Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

◼ „Um þriðjungur stúlkna í Bandaríkjunum verður barnshafandi undir tvítugu.“ — SÓTTVARNA- OG FORVARNAMIÐSTÖÐVAR BANDARÍKJANNA.

◼ Í bandarískri rannsókn á heimilisofbeldi, sem náði til 420 karla, kom í ljós að „næstum þrír af hverjum tíu hafi verið lamdir eða þeir sætt ofbeldi af öðru tagi“. — AMERICAN JOURNAL OF PREVENTIVE MEDICINE.

Tvítyngd börn?

Margir foreldrar óttast að það komi niður á móðurmálskunnáttu ungra barna ef reynt er að kenna þeim annað tungumál. Hópur vísindamanna í Toronto í Kanada hefur komist að hinu gagnstæða. Hópurinn er undir forystu Lauru-Ann Petitto en hún er sérfræðingur í taugavísindum. „Við fæðumst með taugavefi sem eru tilbúnir til að læra tungumál,“ segir hún, „og þeir ráða við fleiri en eitt tungumál í einu.“ Tvítyngd börn standa sig oft betur í skóla en börn sem tala aðeins eitt tungumál. Í dagblaðinu Toronto Star kemur hins vegar fram að „foreldrar verði að beita sér fyrir því að kenna ungum börnum annað tungumál til að þau njóti allra kostanna sem fylgja því að vera tvítyngd“.

Klám hefur slæm áhrif á börn

Sífellt yngri börn sjá myndskeið með skaðlegu klámi og ofbeldi á Netinu. Heinz-Peter Meidinger er formaður Samtaka þýskra textafræðinga. Hann segir að drengir, allt niður í 12 ára gamlir, viti oft hvar hægt sé að finna vefsetur þar sem sýnt er gróft ofbeldi eða klám. Þó svo að börnin virðist út á við hörð af sér og láti sem það snerti þau ekki eru mörg þeirra hið innra hneyksluð og óróleg eftir að hafa horft á það. Meidinger hvetur foreldra til að sýna áhuga á því sem börnin eru að hugsa og fylgjast með því sem þau horfa á í tölvunni.

Gera ráð fyrir skilnaði

Það verður sífellt algengara í Ástralíu að fólk geri með sér kaupmála þar sem kveðið er á um að makinn þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði. Þetta kemur fram í dagblaðinu Sunday Telegraph í Sydney. Í kaupmálum er yfirleitt tiltekið hvernig hjón skuli skipta með sér eignum ef til skilnaðar kemur. Í mörgum kaupmálum eru nú ákvæði um það hvernig lífsstíll beggja hjónanna þurfi að vera til að hjónabandið endist. Þar geta verið ákvæði um það hvort hjónanna eldi, þrífi eða aki, hve þung þau megi vera, hvort þau megi eiga gæludýr, hvort þeirra eigi að viðra hundinn og hvort þeirra skuli fara út með sorpið. Christine Jeffress, sem er lögfræðingur, bendir á að fólk „búist síður við að sambandið endist að eilífu“.

Foreldrar í vandræðum með að sýna ástúð

„Sífellt fleiri foreldrar þurfa að fá handbók um meðferð ungra barna því að þeir virðast ófærir um að sýna þeim eðlilega ástúð.“ Þetta kemur fram í tímaritinu Newsweek Polska. Það þarf að kenna foreldrum grundvallaratriði eins og að faðma börnin, leika við þau og syngja fyrir þau. Allt er þetta nauðsynlegt til að börnin þroskist eðlilega. Rannsóknir sýna hins vegar að „það algengasta, sem pólskir foreldrar gera með börnunum, sé að horfa á sjónvarp og versla“. Að leika við þau er í sjötta sæti.