Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég kynnst foreldrum mínum betur?

Hvernig get ég kynnst foreldrum mínum betur?

Ungt fólk spyr

Hvernig get ég kynnst foreldrum mínum betur?

Jóhanna og foreldrar hennar eru að borða með vinahjónum þeirra. Meðan þau borða segir annað hjónanna við mömmu Jóhönnu: „Hvern heldurðu að ég hafi séð um daginn? Hann Ragnar — kærastann þinn úr menntaskóla.“

Jóhanna missir gaffalinn úr höndunum. Hún hefur aldrei heyrt um Ragnar áður.

„Í alvöru, mamma, áttirðu einhvern annan kærasta en pabba? Ekki vissi ég það!“

HEFUR þú, líkt og Jóhanna, komist að einhverju um foreldra þína sem kom þér á óvart? Fórstu þá kannski að velta fyrir þér hvort það væri eitthvað fleira sem þú vissir ekki?

Af hverju veistu ekki allt um foreldra þína? Hvaða gagn hefðirðu af því að kynnast þeim betur? Og hvernig geturðu gert það?

Þú getur kynnst þeim betur

Af hverju veistu ekki allt um foreldra þína? Stundum er það vegna þess að foreldrarnir búa ekki saman. „Foreldrar mínir skildu þegar ég var átta ára,“ segir Jakob * sem er núna 22 ára. „Eftir það sá ég pabba bara nokkrum sinnum á ári. Það er margt sem mig langar til að vita um hann.“

Þótt þú hafir alist upp hjá báðum foreldrum þínum hafa þeir örugglega ekki sagt þér allt um sig. Af hverju ekki? Eins og hjá okkur flestum, skammast foreldrarnir sín oft fyrir mistök sem þeim varð á þegar þeir voru yngri. (Rómverjabréfið 3:23) Og þeir hafa kannski áhyggjur af því að þú missir virðinguna fyrir þeim — eða finnist þú geta leyft þér meira — ef þú kemst að mistökum þeirra.

En stundum hafa foreldrarnir ekki sagt þér eitthvað einfaldlega vegna þess að það kom aldrei til tals. Ungur maður að nafni Cameron segir: „Það er ótrúlegt hvernig maður getur búið með foreldrum sínum árum saman án þess að vita allt um þá.“ En hvernig væri að taka frumkvæðið að því að kynnast foreldrum þínum betur? Hugleiddu fjórar ástæður fyrir því að það gæti verið gagnlegt.

Nr. 1: Foreldrar þínir kunna örugglega að meta að þú sýnir þeim áhuga. Þeim þykir eflaust vænt um að þú viljir vita meira um líf þeirra. Og hver veit nema það fái þau til að sýna þér og tilfinningum þínum meiri skilning. — Matteus 7:12.

Nr. 2: Þú færð betri innsýn í skoðanir foreldra þinna. Höfðu foreldrar þínir til dæmis minna á milli handanna áður fyrr? Það útskýrir kannski hvers vegna þau eru alltaf að spara, jafnvel þótt þér finnist það óþarfi.

Það getur komið sér vel að skilja viðhorf foreldranna. Ungur maður, sem heitir Cody, segir: „Þegar ég skil betur hvernig foreldrar mínir hugsa get ég íhugað hvaða áhrif orð mín hafa á þá áður en ég tala.“ — Orðskviðirnir 15:23.

Nr. 3: Þú átt auðveldara með að tala um þín mál. „Mér fannst óþægilegt að tala við pabba um strák sem ég var hrifin af,“ segir Bridgette sem er 18 ára. „En þegar ég opnaði mig og talaði við hann sagði hann mér frá því þegar hann varð ástfanginn í fyrsta sinn og hvað það hefði verið æðislegt. Hann sagði mér meira að segja frá því þegar hann hætti með kærustunni og hve illa honum hefði liðið þá. Það hvatti mig til að segja honum meira frá mér.“

Nr. 4: Þú gætir lært eitthvað. Lífsreynsla foreldra þinna getur hjálpað þér að takast á við eigin áhyggjur. „Mig langar til að vita hvernig foreldrum mínum tekst að sjá fyrir stórri fjölskyldu með ólíkar líkamlegar, tilfinningalegar og andlegar þarfir,“ segir Jósúa sem er 16 ára. „Það hlýtur að vera margt sem ég get lært af þeim.“ Í Biblíunni segir: „Hjá öldruðum mönnum er speki, og langir lífdagar veita hyggindi.“ — Jobsbók 12:12, Biblían 1981.

Taktu frumkvæðið

Hvernig geturðu borið þig að ef þig langar til að kynnast foreldrum þínum betur? Hér koma nokkrar tillögur.

