Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjáið nafn Guðs í Danmörku

Sjáið nafn Guðs í Danmörku

Sjáið nafn Guðs í Danmörku

ÁR HVERT vekur það athygli margra ferðamanna í Kaupmannahöfn að sjá nafn Guðs, Jehóva, eða hebreska mynd þess, יהוה, á köstulum og öðrum byggingum í borginni og næsta nágrenni hennar. * Til dæmis stendur nafn Guðs stórum gylltum stöfum fyrir ofan dyr að Holmenskirkju (Holmens Kirke) í miðborg Kaupmannahafnar. Og nafnið er líka að finna innanhúss á minningarskildi frá 1661.

Í göngufæri frá Holmenskirkju er Sívaliturn (Rundetårn). Á útveggnum stendur nafn Guðs stórum hebreskum stöfum í eins konar myndagátu á latínu. Þar stendur: „Jehóva, leggðu rétta kenningu og réttlæti í hjarta hins krýnda konungs Kristjáns fjórða.“ Hvernig varð nafn Guðs svona vel þekkt í Danmörku?

Siðbót mótmælenda og biblíuþýðingar

Siðbót mótmælenda átti stóran þátt í því að nafn Guðs breiddist út. Evrópskir siðbótarmenn eins og Marteinn Lúter, Jóhann Kalvín og Ulrich Zwingli rannsökuðu Biblíuna vandlega og rýndu í frummál hennar — hebresku, arameísku og almenna grísku (koine). Þannig kynntust þeir nafni Guðs. „Þetta nafn, Jehóva . . . tilheyrir aðeins hinum sanna Guði,“ sagði Marteinn Lúter í prédikun.

Þegar Lúter þýddi Biblíuna á þýsku hélt hann sig samt við þá óbiblíulegu hefð að þýða nafn Guðs sem „Drottinn“ eða „Guð“ og nota þannig titla í stað nafnsins. Síðar bað Lúter samstarfsmann sinn, Johannes Bugenhagen, að gera aðra útgáfu af henni á lágþýsku, málinu sem var talað í Norður-Þýskalandi og suðurhluta Danmerkur. Í formála útgáfunnar frá 1541 (fyrsta útgáfa var 1533) vísaði Bugenhagen þó nokkrum sinnum í nafn Guðs, meðal annars með þessum orðum: „Jehóva er heilagt nafn Guðs.“

Árið 1604 ræddi guðfræðingur að nafni Hans Poulsen Resen við Kristján konung fjórða um vissar villur í danskri þýðingu á biblíu Lúters. Hann bað um leyfi til að gera nýja þýðingu byggða á hebreska og gríska frumtextanum. Leyfið var veitt. Resen skrifaði í athugasemd við 1. Mósebók 2:4 að „Jehóva“ sé „hinn hæsti, hinn eini Drottinn“. *

Þegar nafnið var orðið þekkt fór það að birtast á opinberum stöðum. Til dæmis skipaði Hans Poulsen Resen svo fyrir árið 1624, þá orðinn biskup, að settur yrði upp veggskjöldur í Brønshøj-kirkju. Efst á skildinum stendur nafn Guðs á dönsku, Jehova, með gullletri. Í mörgum ritum Resens fylgja orðin „Jehóva sér“ með undirskrift hans.

Í lok 18. aldar var þýsk biblíuþýðing eftir Johann David Michaelis þýdd og gefin út á dönsku. Nafn Guðs er einnig að finna á mörgum stöðum í þessari biblíu. Christian Kalkar og fleiri biblíuþýðendur á 19. öld létu nafn Guðs líka standa á flestum þeim stöðum sem það stendur í frumtextanum. Og árið 1985 gáfu Vottar Jehóva út Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar á dönsku. Biblíuunnendur voru mjög glaðir að sjá nafn Jehóva þar yfir 7000 sinnum.

Jesús Kristur sagði í bæn til Guðs: „Ég hef opinberað nafn þitt.“ (Jóhannes 17:6) Og í bæninni, sem er stundum kölluð „faðirvorið“, sagði hann: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Margir hafa tekið þessi orð alvarlega eins og kirkjusaga Danmerkur sýnir glöggt.

[Neðanmáls]

^ Þessir fjórir stafir, kallaðir fjórstafanafnið, eru samhljóðar og lesnir frá hægri til vinstri. Oftast eru þeir umritaðir YHWH eða JHVH. Fyrr á öldum bætti lesandinn við sérhljóðunum sem vantaði, eins og algengt er þegar skammstafanir eru lesnar.

^ Í frumtexta Biblíunnar kemur nafn Guðs fyrst fyrir í 1. Mósebók 2:4. Nafnið, sem stendur um það bil 7000 sinnum í frumtextanum, þýðir „hann lætur verða“ og auðkennir Jehóva sem þann Guð sem kemur áformum sínum alltaf í framkvæmd. Það sem hann segir verður.

[Rammi/mynd á bls. 17]

TYCHO BRAHE OG NAFN GUÐS

Árið 1597 yfirgaf danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe heimaland sitt eftir ósætti við danska aðalinn og Kristján konung fjórða. Í kveðjuljóði til Danmerkur orti Brahe á latínu: „Útlendingar munu sýna mér vinsemd — það er vilji Jehóva.“

[Mynd á bls. 16, 17]

Yfir dyrum að Holmenskirkju.

[Mynd á bls. 16, 17]

Sívaliturn.

[Mynd á bls. 17]

Hans Poulsen Resen.

[Mynd á bls. 17]

Johannes Bugenhagen notaði nafn Guðs í formála Lútersbiblíu á lágþýsku árið 1541.

[Rétthafi myndar á bls. 17]

Hans Poulsen Resen og Tycho Brahe: Kobberstiksamlingen, Det Kongelige Bibliotek, Kaupmannahöfn.