Sydney, í bænum Bay St. Louis í Mississippi. Við Michelle erum vottar Jehóva og reyndum að taka sem mestan þátt í boðunarstarfinu. Ég kenndi við skóla í nágrannaborginni New Orleans í Louisiana. Ég vann þrjá daga í viku og gat þess vegna notað mikið af tíma mínum til að fræða aðra um Biblíuna. Þetta fyrirkomulag hentaði okkur mjög vel. Síðan kom viðvörun um að fellibylurinn Katrina myndi líklega ganga yfir svæðið. Við yfirgáfum bæinn þegar í stað.

Þegar fellibylurinn hafði gengið yfir var húsið okkar í Bay St. Louis ónýtt og skólinn, þar sem ég hafði kennt í New Orleans, var stórskemmdur. Tryggingabætur og styrkur frá ríkisstjórninni gerði okkur kleift að fá annað húsnæði, en það var erfitt að fá vinnu og öruggar tekjur. Þar að auki fékk konan mín veirusýkingu af völdum mengaðs vatns. Ónæmiskerfi hennar veiktist og stuttu seinna sýktist hún af Vesturnílarveirunni vegna moskítóbits. Og tryggingariðgjöld og allur framfærslukostnaður snarhækkaði.

Til að aðlagast nýjum aðstæðum lærðum við að vera mjög sparsöm, jafnvel þegar kom að nauðsynjum. Ég varð að gera minni kröfur um það hvers konar vinnu ég þáði.

Ég verð að viðurkenna að það var ekki auðvelt fyrir okkur að missa eigurnar. En við vorum þakklát fyrir að vera á lífi. Og þessi reynsla kenndi okkur að efnislegar eigur hafa takmarkað gildi. Þetta minnti okkur á orð Jesú: „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ — Lúkas 12:15.

Við gerðum okkur líka grein fyrir því að jafnvel þótt okkur liði illa vegna þess sem við höfðum misst höfðu margir misst meira. Sumir höfðu jafnvel týnt lífi. Það var ein ástæða þess að strax eftir að hörmungarnar dundu yfir tók ég þátt í hjálparstarfinu og reyndi að hughreysta þá sem höfðu orðið fyrir missi.

Í öllum þessum raunum hafa orðin í Sálmi 102:18 verið okkur til sérstakrar huggunar. Þar segir um Jehóva Guð: „Hann gefur gaum að bæn hinna allslausu og hafnar ekki bæn þeirra.“ Sem fjölskylda höfum við fundið fyrir stuðningi hans.

[Rammi á blaðsíðu 23]

Eftir að fellibyljirnir Katrina og Rita gengu yfir bandarískar borgir við Mexíkóflóa árið 2005 settu Vottar Jehóva strax upp 13 hjálparmiðstöðvar, 9 vörugeymslur og 4 eldsneytisbirgðastöðvar. Um það bil 17 þúsund sjálfboðaliðar úr söfnuðinum streymdu að frá Bandaríkjunum og 13 öðrum löndum til þess að taka þátt í hjálparstarfinu. Þeir hafa gert við þúsundir heimila.

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 24]

Veikindi í fjölskyldunni

Hajime Ito, Japan, segir frá.

„Við Noriko nutum þess að elda saman — þar til hún veiktist. Núna getur hún hvorki borðað eða drukkið með munninum né talað. Hún er bundin við hjólastól og andar með hjálp öndunarvélar.“

Í MAÍ árið 2006 fór Noriko, konan mín, að eiga í erfiðleikum með að tala. Um sumarið átti hún erfitt með að borða og drekka. Í september var hún svo greind með blandaða hreyfitaugahrörnun (ALS) — sjúkdóm sem veldur hrörnun á taugafrumum í heilanum og mænunni. Á aðeins fjórum mánuðum gerbreyttist líf okkar. Og erfiðleikar hennar voru rétt að byrja.

Með tímanum lamaðist tunga Noriko og sömuleiðis hægri handleggur. Hún þurfti að fá magastómu þannig að hún gæti nærst beint í gegnum slöngu. Hún þurfti einnig að fá barkarrauf á hálsinn til að geta andað en við það varð hún ófær um að tala. Ég get ekki ímyndað mér hversu hræðilegt þetta var fyrir Noriko sem hafði alltaf verið svo athafnasöm. Við erum vottar Jehóva, og bæði Noriko og dætur okkar höfðu haft það að aðalstarfi að boða fagnaðarerindið. Nú er Noriko háð öndunarvél og að mestu leyti rúmliggjandi.