Veldu réttu aðstæðurnar. Þetta þurfa ekki alltaf að vera formlegar samræður. Reyndu frekar að tala við þau við hversdagslegar aðstæður. Það gæti verið þegar þið eruð í boltaleik, vinnið að einhverju saman, farið í göngutúr eða bíltúr saman. „Mér hefur reynst vel að tala við foreldra mína á löngum bílferðum,“ segir Cody sem minnst var á áðan. „Það er kannski auðveldara að setja upp heyrnartólin og hlusta á tónlist eða bara sofa en það hefur alltaf borgað sig að reyna að koma af stað samræðum.“

Spyrðu spurninga. Staðreyndin er sú að það er fremur ólíklegt að mamma þín segi þér upp úr þurru frá því þegar hún var fyrst skotin í strák þótt aðstæðurnar séu þær bestu. Og pabbi þinn fer ekki endilega að segja þér frá því þegar hann skemmdi bíl foreldra sinna. En þau segja þér kannski frá slíkum hlutum ef þú spyrð þau. — Í rammanum á bls. 12 eru tillögur að spurningum.

Vertu sveigjanleg(ur). Stundum getur svar við ákveðinni spurningu leitt samtalið að annarri sögu eða málefni. Það gæti verið freistandi að reyna að stýra samtalinu aftur að fyrsta málinu en gerðu það síður. Mundu að þú ert ekki bara að reyna að fá upplýsingar. Þú ert að reyna tengjast foreldrum þínum nánari böndum og ein besta leiðin til þess er að tala um það sem skiptir þá máli. — Filippíbréfið 2:4.

Sýndu góða dómgreind. „Ráð mannshjartans eru sem djúp vötn og hygginn maður eys af þeim.“ (Orðskviðirnir 20:5) Þú þarft að sýna hyggni, eða dómgreind, þegar þú reynir að fá foreldra þína til að tala um viðkvæm mál. Þig langar kannski til að vita hvaða vandræðalegu mistök pabbi þinn gerði á þínum aldri og hvað hann myndi gera öðruvísi ef hann fengi annað tækifæri. En áður en þú berð upp slík mál við hann gætirðu sagt: „Pabbi, er þér sama þótt ég spyrji þig um . . .“

Sýndu nærgætni. Þegar foreldrar þínir segja þér frá sjálfum sér skaltu vera „fljótur til að heyra, seinn til að tala“. (Jakobsbréfið 1:19) Hvað sem þú gerir skaltu ekki gera grín að því sem foreldrarnir segja eða móðga þá. Þú færð þá ekki til að opna sig meira fyrir þér með athugasemdum eins og: „Vá! Ég trúi ekki að þú hafir gert þetta!“ eða „Svo það er þess vegna sem þið eruð svona ströng við mig.“ Og þú ættir heldur ekki að segja einhverjum fyrir utan fjölskylduna frá einkamálum þeirra.

Það er aldrei of seint

Tillögurnar hérna á undan geta hjálpað þér að kynnast foreldrum þínum betur meðan þú býrð enn heima. En hvað ef þú ert flutt(ur) að heiman? Þú getur nýtt þér sömu atriðin til að endurnýja kynnin við foreldrana — eða jafnvel kynnast foreldri sem þú þekktir í raun aldrei. Jakob, sem minnst var á áðan, hefur reynslu af því. Þótt hann sé fluttur að heiman segir hann: „Ég hef verið að kynnast pabba mínum betur undanfarið og mér finnst það frábært.“

Hvort sem þú býrð heima eða ert flutt(ur) í burtu er aldrei um seinan að kynnast foreldrum sínum. Hvernig væri að prófa tillögurnar í þessari grein?

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvað af því sem nefnt var í greininni langar þig til að spyrja foreldra þína um?

◼ Hvernig geturðu lært meira um sjálfa(n) þig með því að kynnast foreldrum þínum betur?

[Rammi á blaðsíðu 12]

Spyrðu foreldra þína spurninga eins og:

HJÓNABAND: Hvernig kynntust þið mamma (eða pabbi)? Hvað laðaði ykkur að hvort öðru? Hvar bjugguð þið eftir að þið giftust?

BERNSKAN: Hvar fæddistu? Hvernig kom þér saman við systkini þín? Voru foreldrar þínir strangir við þig eða létu þeir mikið eftir þér?

MENNTUN: Í hvaða fagi gekk þér best í skólanum? Hvað var versta fagið þitt? Áttirðu uppáhaldskennara? Hvers vegna var þessi kennari svona sérstakur?

VINNA: Hver var fyrsta vinnan þín? Fannst þér hún skemmtileg? Hvað myndirðu helst vilja vinna við ef þú gætir valið?

ÁHUGAMÁL: Hvert myndirðu fara ef þú gætir ferðast hvert sem er? Hvað hefðirðu áhuga á að læra eða þjálfa þig í?

