Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sundrað heimili — áhrif skilnaðar á unglinga

Sundrað heimili — áhrif skilnaðar á unglinga

Sundrað heimili — áhrif skilnaðar á unglinga

SÉRFRÆÐINGARNIR héldu að þeir væru með þetta allt á hreinu. „Þú verður að einbeita þér að þinni eigin hamingju,“ ráðlögðu þeir foreldrum í erfiðum hjónaböndum og bættu við: „Hafðu ekki áhyggjur af börnunum. Þau eru svo fljót að aðlagast. Það er auðveldara fyrir þau að sætta sig við skilnað heldur en að búa með foreldrum sem semur illa.“

Sumir ráðgjafar, sem áður mæltu með skilnaði, hafa hins vegar breytt um skoðun. „Skilnaður er stríð,“ segja þeir núna. „Hvorugur aðilinn gengur óskaddaður í burtu, ekki heldur börnin.“

Auðveldur skilnaður — er það möguleiki?

Þetta væri ágætisefni í gamanþátt í sjónvarpi. Söguþráðurinn? Pabbinn og mamman skilja. Mamman fær forræði yfir börnunum og giftist ekkli sem á einnig börn. Viku eftir viku mætir nýja fjölskyldan hverri skrautlegu uppákomunni á fætur annarri sem leysist síðan á spaugilegan hátt á þeim 30 mínútum sem þátturinn stendur yfir.

Ef til vill gætu aðstæðurnar hér fyrir ofan verið efni í skemmtilegt sjónvarpsefni. En raunverulegur skilnaður er enginn gamanþáttur heldur sársaukafullt ferli. „Skilnaður er málaferli,“ skrifar M. Gary Neuman í bók sinni Emotional Infidelity. „Annar makinn lögsækir hinn. Á því augnabliki sem þú ákveður að skilja ertu að afsala þér forræði yfir barninu þínu. Þú ert líka að afsala þér stjórn á fjármálum þínum og jafnvel á því hvar þú munt búa. Kannski fallist þið á einhverja málamiðlun — kannski ekki. Að endingu gæti ókunnug manneskja, sem kallast dómari, ákveðið hversu oft þú færð að sjá barnið þitt og hversu miklu af peningunum þínum þú heldur eftir. Og því miður hugsar þessi ókunnuga manneskja ekki nákvæmlega eins og þú.“

Oft þegar hjón skilja koma bara upp ný vandamál í staðinn fyrir þau gömlu. Allt getur breyst, frá fjármálum til búsetu, og sennilega ekki til hins betra. Og ekki má gleyma þeim áhrifum sem skilnaður hefur á börnin.

Skilnaður og unglingar

Skilnaður getur haft mjög skaðleg áhrif á börn, óháð aldri þeirra. Sumir vilja samt meina að skilnaður sé auðveldari fyrir unglinga. Rökin eru þau að unglingar séu þroskaðri og séu hvort sem er að búa sig undir að fara að heiman. En sérfræðingar sjá hins vegar aðra hlið á málinu. Þeir hafa komist að því að einmitt vegna þessara þátta geti skilnaður komið verst niður á unglingum. * Lítum á eftirfarandi.

◼ Þegar unglingar eru að stíga sín fyrstu skref í átt að því að verða fullorðnir eru þeir mjög óöruggir, jafnvel óöruggari en þeir voru sem börn. Láttu ekki blekkjast þótt þeir virðist sjálfstæðir — unglingar þarfnast stöðugleika í fjölskyldunni sem aldrei fyrr.

◼ Unglingsárin eru sá tími þegar við lærum að mynda þroskuð vináttubönd. En skilnaður fær unglinga til að efast um gildi eins og tryggð, traust og kærleika, og á fullorðinsárunum gætu þeir forðast að stofna til náinna sambanda.

◼ Það er algengt að vanlíðan barna á öllum aldri brjótist fram í slæmri hegðun, en unglingar eru líklegri til að taka upp hættulegri hegðun og lenda upp á kant við lögin eða fara út í áfengis- og fíkniefnaneyslu.

Þetta þýðir samt ekki að unglingar, sem upplifa skilnað foreldra sinna, séu dæmdir til að eiga erfitt tilfinningalega eða ganga illa í lífinu. Þeir geta spjarað sig vel, sérstaklega ef þeir eiga samband við báða foreldra sína. * Það er hins vegar barnalegt að halda að skilnaður verði alltaf, eins og sumir segja, „betri fyrir börnin“ eða að hann bindi enda á alla spennu milli hjónanna. Staðreyndin er sú að sumir þurfa að kljást meira við „óþolandi“ maka eftir skilnaðinn heldur en fyrir. Auk þess deila þeir nú um mun viðkvæmari mál eins og forræði og barnameðlag. Þegar svo er bindur skilnaðurinn ekki enda á fjölskylduvandamál heldur færir þau aðeins yfir á annað svið.

