Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Úr þögulli þjónustu í heilaga þjónustu

Úr þögulli þjónustu í heilaga þjónustu

Úr þögulli þjónustu í heilaga þjónustu

Andrew Hogg segir frá

„Ef við þurfum einhvern tíma að skjóta kjarnaflaugunum hefur okkur mistekist ætlunarverk okkar,“ sagði kafbátsforinginn. Þetta var upphafið að líflegum umræðum um siðfræði kjarnorkuhernaðar. En hvernig bar það til að ég fór að gegna herþjónustu á kafbáti, stundum kallað þögla þjónustan vegna þess að við reynum að láta ekki sjást eða heyrast til okkar?

ÉG FÆDDIST árið 1944 í borginni Fíladelfíu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Pabbi minn, afi og móðurbróðir höfðu allir gegnt herþjónustu og litu á það sem göfugasta starf sem hægt væri að takast á hendur. Þeir höfðu sterk áhrif á mig á uppvaxtarárunum. Sem drengur lagði ég leið mína um hafnarsvæðið þar sem sjóherinn hafði aðstöðu og sá þá kafbát í fyrsta sinn. Þaðan í frá var það markmið mitt að komast á kafbát. Ég var á síðasta ári í framhaldsskóla þegar ég fékk inngöngu í skóla bandaríska sjóhersins og útskrifaðist þaðan fjórum árum síðar, í júní 1966.

Ég fékk aðgang að kjarnorkukafbátaáætlun Bandaríkjanna og fékk þar menntun í kjarnorkuverkfræði og kafbátarekstri. Í apríl 1967 giftist ég Mary Lee Carter sem er eiginkona mín enn þann dag í dag. Í mars 1968 rættist bernskudraumurinn þegar ég fékk pláss á fyrsta kafbátnum mínum, Jack. Um ári síðar ól Mary Lee fyrra barnið okkar, hana Allison.

Árið 1971 var ég skipaður vélstjóri á kafbátnum Andrew Jackson en það var yfirmaður á honum sem sagði orðin hér að ofan. Þessi kafbátur var búinn Polaris-flugskeytum. Við vorum í hafi þegar upp kom neyðarástand sem allir kafbátsmenn óttast. Það braust út eldur. Það var skömmu eftir miðnætti og ég var að slaka á með nokkrum yfirmönnum þegar við fundum þungt högg. Viðvörunarbjallan fór af stað og í kallkerfinu heyrðist: „Eldur í fyrsta vélarrúmi!“

Þar sem nálega allur vél- og rafbúnaður var á minni könnu hljóp ég aftur í til að kanna skemmdirnar. Eldur hafði blossað upp í einni vélinni sem framleiðir súrefni og loft til öndunar. Ég og þrír aðrir settum á okkur öndunargrímur og okkur tókst að fjarlægja allt eldfimt gas af svæðinu. Enginn slasaðist sem betur fer. Þrátt fyrir óhappið tókst okkur að halda ferðinni áfram sem vitnaði um góða þjálfun áhafnarinnar.

Ég valdi mér lesefni um friðarsinna

Við vorum hvattir til að takast á við álagið í vinnunni með því að nota fáeinar klukkustundir í viku til að fást við eitthvað menningarlegt. Ég var vanur að lesa ævisögur þekktra manna sem stundað höfðu hermennsku. Einn daginn ákvað ég hins vegar að lesa um heimsþekktan friðarsinna — Jesú Krist. Ég tók fram biblíuna sem mér hafði verið gefin þegar ég útskrifaðist úr herskólanum og sökkti mér niður í guðspjöllin. En lesturinn vakti fleiri spurningar en hann svaraði. Ég þarfnaðist aðstoðar.