Noriko lætur þetta þó ekki stöðva sig. Hún kemur til dæmis á samkomur í hjólastól og öndunarvélin fylgir með. Þar sem heyrn hennar hefur hrakað skrifa dætur okkar niður minnispunkta fyrir hana á samkomunum þannig að hún geti fylgst með. Jafnvel þótt Noriko geti ekki boðað fagnaðarerindið í sama mæli og áður skrifar hún samt sem áður bréf til fólks og segir frá loforðum Biblíunnar um betri heim. Til þess notar hún sérstakan búnað í tölvunni okkar. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1-4.

Við höfum unnið saman sem fjölskylda að því að hjálpa Noriko. Báðar dætur okkar skiptu um vinnu til að hafa meiri tíma til að aðstoða á heimilinu. Við þrjú skiptum með okkur þeim daglegu heimilisstörfum sem Noriko var vön að sjá um.

Stundum, þegar ég horfi á Noriko á morgnana, lítur hún þreytulega út. Þá langar mig til að segja við hana: „Viltu ekki taka það rólega í dag?“ En Noriko vill segja öðrum frá boðskap Biblíunnar. Augu hennar glampa af gleði þegar ég geri tölvuna tilbúna fyrir hana. Hún hressist þegar hún fer að skrifa. Ég hef áttað mig á gildi þess fyrir okkur að vera „síauðug í verki Drottins“. — 1. Korintubréf 15:58.

Frásagan af Jason Stuart, sem þjáðist af ALS, í Vaknið! í janúar 2006 (á erlendum tungumálum) hefur hjálpað Noriko að missa ekki kjarkinn. Þegar starfsmenn á spítalanum undruðust jákvæðni hennar sagði Noriko þeim frá greininni og við gáfum þeim eintök af henni. Það heldur eiginkonu minni gangandi að geta sagt öðrum frá trú sinni.

Við Noriko höfum verið gift í 30 ár en síðustu þrjú árin hef ég lært að meta meira vissa eiginleika í fari hennar sem ég leit áður á sem sjálfsagðan hlut. Ég er innilega ánægður að hafa gifst henni!

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 25]

Þegar barn deyr

Fernando og Dilma Freitas, Bandaríkjunum, segja frá.

„Það er ólýsanlegt áfall að missa barn. Ekkert er sársaukafyllra.“

DÓTTIR okkar, sem við nefndum Precious, dó 16. apríl 2006. Hún var aðeins tíu daga gömul. Eftir um það bil þriggja mánaða meðgöngu kom í ljós að ófædda barnið okkar væri með alvarlegan hjartagalla. Þegar nálgaðist fæðingu varð ljóst að jafnvel þótt hún fæddist lifandi myndi hún deyja fljótlega. Við áttum ákaflega erfitt með að sætta okkur við það. Við áttum fyrir þrjár heilbrigðar dætur. Það var erfitt að trúa því að barnið okkar myndi ekki lifa.

Eftir að Precious kom í heiminn greindi reyndur sérfræðingur í litningagöllum hana með sjaldgæft frávik í litningum sem kallast þrístæða 18, en það kemur einungis fram hjá 1 af hverjum 5.000 börnum. Það var deginum ljósara að hún myndi ekki lifa lengi. Okkur fannst við algerlega hjálparvana vegna þess að það var svo lítið sem við gátum gert. Það eina sem við gátum gert var að vera með henni þann stutta tíma sem hún myndi lifa. Og það gerðum við.

Við erum innilega þakklát fyrir þá tíu daga sem við áttum með Precious. Við hjónin og dætur okkar tengdumst henni tilfinningaböndum á þessum stutta tíma. Við héldum henni í fangi okkar, töluðum við hana, föðmuðum hana, kysstum hana og tókum eins margar myndir af henni og við gátum. Við töluðum jafnvel um hverjum í fjölskyldunni hún líktist mest. Sérfræðingurinn, sem hafði sjúkdómsgreint Precious, heimsótti okkur á spítalann á hverjum degi. Hann grét með okkur og sagði hve sorglegt honum þætti þetta. Á meðan hann talaði við okkur teiknaði hann meira að segja mynd af Precious sem hann ætlaði að eiga til minningar um hana. Hann gaf okkur afrit.

Þar sem við erum vottar Jehóva trúum við því að Guð muni endurreisa paradís á jörðinni eins og Biblían kennir, og að hann þrái að reisa upp dána til lífs hér á jörð — þar á meðal ungbörn eins og Precious. (Jobsbók 14:14, 15; Jóhannes 5:28, 29) Við hlökkum til þess dags þegar við getum haldið henni í fangi okkar á nýjan leik. Í hvert skipti sem við heyrum orðið „paradís“ hlýnar okkur um hjartarætur. Þangað til er okkur huggun að vita að Jehóva geymir Precious í minni sínu og að hún þjáist ekki lengur. — Prédikarinn 9:5, 10.