Þriðji möguleikinn

Hvað geturðu gert ef þið eigið í erfiðleikum í hjónabandinu og hafið hugleitt skilnað? Í þessari grein hefur verið bent á sannfærandi rök fyrir því að endurskoða málið. Skilnaður er ekki allsherjarlausn á hjónabandserfiðleikum.

Það ber ekki að skilja þetta sem svo að eina lausnin sé að umbera slæmt hjónaband. Það er annar möguleiki í stöðunni — ef hjónabandið þitt á undir högg að sækja hvers vegna ekki leggja vinnu í að bæta það? Hafnaðu ekki hugmyndinni strax með þeim rökum að hjónabandserjur ykkar séu óleysanlegar. Spyrðu þig eftirfarandi spurninga:

◼ Hvaða eiginleikum laðaðist ég að í fari maka míns í upphafi? Eru þessir eiginleikar ekki enn til staðar að vissu marki? — Orðskviðirnir 31:10, 29.

◼ Get ég endurvakið þær tilfinningar sem ég hafði til maka míns áður en við giftum okkur? — Ljóðaljóðin 2:2; 4:7.

◼ Óháð því hvað maki minn gerir, hvað get ég gert til að fylgja leiðbeiningunum á bls. 3 til 9 í þessu blaði? — Rómverjabréfið 12:18.

◼ Get ég útskýrt fyrir maka mínum (augliti til auglitis eða skriflega) hvernig ég vilji að sambandið verði betra? — Jobsbók 10:1.

◼ Gætum við sest niður með þroskuðum vini sem gæti hjálpað okkur að setja okkur raunhæf markmið til að bæta hjónabandið? — Orðskviðirnir 27:17.

Biblían segir: „Hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ (Orðskviðirnir 14:15) Þessi meginregla á ekki aðeins við þegar maður velur sér maka heldur einnig þegar maður íhugar hvað hægt sé að gera þegar hjónabandið stendur völtum fótum. Eins og fram kom á bls. 9 í þessu blaði koma líka upp vandamál í farsælum fjölskyldum — munurinn er hins vegar sá hvernig tekist er á við þau.

Tökum dæmi: Ímyndaðu þér að þú sért lagður af stað í langferð á bíl. Það er óhjákvæmilegt að þú lendir í einhverjum vandræðum á leiðinni eins og umferðarteppu, vegatálmum eða vondu veðri. Þú gætir jafnvel villst á leiðinni. Hvað gerirðu? Snýrðu við og ferðu til baka eða finnurðu leið til að yfirstíga hindranirnar og halda áfram? Á brúðkaupsdeginum lagðirðu af stað í ferðalag sem þú vissir að myndi hafa einhver vandamál í för með sér því að í Biblíunni segir um þá sem ganga í hjónaband: „Erfitt verður slíkum lífið hér á jörðu.“ (1. Korintubréf 7:28) Spurningin er ekki hvort vandamál komi upp heldur hvernig þú tekst á við þau þegar þau láta á sér kræla. Geturðu fundið leið til að yfirstíga hindranirnar og halda áfram? Muntu leita hjálpar jafnvel þótt þér finnist öll von vera úti um hjónaband þitt? — Jakobsbréfið 5:14.

Hjónabandið er ráðstöfun Guðs

Hjónabandið er ráðstöfun Guðs og því ætti ekki að líta það léttvægum augum. (1. Mósebók 2:24) Þegar vandamálin virðast óyfirstíganleg skaltu muna eftir leiðbeiningunum í þessari grein.

1. Reyndu að endurvekja ástina sem þú hafðir til maka þíns áður. — Ljóðaljóðin 8:6.

2. Ákveddu hvað þú getur gert til að bæta hjónabandið og gerðu það síðan. — Jakobsbréfið 1:22.

3. Segðu maka þínum skýrt en með virðingu — annaðhvort augliti til auglitis eða skriflega — hvað þér finnist þið þurfa að gera til að bæta hjónabandið. — Jobsbók 7:11.

4. Leitaðu hjálpar. Þú þarft ekki að bjarga hjónabandinu upp á eigin spýtur!

[Neðanmáls]

^ Í þessari grein er einblínt á unglinga, en skilnaður hefur einnig áhrif á yngri börn. Nánari upplýsingar um það er að finna í Vaknið! apríl-júní 1991, bls. 3-11 og Vaknið! (á ensku) 8. desember, 1997, bls. 3-12.