Túrinn var næstum á enda þegar kafbátsforinginn kallaði alla yfirmennina á fund í borðstofunni og tilkynnti: „Herrar mínir. Vélstjóranum okkar hefur verið falið besta starfið í Bandaríska sjóhernum. Hann verður yfirvélstjóri fyrsta bátsins í nýjum flokki árásarkafbáta sjóhersins.“ Mig rak í rogastans.

Vegna nýja starfsins þurfti fjölskyldan að flytjast til Newport News í Virginíu þar sem kafbáturinn Los Angeles var í smíðum. Starf mitt fólst í því að hafa umsjón með prófunum á öllum vélbúnaði og semja tæknilegar handbækur og námskeið. Starfið var ákaflega margþætt en einkar ánægjulegt. Við Mary Lee eignuðumst soninn Drew meðan á þessu stóð. Ég var nú orðinn tveggja barna faðir og hugurinn leitaði aftur til Guðs. Hvað skyldi honum finnast um stríð? hugsaði ég. Hvað gerist við dauðann? Er til helvíti?

Loksins fékk ég svör

Það var um þetta leyti sem Mary Lee fór að ræða við votta Jehóva. Einn daginn, þegar ég hringdi heim frá skipasmíðastöðinni, sagði hún: „Það eru tvær ,biblíukonur‘ hérna.“

„Frá hvaða trúfélagi?“ spurði ég.

„Vottum Jehóva,“ svaraði hún.

Ég hafði ekki hugmynd um hverjir Vottar Jehóva væru en mig langaði til að skilja Biblíuna. „Bjóddu þeim að koma eitthvert kvöldið,“ sagði ég. Skömmu síðar kom önnur þeirra ásamt manninum sínum og við hjónin fórum að kynna okkur Biblíuna.

Loksins fór ég að fá svör við spurningunum sem höfðu leitað á mig árum saman. Ég uppgötvaði til dæmis að þeir sem eru dánir „vita ekki neitt“, ekki frekar en svæfu þeir djúpum svefni — en það var samlíking sem Jesús notaði. (Prédikarinn 9:5; Jóhannes 11:11-14) Hinir dánu búa því hvorki við himnasælu né vítiskvalir heldur „sofa“ dauðasvefni og bíða upprisu.

Við Mary Lee fórum líka að sækja samkomur í næsta ríkissal. Þar sáum við hvernig vottarnir þjónuðu Guði saman í friði og einingu óháð menningu, menntun og þjóðerni. Við hjónin komumst að þeirri niðurstöðu að Biblían gæti virkilega bætt líf fólks. — Sálmur 19:8-11.

Við þurftum að taka ákvörðun

Kafbátar úr Atlantshafsflota Bandaríkjanna komu við sögu þegar stríð Araba og Ísraela braust út árið 1973. Átökin hefðu hæglega getað stigmagnast, og það rann upp fyrir mér að það yrði ekki komið á sönnum og varanlegum friði fyrir atbeina stjórnmálamanna heldur yrði Guðsríki að koma til. Ég hafði reyndar oft beðið: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni,“ en ég vissi ekki hvað það þýddi. (Matteus 6:9, 10) Nú skildi ég hins vegar að ríki Guðs er himnesk stjórn sem tekur bráðlega öll völd á jörðinni og hreinsar hana af allri illsku og öllum vondum mönnum. — Daníel 2:44; 7:13, 14.

Einn ritningarstaður olli mér talsverðum heilabrotum. Það var 2. Korintubréf 10:3, 4. Þar stendur: „Þótt ég sé maður berst ég ekki á mannlegan hátt — því að vopnin, sem ég nota, eru ekki jarðnesk heldur máttug vopn Guðs.“ Ég komst að raun um að „vopn“ sannkristinna manna eru andlegs eðlis, meðal annars „sverð andans“, heilög Biblía. — Efesusbréfið 6:17.

