Það sem við lærum af náttúrunni
Það sem við lærum af náttúrunni
„Hversu mörg eru verk þín, Drottinn? Þú vannst þau öll af speki.“ — Sálmur 104:24.
MARGIR nota orðið „náttúra“ til að lýsa því afli sem hannaði hinar lifandi verur. Sem dæmi má nefna tímaritið Scientific American. Í mars 2003 stóð í blaðinu: „Af öllum þeim hlífðarkápum, sem náttúran hefur hannað, er ekkert eins fjölbreytt og dularfullt og fjaðrirnar.“ Enda þótt greinarhöfundur hafi ef til vill hugsað um náttúruna sem ópersónulegt afl segir hann að náttúran hafi „hannað“ fjaðrirnar. Getur ópersónulegt afl hannað eitthvað?
„Að hanna“ merkir að „gera grunnteikningar að, ráða fyrirkomulagi á, skipuleggja“. (Íslensk orðabók) Það þarf persónu til að hanna og finna upp hluti. Uppfinningamenn heita hver sínu nafni og skaparinn á sér sömuleiðis nafn. Jehóva er höfundur og hönnuður náttúrunnar. Hann einn er „Hinn hæsti yfir allri jörðinni“ og „hefur skapað alla hluti“. — Sálmur 83:19; Opinberunarbókin 4:11.
Hvað getum við mennirnir lært af náttúrunni? Mikilvægasti lærdómurinn er fólginn í því sem hún segir okkur um Jehóva og frábæra eiginleika hans, þar á meðal visku hans. „Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ (Rómverjabréfið 1:20) Við lærum af náttúrunni að Guð er miklu vitrari en við. Fyrst hann getur hannað hluti betur en nokkur uppfinningamaður er þá ekki rökrétt að hann geti gefið okkur betri ráð en nokkur ráðgjafi úr hópi manna?
Þó að hægt sé að læra ótalmargt af „bók náttúrunnar“ er ráðleggingar Guðs fyrst og fremst að finna í orði hans Biblíunni. Hún hefur að geyma hafsjó af visku enda segir í henni: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Ef þú hefur gaman af að fræðast um færa uppfinningamenn hefurðu sennilega enn meiri ánægju af að fræðast um skaparann. Trúlega langar þig til að fá svör við spurningum eins og: Af hverju þurfum við að þjást og síðan deyja? Var það ætlun Guðs að maðurinn hlyti það hlutskipti? Ef ekki, hvers vegna leyfir hann þá að þessar þjáningar gangi yfir manninn?
Hvort sem vísindamenn vilja viðurkenna það eða ekki hafa þeir lært hönnun af Jehóva. Þú getur líka lært margt af skapara þínum. Til dæmis geturðu lært hvernig hægt sé að búa í traustu hjónabandi og vera góður uppalandi, hvað Guð ætlist fyrir með jörðina og margt fleira sem getur gefið lífinu gildi. Bókin Hvað kennir Biblían? er gefin út af Vottum Jehóva og getur hjálpað þér að hafa sem mest gagn af orði Guðs.