TRÚMÁL: Varstu alin(n) upp á kristnu heimili? Ef ekki, hvað vakti áhuga þinn á Biblíunni? Hvað þurftirðu að gera til að laga líf þitt að meginreglum Biblíunnar?

LÍFSGILDI: Hvað finnst þér skipta mestu máli til að halda góðu vinasambandi? til að lifa hamingjusömu lífi? til að hjónaband sé farsælt? Hvert er besta ráðið sem þú hefur fengið á ævinni?

Reyndu þetta: Veldu nokkrar spurningar hér að ofan og reyndu að giska á hverju foreldrar þínir myndu svara? Spyrðu þau síðan spurninganna og berðu svör þeirra saman við það sem þú hélst að þau myndu segja.

[Rammagrein á blaðsíðu 13]

TIL FORELDRA

Þú ert að borða kvöldmat með manninum þínum, dóttur og vinahjónum. Annað þeirra fer að tala um gamlan kærasta sem þú áttir — og hættir með — áður en þú hittir manninn þinn. Þú hefur ekki sagt dóttur þinni frá þessu. Nú langar hana að vita meira. Hvað ætlarðu að gera?

Oftast er best að taka vel í spurningar barnanna. Þegar þau spyrja þig spurninga og hlusta á svar þitt eruð þið að tala saman — og það er eitthvað sem flestir foreldrar vilja.

En hvað ættirðu að segja syni þínum eða dóttur mikið frá fortíð þinni? Það er ósköp eðlilegt að vilja síður segja frá einhverju sem þú skammast þín fyrir. En þegar það á við gæti verið gagnlegt fyrir börnin að vita eitthvað um mistök þín og erfiðleika. Hvernig þá?

Tökum dæmi. Páll postuli var opinskár um sjálfan sig og sagði: „Þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast . . . Ég aumur maður!“ (Rómverjabréfið 7:21-24) Jehóva Guð innblés honum að skrifa þessi orð og sá til þess að þau stæðu í Biblíunni okkur til gagns. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Og við höfum sannarlega gagn af þeim því hver getur ekki tekið undir þessi einlægu orð Páls?

Börnin þín eiga líka auðveldara með að skilja þig þegar þau fá að heyra bæði um góðar ákvarðanir sem þú hefur tekið og mistök sem þér hafa orðið á. Þú ólst auðvitað upp á öðrum tímum. En þótt tímarnir hafi breyst hefur mannlegt eðli ekki breyst og ekki heldur meginreglur Biblíunnar. (Sálmur 119:144) Að ræða um erfiðleika sem þú hefur þurft að glíma við — og hvernig þér tókst að sigrast á þeim — getur hjálpað unglingunum þegar þeir takast á við sín vandamál. „Þegar maður kemst að því að foreldrarnir hafa lent í svipuðum vandræðum og maður sjálfur finnst manni foreldrarnir vera manni miklu nær,“ segir ungur maður sem heitir Cameron. Hann bætir við: „Næst þegar maður á í vandræðum veltir maður fyrir sér hvort foreldrar manns hafi líka lent í þessu.“

Hafðu samt í huga að það þarf ekki að enda allar sögur á ráðleggingum. Þú gætir haft áhyggjur af því að unglingurinn þinn komist að rangri niðurstöðu eða noti söguna til að réttlæta eigin mistök. En í stað þess að telja upp hvað þú vilt að barnið þitt læri af þessum umræðum („Þess vegna ættirðu aldrei að . . .“) skaltu segja stuttlega hvaða lærdóm þú dróst af þessu. („Þegar ég lít til baka vildi ég að ég hefði ekki gert þetta vegna þess að . . .“) Sonur þinn eða dóttir getur þannig dregið mikinn lærdóm af reynslu þinni án þess að finnast þú hafa verið að lesa yfir sér. — Efesusbréfið 6:4.

[Rammi á blaðsíðu 13]

„Einu sinni játaði ég fyrir mömmu að mér fyndist auðveldara að tala við krakkana í skólanum en trúsystkini. Daginn eftir lá bréf á skrifborðinu mínu frá mömmu. Í bréfinu sagði hún mér að henni hefði líka fundist erfitt að eignast vini í söfnuðinum. Hún taldi upp nokkrar biblíupersónur sem þjónuðu Guði þótt enginn hefði verið til staðar til að veita þeim stuðning. Hún hrósaði mér líka fyrir að hafa reynt að eignast góða vini. Það kom mér á óvart að ég var ekki sú eina sem hafði þetta vandamál. Mamma hafði svipaða reynslu og mér fannst svo gott að fá að vita það að ég fór að gráta. Það sem mamma sagði hvatti mig líka mikið og fékk mig til að langa enn frekar að gera það sem var rétt.“ — Junko, 17 ára, Japan.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Biddu foreldra þína að sýna þér ljósmyndir eða eitthvað annað úr fortíð þeirra. Það getur oft komið af stað líflegum samræðum.