Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað segir Biblían um sambúð fyrir hjónaband?

Hvað segir Biblían um sambúð fyrir hjónaband?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað segir Biblían um sambúð fyrir hjónaband?

MYNDIRÐU kaupa jakkaföt eða kjól án þess að máta fötin fyrst? Sennilega ekki. Ef þú kæmist síðan að raun um að fötin pössuðu ekki værir þú búinn að sóa bæði tíma og peningum.

Margir nota svipuð rök varðandi hjónaband. Þeim finnst að það sé betra fyrir karl og konu að búa saman áður en þau skuldbinda sig með hjónabandi. Þeir hugsa sem svo að ef hlutirnir gangi ekki upp geti þau farið sitt í hvora áttina án þess að þurfa að ganga í gegnum flókinn og kostnaðarsaman skilnað.

Þeir sem eru á þessari skoðun hafa hugsanlega séð giftan vin sinn búa við heimilisofbeldi eða horft upp á skaðleg áhrif þess að vera í ástlausu hjónabandi. Þeir líta því á óvígða sambúð sem viturlega varúðarráðstöfun.

Hvert er sjónarmið Biblíunnar í þessu máli? Til að svara þeirri spurningu þurfum við að skoða hvað segir í orði Guðs um hjónabandið.

„Þau verða eitt“

Í Biblíunni erum við hvött til að bera virðingu fyrir hjónabandinu og það kemur ekki á óvart vegna þess að Jehóva Guð er höfundur þess. (1. Mósebók 2:21-24) Alveg frá upphafi var það fyrirætlun hans að maður og kona skyldu „verða eitt“ þegar þau giftust. (1. Mósebók 2:24) Jesús vitnaði í ritningarstaðinn þar sem þetta kemur fram og bætti við: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ — Matteus 19:6.

Sumir sem gifta sig eiga eftir að skilja. * En þegar það gerist er það ekki vegna þess að sjálft hjónabandsfyrirkomulagið sé gallað heldur vegna þess að annað hjónanna eða bæði halda ekki hjúskaparheitið.

Tökum dæmi. Segjum að hjón eigi bíl en þau sinna ekki viðhaldi á honum samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðandanum. Hverjum er það að kenna ef bíllinn bilar af þessum sökum? Framleiðandanum eða eigendunum sem sinntu ekki reglubundnu viðhaldi?

Sama á við um hjónaband. Þegar hjónin hlúa að sambandi sínu og eru staðráðin í að leysa vandamál sín með því að nota meginreglur Biblíunnar er mun ólíklegra að þau skilji. Þegar karl og kona giftast skuldbinda þau sig og það vekur gagnkvæma öryggiskennd. Hjónabandið verður þannig grundvöllur að ástríku sambandi.

„Haldið ykkur frá óskírlífi“

Samt hugsa sumir: „Hví ekki að búa saman fyrst? Sýnir það ekki virðingu fyrir heilagleika hjónabandsins að láta reyna á sambandið áður en fólk skuldbindur sig?“

Svar Biblíunnar er skýrt. Páll skrifaði: „Haldið ykkur frá óskírlífi.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3) Með orðinu „óskírlífi“ er átt við hvers konar kynferðisleg sambönd utan hjónabands. Það felur meðal annars í sér kynlíf fólks sem er í óvígðri sambúð jafnvel þótt það ætli sér að giftast. Samkvæmt Biblíunni er því rangt að karl og kona búi saman jafnvel þó að þau ætli sér að ganga í hjónaband.

Eru viðhorf Biblíunnar úrelt? Sumum finnst það. Í mörgum löndum er talið eðlilegt að fólk búi saman hvort sem það ætlar sér að giftast eða ekki. En íhugaðu afleiðingarnar. Hafa þeir sem eru í óvígðri sambúð fundið leyndarmálið að baki farsælu fjölskyldulífi? Eru þeir hamingjusamari en fólk sem gengur í hjónaband? Eru karl og kona, sem búa saman fyrir hjónabandið, líklegri til að vera hvort öðru trú eftir hjónavígsluna? Rannsóknir benda til hins gagnstæða. Raunin er sú að hjón sem byrja á því að búa saman virðast eiga við meiri erfiðleika að stríða í hjónabandinu og skilnaður er algengari.

Sumir sérfræðingar segja að slíkar rannsóknir séu gallaðar. „Fólk sem kýs að giftast án þess að búa fyrst saman hefur öðruvísi viðhorf en þeir sem ákveða að búa saman fyrir hjónaband,“ skrifar sálfræðingur. Hann fullyrðir að það sé ekki aðalatriðið hvort fólk hafi búið saman fyrir hjónabandið eða ekki heldur „hvernig fólk lítur á það að vera í hjónabandi“.

En jafnvel þó að þetta sé rétt undirstrikar það bara mikilvægi þess að tileinka sér viðhorf Guðs til hjónabandsins. Í Biblíunni er sagt: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum.“ (Hebreabréfið 13:4) Þegar karl og kona heita því að vera eitt og heiðra hjónabandið eiga þau samband sem er ekki auðvelt að slíta. — Prédikarinn 4:12.

En svo við lítum aftur á upphaflegu samlíkinguna, þá er viturlegt að máta jakkaföt eða kjól áður en maður kaupir flíkina. En það er ekki hliðstætt því að búa saman. Það er öllu heldur sambærilegt við að taka sér nægan tíma til að kynnast manneskjunni sem maður er að hugsa um að giftast. Þetta mikilvæga skref er eitt af leyndarmálunum að baki farsælu fjölskyldulífi en vill því miður oft gleymast.

[Neðanmáls]

^ Biblían leyfir fólki að skilja og stofna til nýs hjónabands ef makinn hefur haft kynmök utan hjónabands. — Matteus 19:9.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hvers vegna leyfir Biblían aðeins kynlíf innan hjónabands? — Sálmur 84:12; 1. Korintubréf 6:18.

◼ Hvaða eiginleikum ættirðu að leita eftir í fari tilvonandi maka? — Rutarbók 1:16, 17; Orðskviðirnir 31:10-31.

[Rammi á blaðsíðu 29]

„SYNDGAR Á MÓTI EIGIN LÍKAMA“

Í Biblíunni er sagt: „Saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.“ (1. Korintubréf 6:18) Á síðastliðnum áratugum hefur sýnt sig að þetta eru orð að sönnu. Milljónir hafa látist af völdum alnæmis eða annarra samræðissjúkdóma. En það er ekki allt og sumt. Rannsóknir gefa til kynna að þunglyndi og sjálfsvígstilraunir séu algengari meðal ungs fólks sem stundar kynlíf. Lauslæti leiðir líka til óæskilegra þungana og þá getur verið freistandi að láta eyða fóstri. Í ljósi staðreynda getum við dregið þá ályktun að siðferðislög Biblíunnar séu ekki úrelt.