^ Að sjálfsögðu er þetta ekki alltaf mögulegt, sérstaklega ef foreldri hefur yfirgefið fjölskylduna eða er á einhvern annan hátt augljóslega óábyrgt eða jafnvel hættulegt. — 1. Tímóteusarbréf 5:8, Biblían 1981.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 19]

„Í ÞETTA SKIPTIÐ TEKST MÉR ÞAГ

Rannsóknir sýna að ef fyrsta hjónabandið fer út um þúfur eru miklar líkur á því að annað hjónabandið geri það líka, og enn meiri líkur á að þriðja hjónabandið endist ekki. Í bók sinni Emotional Infidelity bendir M. Gary Neuman á eina ástæðu fyrir þessu. „Ef þú átt í erfiðleikum í fyrsta hjónabandinu,“ skrifar hann, „snýst vandinn ekki bara um slæmt val þitt á maka heldur snýst þetta um þig. Þú varðst ástfanginn af þessari manneskju. Þú hefur unnið með maka þínum að því að skapa það sem þið hafið eða hafið ekki.“ Niðurstaða Neumans er því þessi: „Það er betra að losa sig við vandamálið og halda makanum en að losa sig við makann og halda vandamálinu.“

[Rammagrein á blaðsíðu 21]

EF HJÓNABANDIÐ ENDAR

Í Biblíunni er viðurkennt að alvarlegar aðstæður geti leitt til skilnaðar. * Ef það hefur hent fjölskylduna þína hvernig geturðu þá hjálpað unglingnum að aðlagast breyttum aðstæðum?

Segðu unglingnum hvað sé í vændum. Ef það er mögulegt ættu báðir foreldrarnir að gera þetta saman. Segið unglingnum að ákvörðunin um skilnað sé endanleg. Fullvissið unglinginn um að þetta sé ekki honum að kenna og að þið munið bæði halda áfram að elska hann.

Farðu af vígvellinum — stríðinu er lokið. Sumir foreldrar halda áfram að berjast hvort gegn öðru löngu eftir skilnaðinn. Þau verða eins og einn sérfræðingur komst að orði, „löglega skilin en tilfinningalega gift. Þau eru eins og hermenn stríðandi fylkinga sem tekst ekki að semja um friðsamlegt vopnahlé.“ Þetta kemur ekki aðeins í veg fyrir að unglingurinn fái tíma og athygli frá foreldrunum — þar sem mamma og pabbi eru alltaf að takast á út af einu eða öðru — heldur ýtir einnig undir að unglingurinn egni foreldrana upp á móti hvort öðru til að fá sínu fram. Sonur gæti til dæmis sagt við mömmu sína: „Pabbi leyfir mér að vera úti eins lengi og ég vil. Af hverju leyfir þú mér það ekki?“ Og mamman lætur undan því að hún vill ekki að sonurinn flýi yfir í „óvinabúðirnar“.

Leyfðu unglingnum að tala. Unglingar gætu hugsað sem svo: „Fyrst foreldrar mínir hættu að elska hvort annað gætu þau hætt að elska mig“ eða „Fyrst foreldrar mínir brutu reglurnar hvers vegna má ég það ekki líka?“ Til að sefa ótta unglingsins og leiðrétta rangan hugsunarhátt skaltu gefa honum nægan tíma til að tala. En smá varnaðarorð: Skiptu hins vegar ekki um hlutverk með því að leita eftir tilfinningalegum stuðningi hjá unglingnum. Þetta er barnið þitt ekki trúnaðarmaður þinn.

Hvettu unglinginn til að eiga heilbrigt samband við fyrrverandi maka þinn. Sá eða sú sem þú skildir við er fyrrverandi maki þinn en ekki fyrrverandi foreldri barnsins þíns. Að tala illa um þessa manneskju er skaðlegt. Í bókinni Teens in Turmoil — A Path to Change for Parents, Adolescents, and Their Families segir: „Ef foreldrar kjósa að nota börnin sem vopn á vígvelli skilnaðarins mega þeir búast við að uppskera eins og þeir sá.“

Hugsaðu vel um sjálfan þig. Stundum gæti þyrmt yfir þig. En gefstu ekki upp. Viðhaltu heilbrigðum venjum. Ef þú ert vottur Jehóva skaltu halda áfram að sinna því sem tengist trúnni. Ef þú gerir það hjálpar það þér og unglingnum að halda ykkar striki. — Sálmur 18:3; Matteus 28:19, 20; Hebreabréfið 10:24, 25.

[Neðanmáls]

^ Samkvæmt Biblíunni er aðeins hægt að giftast á ný eftir að hjónabandi er slitið ef annað hjónanna hefur framið hjúskaparbrot. (Matteus 19:9) Ef um hjúskaparbrot er að ræða er það undir saklausa makanum komið — ekki fjölskyldunni eða öðrum — að ákveða hvort skilnaður sé besti kosturinn. — Galatabréfið 6:5.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Leggðu þig fram um að standa við loforðið sem þú gafst á brúðkaupsdeginum.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Ef mögulegt er skaltu hvetja unglinginn til að eiga heilbrigt samband við fyrrverandi maka þinn.