Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einstæðum foreldrum getur farnast vel

Einstæðum foreldrum getur farnast vel

Einstæðum foreldrum getur farnast vel

SAGT hefur verið að fjölskyldur, þar sem báðir foreldrarnir eru til staðar, séu að verða eins og dýrategund í útrýmingarhættu. Í Bandaríkjunum einum saman eru meira en 13 milljónir einstæðra foreldra, aðallega einstæðar mæður. Kannanir benda til þess að um það bil helmingur allra barna þar í landi muni búa með aðeins öðru foreldrinu einhvern hluta uppvaxtaráranna.

Ef þú ert einstætt foreldri máttu vera viss um að fjölskyldu þinni getur farnast vel. Prófaðu endilega eftirfarandi tillögur.

Varastu neikvæð viðhorf. Biblían segir: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ (Orðskviðirnir 15:15, Biblían 1981) Líf þitt virðist kannski ekki vera ein sífelld veisla, en eins og þetta vers gefur til kynna byggist gleði meira á viðhorfum manns heldur en aðstæðum. (Orðskviðirnir 17:22) Það hefur lítið upp á sig ef þú hugsar sem svo að heimili þitt sé algerlega sundrað og að börnin þín séu dæmd til að farnast illa. Slík viðhorf draga aðeins úr þér kjark og gera þér erfiðara um vik að vera gott foreldri. — Orðskviðirnir 24:10.

Tillaga: Skrifaðu niður allt það neikvæða sem þú notar til að lýsa aðstæðum þínum. Skrifaðu svo við hliðina á hverju atriði jákvæða umsögn til að nota í staðinn. Í staðinn fyrir: „Ég ræð ekki við þetta,“ skaltu skrifa: „Ég get staðið undir þeirri ábyrgð að vera einstætt foreldri og ég get fengið þá hjálp sem ég þarf.“ — Filippíbréfið 4:13.

Farðu vel með peninga. Fjárhagsörðugleikar eru eitt algengasta vandamál hjá einstæðum foreldrum, sérstaklega einstæðum mæðrum. En í sumum tilfellum er hægt að draga úr áhyggjum með góðri fjárhagsáætlun. Í Biblíunni er eftirfarandi máltæki: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ (Orðskviðirnir 22:3) Til að hægt sé að forðast fjárhagslega ‚ógæfu‘ er nauðsynlegt að kunna að skipuleggja sig og vera framsýnn.

Tillaga: Gerðu skriflega fjárhagsáætlun. Haltu bókhald yfir öll útgjöld í heilan mánuð og finndu út í hvað peningarnir fara. Skoðaðu neysluvenjur þínar. Þarftu að reiða þig mikið á kreditkort og yfirdráttarlán? Kaupirðu gjafir handa börnunum til að bæta upp fyrir að hitt foreldrið sé ekki til staðar? Sestu niður með börnunum, ef þau eru orðin nógu gömul, og ræddu við þau hvernig þið getið sparað peninga. Þau læra margt á því. Og kannski hafa þau einhverjar góðar hugmyndir.

Haltu friðinn við fyrrverandi maka þinn. Umgangast börnin fyrrverandi maka þinn? Hafðu þá í huga að það er óheilbrigt að tala illa um hann við börnin eða nota þau til að njósna um hann og það sem gerist í lífi hans. * Það er miklu betra að þið reynið að viðhalda góðri samvinnu í málum sem varða velferð og uppeldi barnanna. Í Biblíunni stendur: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ Það á líka við um fyrrverandi maka þinn. — Rómverjabréfið 12:18.

Tillaga: Næst þegar ykkur greinir á skaltu koma fram við fyrrverandi maka þinn eins og þú myndir koma fram við vinnufélaga. Þú myndir líklega reyna að halda friðinn við alla í vinnunni — meira að segja þá sem þér líkar ekkert sérstaklega við. Prófaðu þessa aðferð í samskiptum við fyrrverandi maka þinn. Þið verðið ef til vill ekki alltaf sammála en hver einasti neisti þarf ekki að verða að stóru báli. — Lúkas 12:58.

Gakktu á undan með góðu fordæmi. Spyrðu þig: „Hvers konar viðhorf og gildismat vil ég að börnin mín læri? Hef ég tileinkað mér þessi viðhorf og gildi í mínu lífi?“ Ertu til dæmis að jafnaði glaðvær þrátt fyrir að vera einstætt foreldri? Eða leyfirðu aðstæðum þínum að draga þig niður? Ertu bitur yfir því hvernig fyrrverandi maki þinn hefur komið fram við þig? Eða jafnarðu þig fljótt eftir skakkaföll sem þú hefur enga stjórn á? (Orðskviðirnir 15:18) Þetta eru auðvitað ekki auðveld mál og þú munt ekki geta tekist á við þau með fullkomnum hætti. Engu að síður eru börnin þín líkleg til að taka upp sömu lífsviðhorf og þau sjá hjá þér.

Tillaga: Skrifaðu á blað þrjá eiginleika sem þú vilt sjá í fari barna þinna þegar þau verða fullorðin. * Skrifaðu við hliðina á hverjum eiginleika hvernig fordæmi þú getir nú þegar sýnt svo að þau þroski með sér þennan eiginleika.

Farðu vel með þig. Þar sem álagið er oft mikið gætirðu auðveldlega gleymt að sinna líkamlegum og tilfinningalegum þörfum þínum. En láttu það ekki gerast. Það skiptir hins vegar mestu máli að þú sinnir andlegum þörfum þínum. (Matteus 4:4) Hafðu hugfast að bensínlaus bíll kemst ekki langt. Það gerir þú ekki heldur nema þú takir þér tíma til að „fylla tankinn“.

„Að hlæja hefur sinn tíma . . . og að dansa hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:4) Afþreying er ekki tímasóun. Hún gerir þér gott og endurnýjar krafta þína svo að þú getir haldið áfram að standa þig sem einstætt foreldri.

Tillaga: Ræddu við aðra einstæða foreldra um hvernig þeir hlúa að sjálfum sér. Geturðu séð af smá tíma í hverri viku til að gera eitthvað sem þú hefur gaman af jafnframt því að meta „þá hluti rétt sem máli skipta“? (Filippíbréfið 1:10) Skrifaðu á blað hvað þú hefðir gaman af að gera og hvenær þú gætir gert það.

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar er að finna í greininni „Sundrað heimili — áhrif skilnaðar á unglinga“ á bls. 18-21 í þessu blaði.

^ Til dæmis er rætt um virðingu, sanngirni og fyrirgefningu á bls. 6-8 í þessu blaði.