Ég stóð nú á krossgötum. Átti ég að halda áfram starfi mínu sem mér þótti bæði áhugavert og ánægjulegt eða átti ég að laga líf mitt að sannleika Biblíunnar? Eftir að hafa hugleitt málið gaumgæfilega og rætt það við Guð í bæn komst ég að þeirri niðurstöðu að ef ég vildi í alvöru stuðla að friði ætti ég gera eins og Guð vill.

Nýi „yfirforinginn“ minn

Við Mary Lee ræddum saman um framtíð okkar og gerðum hana að bænarefni. Við ákváðum að við ætluðum að þjóna „æðsta yfirforingjanum“ — Jehóva Guði. Við ákváðum bæði tvö að vígja líf okkar Jehóva og ég sagði mig úr hernum. Ég var fluttur til Norfolk í Virginíu meðan ég beið þess að vera leystur frá störfum. Flestir af yfirmönnunum, sem ég vann með, voru forviða yfir ákvörðun minni og sumir frekar fjandsamlegir. En aðrir sýndu einlægan áhuga á biblíulegri afstöðu minni og virtu hana.

Ég var leystur frá störfum árið 1974. Sama ár létum við hjónin skírast til tákns um að við værum vígð Guði. Það var á umdæmismóti Votta Jehóva, „Fyrirætlun Guðs“, sem haldið var í Hampton í Virginíu. (Matteus 28:19, 20) Nýr kafli var hafinn í lífi okkar.

Nýjar áskoranir

Við Mary Lee áttum tvö ung börn, vorum tekjulaus og spariféð okkar rétt dugði til að framfleyta okkur í tvo til þrjá mánuði. Ég sendi ferilskrána mína til allmargra vinnuveitenda og setti traust mitt á Jehóva. Áður en langt um leið bauðst mér vinna hjá veitufyrirtæki. Launin voru um það bil helmingur af því sem ég hafði þénað hjá hernum en þetta gerði okkur kleift að búa áfram á svæðinu.

Þegar við hjónin þroskuðumst í trúnni langaði okkur til að gera meira í þjónustu Jehóva. Fjölskylda, sem við þekktum í söfnuðinum, hafði flust til miðhluta Virginíu þar sem vantaði fleiri biblíukennara, og bauð okkur í heimsókn. Þessi eina heimsókn dugði til þess að við fórum að leggja á ráðin um flutning. Ég sótti um að fá að flytja til annarrar starfsstöðvar fyrirtækisins og mér til ánægju var það samþykkt. Ég fékk meira að segja stöðuhækkun. Og fyrirtækið féllst á að greiða kostnaðinn af flutningunum. Guð annast þá sem leggja sig fram um að gera vilja hans, hugsuðum við. — Matteus 6:33.

Við höfum valið okkur fremur einfaldan lífsstíl þannig að við hjónin höfum getað notað stóran hluta af tíma okkar til að boða trúna. Það hafði jafnframt í för með sér að við gátum verið mikið með börnunum meðan þau voru að vaxa úr grasi. Það hefur skilað sér og veitt okkur ómælda gleði því að bæði Allison og Drew hafa haldið áfram að ,hlýða sannleikanum‘. — 3. Jóhannesarbréf 4; Orðskviðirnir 23:24.

Það hafa auðvitað komið stundir í lífinu þegar við höfum haft áhyggjur af peningum, húsnæði, heilsunni eða því að eldast. En Jehóva hefur alltaf staðið með okkur. Sé ég eftir því að hafa yfirgefið „þöglu þjónustuna“? Alls ekki. Þegar við Mary Lee lítum um öxl getum við sagt án minnsta efa að það sé ekki til göfugra starf og meira gefandi en að þjóna Jehóva. — Prédikarinn 12:13.

[Innskot á bls. 30]

Við ákváðum að þjóna „æðsta yfirforingjanum“.

[Mynd á bls. 28, 29]

Kafbáturinn „Los Angeles“.

[Rétthafi myndar]

U.S. Navy photo

[Mynd á bls. 29]

Nýleg mynd af okkur hjónunum.